Rashida Tlaib
Rashida Tlaib — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Innanríkisráðuneyti Ísraels tilkynnti í gær að það hefði ákveðið að meina tveimur bandarískum þingkonum að ferðast til landsins vegna þess að þær hefðu hvatt fólk til að sniðganga ísraelskar vörur.

Innanríkisráðuneyti Ísraels tilkynnti í gær að það hefði ákveðið að meina tveimur bandarískum þingkonum að ferðast til landsins vegna þess að þær hefðu hvatt fólk til að sniðganga ísraelskar vörur.

Gert hafði verið ráð fyrir því að þingkonurnar tvær, Ilhan Omar og Rashida Tlaib, færu til Ísraels um helgina. Þær hugðust fara á svæði Palestínumanna á Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem.

Omar og Tlaib hafa báðar hvatt til þess að ísraelskar vörur verði sniðgengnar vegna mannréttindabrota Ísraela á svæðum Palestínumanna. Lög í Ísrael heimila að þeim sem beita sér gegn landinu með þessum hætti verði meinað að ferðast þangað en ísraelskir embættismenn höfðu sagt að þingmönnum frá Bandaríkjunum yrði veitt undanþága.

Innanríkisráðuneytið tilkynnti ákvörðun sína skömmu eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti til þess að þingkonunum yrði meinað að ferðast til Ísraels. Hann sagði á Twitter að það væri til marks um „mikinn veikleika“ ef stjórnvöld í Ísrael heimiluðu bandarísku þingkonunum að ferðast þangað. „Þær hata Ísrael og alla gyðingaþjóðina,“ sagði hann.

Óvirðing við þingið?

Áhrifamikill þrýstihópur stuðningsmanna Ísraels í Bandaríkjunum, AIPAC, kvaðst vera andvígur ákvörðun ísraelskra stjórnvalda. Þótt hann væri ósammála viðhorfum þingkvennanna tveggja til Ísraels teldi hann að leyfa ætti öllum kjörnum fulltrúum bandarísku þjóðarinnar að ferðast þangað.

Tlaib er af palestínskum ættum en fæddist í Michigan. Omar fæddist í Sómalíu og var kjörin í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Minnesota í síðustu kosningum. Þær hafa báðar neitað því að þær hati gyðinga.

Palestínski embættismaðurinn Hanan Ashrawi sagði að ákvörðun Ísraelsstjórnar væri „svívirðileg atlaga að bandarísku þjóðinni og fulltrúum hennar“ og „hættulegt fordæmi“ sem samræmdist ekki venjum í samskiptum ríkja.

Trump hafði áður gagnrýnt Tlaib og Omar harkalega og hvatt þær til að fara aftur til landa sinna.

Tom Malinowski, demókrati í fulltrúadeildinni, sagði að ákvörðun Ísraela væri óvirðing við þing Bandaríkjanna og gagnrýndi ummæli Trumps um þingkonurnar. „Fyrst sagði hann þingkonunni Tlaib að „fara aftur“ til landsins „hennar“ en svo segir hann því landi að hleypa henni ekki þangað.“ bogi@mbl.is