[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skemmtilegasti tími ársins er fram undan. Eftir heitar sumarnætur er farið að skyggja á ný og flest þráum við að komast í rútínu eftir hömluleysi sumarsins.

Skemmtilegasti tími ársins er fram undan. Eftir heitar sumarnætur er farið að skyggja á ný og flest þráum við að komast í rútínu eftir hömluleysi sumarsins.

Þetta er líka tíminn þegar fólk skipuleggur komandi vetur og reynir að gera örlítið betra mót nú en í fyrra. Það er samt vandlifað í þessum heimi því mannfólkið þarf alltaf einhverja örvun en svo má hún ekki vera of mikil svo við brennum ekki yfir.

Flestir eru þó sammála um að áhugavert nám og námskeið auðgi líf okkar, planti nýjum hugmyndum og trekki okkur í gang.

Ef þú ert ekki með neinar hugmyndir um hvað þú gætir gert til að trekkja þig í gang eru fjölmargar góðar hugmyndir hér í blaðinu sem gætu hjálpað þér að taka ákvörðun. Hvort sem það er að skrá þig í dansnám, auka leshraðann, fara í MBA-nám eða komast að því í eitt skipti fyrir öll hvað allir þessir draumar þýða eiginlega. En á Akureyri er hægt að fara á sérstakt draumanámskeið sem hjálpar þér að ráða í ævintýri næturinnar.

Samningatækni er til dæmis nokkuð sem við þyrftum flest að vera betri í. Aðalsteinn Leifsson, sérfræðingur í samningatækni, segir að allt lífið snúist um að semja, hvort sem það er á vinnumarkaði eða í einkalífi. Ef við erum góð í að semja verðum við ánægðari með eigin tilveru.

„Hjónabandið er í grunninn samningur um að elska, styðja og rækta hvort annað – við erum í þessu saman til að við getum bæði vaxið og notið. Við hjónin höfum verið saman í meira en 25 ár, við eigum fjögur börn og erum bæði mjög virk og fáum ólíkar hugmyndir. Við höfum t.d. flutt til Noregs til þess að ég geti elt mína drauma og til Brussel til að hún geti elt sína. Sumir samningar okkar á milli eru næstum formlegir, eins og um verkaskiptingu á heimilinu, þar sem okkur tókst að finna lausn sem virkar fullkomlega fyrir okkur eftir rúmlega 15 ára hjónaband og miklar viðræður,“ segir hann í viðtali við Skólablaðið.

Í blaðinu er líka viðtal við Ólöfu Júlíusdóttur, sem í dag ver doktorsritgerð sína í félagsfræði við Háskóla Íslands. Í ritgerðinni skoðaði hún stöðu kynjanna á vinnumarkaði og þá sérstaklega í viðskiptalífinu. Í niðurstöðum ritgerðarinnar kom fram að ástin spilar stórt hlutverk þegar kemur að stöðu kvenna í atvinnulífinu. „Þrátt fyrir að hægt sé að kaupa sér þrif og pössun er ekki hægt að kaupa sig frá allri ábyrgð. En við lifum á tímum frjálshyggjunnar þegar tími er mældur í peningum og tíminn sem fer í að sinna fjölskyldunni nýtur síður virðingar í okkar samfélagi,“ segir Ólöf í viðtalinu.

Þótt við séum frekar framarlega þegar kemur að jafnréttisbaráttu er enn mikill munur á stöðu kvenna í stjórnendastöðum í viðskiptalífinu.

Fólk í nútíma ástarsamböndum og hjónaböndum getur að sjálfsögðu lagt sitt af mörkum þegar kemur að eigin heimilislífi þótt það ráði ekki öllu á vinnustaðnum sínum. Við getum til dæmis ákveðið að taka jafnmikið til, getum skipst á að kaupa í matinn og elda og með góðri samningatækni er hægt að skipta með sér verkum á sanngjarnan hátt án þess að allt fari í hund og kött.

Aðalsteinn bendir líka á að það sé aldrei bara ein leið í boði og fólk þurfi að átta sig á því. Hann bendir á að við lendum í ógöngum þegar við erum til í að gera hvað sem er til að eignast eitthvað eitt frekar en annað, eins og til dæmis hús eða bíl.

Í þetta má lesa að lífið verður í raun miklu betra ef fólk sleppir tökunum og hugsar áður en það framkvæmir.