Ómar af kynngimagnaðri fjarveru nefnist einkasýning Karls Ómarssonar sem opnuð verður í dag kl. 17 í Nýlistasafninu í Marshall-húsinu. „ Ómar af kynngimagnaðri fjarveru virkar sem leiðarljós og afvegur í senn.
Ómar af kynngimagnaðri fjarveru nefnist einkasýning Karls Ómarssonar sem opnuð verður í dag kl. 17 í Nýlistasafninu í Marshall-húsinu.

Ómar af kynngimagnaðri fjarveru virkar sem leiðarljós og afvegur í senn. Verkin fela í sér kunnuglega eiginleika; form, efni, línur, orð og liti, fyrirbæri sem við höfum áður litið auga, snert, hlustað á og loks fært í orð. Á sama tíma leysa yfirborð verkanna upp fyrirfram gefnar hugmyndir, fjarlægja samhengi og losa um þær upplýsingar sem hafa safnast saman í huganum yfir lengri tíma. Verkin ölva fremur en upplýsa og opna þannig á annan lestur — Leið út í bláinn. Stað þar sem fyrirmyndir og hliðstæður hafa verið fjarlægðar eða afmyndaðar. Eftir stendur rými til ímyndunar, aftengingar og upprifjunar þar sem léttilega er skautað framhjá því sjálfsagða,“ segir í tilkynningu um sýninguna.

Karl er fæddur 1975 og nam myndlist við Listaháskóla Íslands, Hoegenschule vor der Bildende Kunst í Utrecht og University of the Arts í London. Hann vinnur í fjölbreytta miðla með teikningu, innsetningu, ljósmyndir, umhverfisverk og vídeó og ávallt með upphafspunkt í gjörningnum sem rannsóknartæki.

Karl leitast við að vera í jafnvægi milli draumórakenndrar trúar á huglægt ímyndunarafl og aðferðafræðilegra rannsókna byggða á list, eins og það er orðað. „Eins og syfjaður rökfræðingur hefur listamaðurinn smættað aðferðir sínar í eftirfarandi fullyrðingu: ég vinn með höfuðið í skýjunum á sama tíma og fæturnir eru kirfilega staðsettir á jörðinni,“ segir í tilkynningu.