88,85% þeirra hluthafa sem sóttu hluthafafund HB Granda síðdegis í gær samþykktu kaup félagsins á sölufélögum Útgerðarfélags Reykjavíkur (sem áður hét Brim hf.

88,85% þeirra hluthafa sem sóttu hluthafafund HB Granda síðdegis í gær samþykktu kaup félagsins á sölufélögum Útgerðarfélags Reykjavíkur (sem áður hét Brim hf.), stærsta hluthafa HB Granda, í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína sem og þjónustufélagi á Íslandi sem tengist framangreindum félögum. Kaupin voru samþykkt með breytingatillögu sem Lífeyrissjóður verslunarmanna hafði lagt fram fyrri part dags í gær sem kvað á um að kaupverðið væri skilyrðum um tiltekinn rekstrarárangur bundið. Áður hafði lífeyrissjóðurinn Gildi lýst því yfir að hann hygðist greiða atkvæði gegn kaupunum.Kaupverðið er greitt með útgáfu nýrra hluta og nemur það 34,9 milljónum dollara, jafnvirði 4,3 milljarða króna. Verði samanlögð EBITDA hinna keyptu félaga undir 8,3 milljónum dollara skal frávikið frá þeirri fjárhæð margfaldað með stuðlinum 7,6 og sú fjárhæð kemur þá til lækkunar kaupverðs. Verður lækkunin greidd með endurgreiðslu kaupverðs.

Möguleg lækkun kaupverðs mun þó aldrei nema meira en 35% af upphaflegu kaupverði.

Á hluthafafundinum var einnig tekin fyrir tillaga þess efnis að nafni HB Granda yrði breytt í Brim hf. Var sú tillaga samþykkt með 90,95% atkvæða þeirra hluthafa sem fundinn sóttu. ses@mbl.is