Arnar Pálmason fæddist á Ísafirði 17. ágúst 1986. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítala 7. ágúst 2019.

Foreldrar hans eru Pálmi Kristinn Jónsson, f. 7. janúar 1960, og Jóhanna Jóhannesdóttir, f. 30 mars 1967. Foreldrar Pálma eru Jón Páll Halldórsson, f. 2. október 1929, og Hulda Pálmadóttir, f. 16. september 1927, d. 30. október 2018. Foreldrar Jóhönnu eru Guðni Ásmundsson, f. 9. september 1938, og Sigrún Vernharðsdóttir, f. 29. júní 1940.

Systkini Arnars eru: Jón Guðni, f. 15. febrúar 1990, unnusta Kristín Greta Bjarnadóttir, f. 12. apríl 1992, dætur þeirra Hólmfríður, f. 2011, og Daníela, f. 2017; Hulda, f. 28. október 1998, sambýlismaður Vilmundur R. Reimarsson, f. 6. maí 1998.

Arnar kvæntist 16. janúar 2016 Kristínu Ólafsdóttur, f. 16. september 1986. Synir þeirra eru Ólafur Ernir, f. 16. júní 2011, og Einar Atli, f. 29. júní 2014. Foreldrar Kristínar eru Áslaug S. Alfreðsdóttir, f. 30. mars 1950, og Ólafur Örn Ólafsson, f. 20. desember 1953. Bræður Kristínar eru Geir Oddur, f. 1979, og Gylfi, f. 1983.

Arnar ólst upp á Ísafirði og Mjólkárvirkjun í Arnarfirði þar sem fjölskyldan bjó í fjögur ár. Hann gekk í grunnskóla og menntaskóla á Ísafirði þaðan sem hann lauk stúdentsprófi og prófi í húsasmíði árið 2009.

Lengst af vann Arnar sem nemi og síðar húsasmiður hjá Vestfirskum verktökum á Ísafirði. Auk þess starfaði hann meðal annars hjá slökkviliði Ísafjarðarbæjar, hjá Íbúðalánasjóði og Húsasmiðjunni. Síðustu ár stundaði Arnar nám við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Útför Arnars fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 16. ágúst 2019, klukkan 15.

Þær haldast fast í hendur systurnar; ást og söknuður, og flestir kynnast þeim á lífsleiðinni. Nú togast á þessar tilfinningar, að elska eins mikið og ég elska Arnar en á sama tíma finna fyrir svona botnlausum söknuði.

Arnar var gömul sál og það lék allt í höndum hans. Handlaginn og úrræðagóður, vandvirkur og hugmyndaríkur. Mikill áhugamaður um tónlist, vín, mat og föt. Smekkmaður.

Af æðruleysi, hugrekki og miklum krafti tókst Arnar minn alltaf á við sín alvarlegu veikindi. Æðruleysi hans og viðhorf til lífsins var einstakt. Hann gaf alltaf allt í hlutina, sama hvað það kostaði. Allt sem Arnar ætlaði sér, það gerði hann og það sem hann ætlaði að gera með strákunum okkar, það gerði hann. Hann var alltaf til staðar fyrir okkur.

Eftir situr mikill tómleiki, sorg og söknuður og eigum við erfitt og stórt verkefni fyrir höndum en ég geymi í hjarta mínu um ókomin ár minningar um yndislegasta manninn, minn allra besta vin og pabba.

Elsku ástin mín, vináttu okkar fylgdi óbilandi ást, væntumþykja og virðing og það geymi ég í hjarta mínu alla tíð. Ég mun halda fast utan um drengina okkar, ala þá upp eftir okkar gildum og minna þá á hversu mikill Ísfirðingur pabbi þeirra var.

Þín

Kristín.

Elsku Arnar, nú hefur þú kvatt okkur í hinsta sinn.

Eftir sitja margar minningar um yndislegan og umhyggjusaman bróður sem ávallt passaði upp á litlu systur sína. Kenndir mér á lífið og veginn. Þú hafðir mikla þolinmæði fyrir mér og nenntir að kenna mér og hjálpa í hverju sem var, hvort sem það var skólaverkefni eða lífið. Eins og þú sagðir alltaf; það væri svo gott að hafa mig því ég hefði svo góða nærveru. Þú varst besti bróðir sem maður getur óskað sér.

Alla mína tíð hef ég litið upp til þín og reynt að tileinka mér umhyggjusemi þína, dugnað og hugrekki. Þú hafðir svo einstakt viðhorf til lífsins og marga drauma.

Við áttum einstaka vináttu og fyrir hana er ég ævinlega þakklát.

Minning þín lifir í hjarta okkar alla tíð.

Þér ég þakka

vináttu og góðar stundir

Hlýja hönd og handleiðslu,

okkar stundir saman.

Bjartar minningar lifa

ævina á enda.

(Hulda Ólafsdóttir)

Þangað til næst.

Þín

Hulda.

Elsku bróðir. Það er óraunverulegt að þú sért farinn frá okkur. Aldrei hugsaði maður til þess að það yrði raunveruleikinn þrátt fyrir að hafa alltaf talað opinskátt um dauðann, alveg frá því við vorum unglingar. Oft sagðistu hafa það á tilfinningunni að þú yrðir ekki langlífur.

Þú hefur alltaf fyllt mann af bjartsýni og von í þínum veikindum. Það var alveg sama hversu mikið gekk á; hugurinn var alltaf á réttum stað, sem lýsti einstöku geði þínu. Það var alveg sama hvað menn reyndu að fá þig til að hugsa svart, þú varst alltaf jákvæður fram á hinsta dag.

Þegar ég sest niður og fer að hugsa til baka rifjast upp fyrir mér hvernig persónuleiki þinn var strax frá upphafi. Þolinmæðin sem þú hafðir fyrir mér og leiknum með gröfurnar og bílana þrátt fyrir að þú værir orðinn tólf ára og ég átta. Ég gleymi því ekki hvað ég var sár þegar mamma sagði eitt sinn við mig að þú hefðir ekki áhuga á að leika með þetta dót við mig lengur, þá varstu líklega búinn að sitja á þér lengi. Ég man líka eftir öllum Lethal Weapon- og Die Hard-maraþonunum yfir jólin þar sem smákökurnar og skinkuhornin voru kláruð í óþökk mömmu, og ekki má gleyma jólaísnum.

Í seinni tíð, eftir að börnin okkar fæddust, urðum við enn nánari og samverustundirnar fleiri. Við heyrðumst í síma daglega og afrekuðum að fara í fullt af fjölskyldufríum saman með krakkana okkar og sköpuðum þannig minningar sem ég mun alltaf lifa á. Fyrir það er ég þakklátur.

Það sem ég mun sakna þín, elsku bróðir minn. Það á eftir að vera mér erfitt að hafa þig ekki hér til að leita ráða hjá og það sem ég á eftir að sakna allra löngu símtalanna sem við áttum þegar krakkarnir voru sofnaðir. Ég mun standa við það sem ég var búinn að lofa þér; að halda minningu þinni á lofti, bæði við mín börn og þín. Ég mun passa upp á strákana þína og Kristínu þína, því skal ég lofa.

Þinn bróðir,

Jón Guðni Pálmason.

Við kynnumst Arnari þegar Kristín dóttir okkar og hann byrjuðu saman árið 2010. Næstu árin bjuggu þau til skiptis á Ísafirði og Reykjavík. Fljótlega eignuðust þau Ólaf Erni. Þegar þau voru á Ísafirði, meðal annars með yngri soninn Einar Atla sem brjóstmylking, bjuggu þau í kjallaranum hjá okkur. Sú sambúð var einstaklega góð enda Arnar mikið ljúfmenni.

Arnar lærði húsasmíði á Ísafirði og vann við það um árabil auk sjúkraflutninga þar til fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. Hugur hans stefndi í háskólanám og stundaði hann það meðan heilsa og kraftar leyfðu.

Krabbameinið sem hann fékk var mjög sjaldgæft og því lítið um rannsóknir og lyf. Veikindin hófust fyrir um áratug og á þeim tíma skiptust á góð og erfið tímabil. Arnar tókst á við veikindi sín af svo miklu æðruleysi að undrum sætti, eins og raunar allt það sem hann tókst á við. Lundarfar hans var einstakt, hann skipti aldrei skapi og hafði þolinmæði til að taka öllu með jafnaðargeði. Þau Kristín voru samstiga í að lifa lífinu á heilbrigðan og jákvæðan hátt og njóta þess tíma sem þau höfðu.

Arnar var mikill fjölskyldumaður og stórfjölskyldan var honum allt. Hann var mjög barngóður og sérlega natinn við syni sína, var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda. Hann var umhyggjusamur og hafði mikinn áhuga á fólki og átti auðvelt með að ræða við fólk á öllum aldri.

Arnar var einstaklega bóngóður og þótti aldrei neitt mál að aðstoða auk þess sem hann var mjög vandvirkur, mikill dútlari og vildi gera alla hluti vel.

Áhugamálin voru af ýmsum toga, öll útivera, skíði og allt sem tengdist veiði. Hann útbjó sér aðstöðu í bílskúrnum þar sem hann gat dundað sér við alls kyns verkefni. Hann hafði mikinn áhuga á myndlist og ljósmyndun og ekki má gleyma áhuga hans á víni og mat. Hann þreyttist aldrei á að tala um og rifja upp gamlar minningar frá uppáhaldsstöðunum sínum í Trostansfirði og Fljótavík. Það var honum mikil gleði að geta heimsótt báða þessa staði í fyrrasumar.

Allt var í röð og reglu og á sínum stað hjá Arnari og hann hafði smekk fyrir gæðum og fallegum hlutum og sterkar skoðanir á fatnaði og fatamerkjum.

Tónlist skipaði stóran sess hjá Arnari og þá aðallega tónlist frá sjöunda og áttunda áratugnum. Þeir Óli ræddu oft og lengi um tónlist og fóru ófáar ferðir, bæði innanlands og utan, til að sjá og heyra í goðunum m.a. Rolling Stones, Black Sabbath og Paul McCartney.

Arnar var stoð og stytta þegar kom að tæknimálum tengdaforeldrana; uppfæra tölvu, tengja eða leiðrétta eitthvað, alltaf gat hann komið okkur til bjargar án þess að pirrast yfir klaufaskapnum.

Það er vart hægt að hugsa sér betri vin og tengdason, enda kallaði Óli hann „Arnar minn“. Hugulsamur, ósérhlífinn og hugsaði alltaf fyrst um aðra. Hann var alltaf til staðar með sitt ljúfa skap, sem breyttist aldrei, sama hvað á dundi.

Arnar okkar þráði það heitast að geta notið lífsins með fjölskyldunni og fylgt sonum sínum út í lífið, en örlögin urðu önnur og nú kveðjum við góðan dreng eftir löng og ströng veikindi.

Ólafur og Áslaug.

Það var fyrir sléttum níu árum að Kristín mætti með Arnar í sumarferð Miðtúnsfjölskyldunnar að Mývatni. Við fundum strax að um vandaðan mann var að ræða og féll hann fljótt og vel inn í fjölskylduna.

Arnar var einstaklega barngóður og tengdust hann og elsta dóttir okkar, Kristín Lilja, sterkum böndum. Gekk hann ætíð undir nafninu uppáhaldsfrændinn. Það er í raun ekkert skrýtið að hann hafi hlotið þann titil því Arnar var einstakur maður, traustur og heill. Þegar það var flís í tá, eyrnalokksfesting föst í eyrnasnepli eða laus tönn var það alltaf Arnar sem mátti skoða og ákveða hvað gert yrði í málunum. Börnin treystu honum enda kom hann alltaf fram við þau af virðingu, hlýju og einstakri góðmennsku.

Arnari var hjálpsemi í blóð borin og ekkert verkefni var honum óviðkomandi eða of stórt, hvort sem um var að ræða fiðrildakökugerð fyrir afmæli eða flutningsþrif. Hann vildi taka þátt í lífinu og tók fagnandi á móti nýjum áskorunum, alltaf jákvæður og með bros á vör. Hann lagði ríka áherslu á séntilmennsku og var alltaf snyrtilegur og flottur í tauinu.

Arnar hafði mikinn og einlægan áhuga á fólki. Hann var nærgætinn og átti auðvelt með að setja sig í spor annarra. Einn af mörgum mannkostum Arnars var hversu næmt auga hann hafði fyrir styrkleikum fólks og var hann afskaplega duglegur að hrósa – hvort sem það voru hans nánustu eða aðrir.

Þegar halla tók undan fæti hjá Arnari tóku þau hjónin hverju verkefni með opnum hug, jákvæðni og æðruleysi. Samband þeirra var þroskað og einstakt og skein vináttan, væntumþykjan og styrkurinn í gegn. Kristín, Arnar og strákarnir tveir nýttu hvert tækifæri til að skapa saman góðar minningar, t.d. með því að fara í ferðalög, á skíði eða í hjólatúra. Þrátt fyrir erfið tímabil var ekkert gefið eftir og þau gáfu enn meira af sér. Kristín og Arnar hafa kennt okkur öllum mikið um lífið og tilveruna og það að geta notið hvers dags eru forréttindi sem þakka ber fyrir.

Það er þyngra en tárum taki að kveðja Arnar okkar en minningin um yndislegan og einstakan dreng lifir í hjarta okkar alla tíð.

Geir Oddur, Erla Sigríður

og dætur.

Það er sárt að kveðja þann sem hefur fylgt manni frá fyrstu minningum, gengið hlið við hlið í gegnum lífið. Drengurinn sem ekkert vildi nema Honey Nut Cheerios varð fljótt að rödd skynseminnar fyrir stóra frænda sinn og var það allt til enda.

Í millitíðinni höfðum við brasað svo ótalmargt, allt frá því gera stíflur í Fljótavík til þess að fá leyfi til að vaka eftir úrslitakeppni NBA í körfubolta, tíu og sjö ára gamlir, á Urðarveginum. Okkur var það sérstaklega minnisstætt því þarna sátum við agndofa frændurnir þegar skipt var af leiknum í háspennueltingaleik lögreglunnar við O.J. Simpson, leikinn sáum við ekki en það skipti engu, þetta var miklu betra.

Arnar var höfðingi heim að sækja alla tíð. Við félagarnir að sunnan lögðum í fræga ferð vestur á ball hvítasunnuhelgina 2004 á tveimur fullum bílum. Þegar við vorum komnir í Ísafjarðardjúp hringir Arnar og segir okkur að koma beint upp á Engjaveg þar sem biðu veitingar og grillmatur sem nægt hefðu að minnsta kosti helmingi fleirum. Ferðirnar vestur voru ótalmargar þar sem klukkan var alltaf gleði og margar stórkostlegar hugmyndir kviknuðu sem flestar áttu það sameiginlegt að vera gleymdar daginn eftir.

Áhugamálin þróuðust í sitthvora áttina og þegar kom að tónlist voru fáir fróðari. Það átti fyrst við um tónlist sem gerð hafði verið fyrir þó nokkru enda heillaði gamli tíminn Arnar alla tíð. Sögurnar af Woodstock og fleiri viðburðum voru sagðar af einskærum áhuga og þekkingu. Það kom að því að stóri frændi var beðinn að halda sögum af dönsum okkar við hljómsveitina Offspring fyrir sig, sem var að sjálfsögðu samþykkt.

Vináttan var yfir áhugamál hafin, frændskapurinn var alltaf ósnertanlegur og aldrei rifumst við eða létum okkur leiðast. Staðan er aldrei svo slæm að ekki megi hallmæla vinstriflokkunum eða ylja sér við mynd úr Clint Eastwood-safninu, það vissum við frændurnir manna best.

Smiðsprófið var tekið með stæl enda voru handlagnari menn vandfundnir. Arnar hafði hæfileika, þolinmæði og jafnaðargerð til að leysa öll þau erfiðu verkefni sem lögð voru fyrir hann, aldrei af neinu hálfkáki, heldur svo gott sem fullkomlega. Þegar kom að heimferð suður í eitt skiptið kom Arnar til mín með gjöf í hendinni. Hann vissi að ég hafði týnt tóbakssprautunni minni sem ég gat illa án verið í slíkum ferðum og hafði gert nýja úr varahlutum og tæknilegó. Sú sprauta virkaði óaðfinnanlega en það er fátt sem lýsir Arnari betur en þetta, því svona var hann alltaf. Traustur og úrræðagóður drengur sem setti þá sem honum þótti vænt um alltaf í fyrsta sæti og gerði alla tíð. Betri vin og samferðamann mun enginn finna.

Elsku Arnar, það er þyngra en tárum taki að rita þessi orð þótt ég reyni að hafa þitt einstaka æðruleysi og jákvæðni að leiðarljósi, sem er eitt af mörgu sem þú kenndir mér í öllu þínu ósanngjarna mótlæti. Kristínu, strákunum og fjölskyldunni sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Takk fyrir vináttuna, trygglyndið, trúna og allar ótalmörgu minningarnar sem munu ylja mér alla tíð.

Þú varst mér og verður alltaf sem bróðir.

Einar Jóhannes Finnbogason.

Þá er komið að kveðjustund, kæri vinur. Sú tilhugsun er bæði erfið og ósanngjörn en eftir sitja ógrynni af góðum minningum.

Að eiga þig sem vin voru forréttindi. Það var gott að vera í kringum þig, enda ávallt með bros á vör og í góðu skapi. Samband okkar var einlægt og hafðir þú oft orð á því hversu þakklátur þú varst fyrir vinskapinn. Sannarlega varstu höfðingi heim að sækja hvort sem það var á Engjaveginum eða í Safamýrinni. Ætíð verður það fast í huga okkar hvernig þú tókst á móti okkur með opnum örmum í inniskónum og sagðir: „Sælir vinir, komið inn, má bjóða ykkur eitthvað?“ Það var bæði auðvelt og ánægjulegt að ræða við þig og gátum við spjallað saman um daginn og veginn svo tímunum skipti; um heimahagana ástkæru, matreiðslu, tónlist, gömlu tímana, málefni líðandi stundar og hvaðeina annað sem bar á góma. Upp í hugann koma þær fjölmörgu sögur sem þú sagðir svo skemmtilega frá af gömlum rokkhundum, en þá gat maður ekki annað en hangið á hverju orði. Þú varst aldrei feiminn að ræða veikindin þín ef maður spurði, en ræddir þau ekki að fyrra bragði enda ávallt svo hógvær. Það er sárt að hugsa til þess að samræðurnar verði ekki fleiri.

Fyrir okkur varstu alltaf fyrirmynd í lífinu og verður það um ókomna tíð. Jákvæðni þín og þolinmæði eru eiginleikar sem við getum horft til og lært af. Þegar leiðir ykkar Kristínar lágu loksins saman og þið eignuðust strákana ykkar varst þú okkur leiðarljós í því hvernig á að vera faðir og eiginmaður. Það var aðdáunarvert að sjá hvernig þú umgekkst fjölskylduna af þínum einstaka kærleik. Að fylgjast með þér og Kristínu takast á við erfið veikindi er okkur síðan kennsla í því hvernig maður tekst á við áskoranir í lífinu. Fyrir það allt verðum við þér ævinlega þakklátir.

Elsku Arnar, það er sárt að þurfa að kveðja. Eftir situr einstök vinátta, full af gleði, skilningi, væntumþykju og minningum sem gleymast aldrei.

Þínir vinir,

Gunnar Ingi og Unnþór.