Ávöxtun Fjárfestar óttast að hlutabréfamarkaðir gefi eftir á næstunni.
Ávöxtun Fjárfestar óttast að hlutabréfamarkaðir gefi eftir á næstunni. — AFP
Stefán E. Stefánsson Aron Þórður Albertsson Augu fjárfesta um heim allan eru á helstu hlutabréfamörkuðum þar sem talsverðs taugatitrings gætir um þessar mundir. Virðast fjárfestar í auknum mæli telja hættu á samdrætti í heimshagkerfinu.

Stefán E. Stefánsson

Aron Þórður Albertsson

Augu fjárfesta um heim allan eru á helstu hlutabréfamörkuðum þar sem talsverðs taugatitrings gætir um þessar mundir. Virðast fjárfestar í auknum mæli telja hættu á samdrætti í heimshagkerfinu. Þannig litu hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum illa út skömmu eftir opnun í gær. Þeir réttu hins vegar úr kútnum þegar nýjar tölur voru birtar um einkaneyslu þar í landi sem gáfu til kynna að enn væri þróttur í hagkerfinu. Þá gladdi það fjárfesta þegar netverslanarisinn Alibaba kynnti uppgjör sitt fyrir fyrri árshelming sem sýndi að sala fyrirtækisins jókst um 42% milli ára og fór fram úr væntingum sem gerðu ráð fyrir minni vexti í ljósi viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Kína.

Enn meiri titrings gætti í Kauphöllum víðsvegar í Evrópu þar sem vextir hafa lækkað. Er það til marks um erfiða stöðu á fjármálamörkuðum að hinn danski Jyske Bank býður nú viðskiptavinum sínum húsnæðislán á -0,5% föstum vöxtum til 10 ára. Þá greindi Wall Street Journal frá því í gær og hafði eftir heimildarmönnum innan Evrópska seðlabankans (ECB) að í september myndi stofnunin kynna afar umfangsmiklar örvunaraðgerðir sem koma mundu til viðbótar við sögulega lága stýrivexti og gríðarlega innspýtingu í formi svokallaðrar magnbundinnar íhlutunar.

Sigurður Rúnar Ólafsson, sérfræðingur markaðsviðskipta hjá Íslenskum verðbréfum segir að titring í heimshagkerfinu megi ekki síst rekja til deilna Bandaríkjamanna og Kínverja á undanförnum misserum.

„Þess utan er Brexit yfirvofandi, stjórnmálakrísa á Ítalíu, aukin harka í Hong Kong auk ýmiss annars. Það er margt sem telur í þessu og jafnvel margt sem getur verið uppsafnað,“ segir Sigurður Rúnar.

Hann bendir einnig á að miklar stýrivaxtalækkanir ECB hafi að einhverju leyti mislukkast. Þeim hafi verið ætlað að hvetja fólk til fjárfestinga. „Neikvæðir vextir fá fólk yfirleitt til þess að skríða inn í skelina frekar en að fjárfesta,“ segir hann.

Aukinn titringur á markaðnum í Bandaríkjunum hefur hins vegar aukið líkurnar á því að Donald Trump færist nær því að semja frið í deilunum við Kína. Þannig bendir Bloomberg á að í kjölfar þess að hlutabréfavísitölur tóku að snúast niður á við hafi tístum forsetans fjölgað þar sem hann fór fögrum orðum um Xi Jinping, forseta Kína. Hafi hann kallað hann „góðan mann“ og „mikinn leiðtoga.“ Eru ummæli forsetans talin til marks um að hann vilji rétta sáttahönd til mótherja sinna í Asíu í því skyni að róa markaðina heima.

Afkomuviðvörun setur strik í reikninginn

Ljóst var frá opnun markaða hér heima í gærmorgun að fjárfestar voru ekki jákvæðir á horfurnar framundan. Það var hins vegar laust upp úr klukkan þrjú síðdegis sem Reitir, stærsta fasteignafélagið í Kauphöll Íslands, sendi frá sér afkomuviðvörun þar sem spá félagsins um rekstrarhagnað fyrir matsbreytingar var færð niður um 300-450 milljónir króna fyrir árið. Segir félagið breyttar horfur skýrast af fækkun ferðamanna og þyngri rekstrarhorfum „í mörgum atvinnugreinum“eins og það var orðað.

Hrökk markaðurinn allur við þegar tíðindin bárust og lækkuðu bréf allra félaga í Kauphöllinni snarpt að bréfum Sýnar undanskildum en engin viðskipti voru með bréf félagsins í gær.

Mest lækkuðu Reitir eða um tæp 5%. Fast á hæla félagsins kom Reginn sem lækkaði um 4,7% og þá lækkaði Eik um 3,6%. Icelandair Group tók einnig á sig högg og lækkaði um 4,8%. Þá lækkaði Marel, langstærsta félagið í Kauphöll, um tæp 3,5%.