Sigríður Ósk fæddist 19. júní 1964 á Ísafirði, yngst fjögurra systkina. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 22. júlí 2019.

Foreldrar hennar voru Maríanna Hallgrímsdóttir, f. 2. desember 1928, d. 24. september 1980, og Jón Kristinsson, f. 17. maí 1925, d. 24. desember 1997. Systkini Sigríðar Óskar eru Hansína Kolbrún, gift Gunnari Má Gíslasyni, Kristinn, kvæntur Sigurlaugu Bjarnadóttur, og Guðrún Halla.

Fyrsta árið bjó Sigríður Ósk á Suðureyri við Súgandafjörð en þá flutti fjölskyldan suður, fyrst að Kleppjárnsreykjum í Reykholtsdal í eitt ár en síðan að Skógum undir Eyjafjöllum. Sigríður Ósk flutti að heiman árið 1972 á Kópavogshæli, þá að verða átta ára. Árið 1986 flutti hún á sambýlið í Klettahrauni 17 í Hafnarfirði og 21. júlí 2002 á nýtt sambýli í Hafnarfirði í Blikaási 1 og bjó þar upp frá því.

Útför Sigríðar Óskar fer fram frá Ástjarnarkirkju í dag, 16. ágúst 2019, klukkan 13.

Í dag kveð ég elsku litlu systur mína með miklum söknuði.

Sigríður Ósk var frá fæðingu mikið fötluð og birtist fötlunin í því að vöðvar líkamans ýmist spenntust eða slöknuðu ósjálfrátt og hún gat því litla stjórn haft á hreyfingum sínum. Hún gat ekki talað og augun og tungan nánast það eina sem hún hafði stjórn á. Þrátt fyrir þessa miklu fötlun hafði hún gott skap, var oftast létt í lund og hláturmild, enda mikill húmoristi. Okkur í fjölskyldu hennar og öðrum sem umgengust hana mikið varð snemma ljóst að hugur hennar var ekki skaddaður. Hún fylgdist grannt með öllu sem fram fór í kringum hana og sýndi augljós merki þess að hún skynjaði sorg og gleði, alvöru og kátínu. Hún var mikill fjörkálfur sem barn og þótti okkur eldri systkinum hennar mjög gaman að leika við hana, þar sem hún lá á eldhús- eða stofugólfinu eða á grasinu utan dyra.

Á unglingsárum komst hún loks í skóla. Þá kom í ljós að hún var læs, skarpgreind og skáldmælt. Í skólanum fékk hún aðgang að tölvu sem tengd var við hljóðnema og með miklum erfiðismunum gat hún loksins sagt frá ýmsu sem í huga hennar bjó. Hún sagði meðal annars frá því að hún hefði lært að lesa þegar mamma las fyrir hana á kvöldin og fylgdi línunni með fingrinum á meðan hún las. Einnig tókst henni með hjálp tölvunnar að koma á blað vísum sem hún hafði ort. Sá sem tókst þannig að rjúfa þessa einangrun hennar heitir Trausti Ólafsson og skrifaði hann síðan bók um þessa vinnu með Sigríði Ósk, bókina Á leið til annarra manna. Alla tíð þurfti Sigríður Ósk að glíma við veikindi og var því oft á sjúkrahúsum. Eftir eina slíka dvöl á Grensásdeildinni á meðan hún dvaldist á Kópavogshæli orti hún þessa vísu:

Kárnað hafði gaman gott

Grensásdeildar beðnum á,

Hælið gamla fínt og flott

fór hún Sigga litla að þrá.

Sigríður Ósk hafði yndi af því að fara á tónleika og í bíó. Vildi einkum sjá rómantískar kvikmyndir og horfði á þær sem henni þóttu bestar aftur og aftur. Hún hafði líka gaman af fatainnkaupum og hafði mjög ákveðnar skoðanir á fötum og hverju hún klæddist.

Í gegnum tíðina kynntist Sigríður Ósk fjölda fólks sem annaðist hana af nærgætni og auðgaði líf hennar. Margt af þessu samferðafólki hennar tók við hana ástfóstri og varð vinir hennar ævilangt. Ég vil að lokum færa þessu góða fólki kærar þakkir fyrir að sjá svo vel um hana litlu systur mína.

Kristinn.

Ég get verið þíðan þín

þegar allt er frosið

því sólin hún er systir mín

sagði litla brosið.

(R. Gröndal)

Stóri bróðir hringdi og ég vissi hvert erindið var: „Halla mín, hún er farin.“

Ég var mörg þúsund kílómetra í burtu og söknuðurinn og tómið nísti, elsku litla systir mín, fyrirmyndin mín, vinkona mín og töffarinn minn var farin, laus úr viðjunum og vonandi komin í blómabrekkuna til mömmu og pabba.

Mín fyrsta minning um Sigríði Ósk er spenningurinn sem fylgdi því að eignast litla systur, leikfélaga og hafa vinkonu til að leika við, ráðskast með og knúsa en svo sagði pabbi okkur að lítil systir væri fædd og hún væri með gulu. Ég vissi ekkert hvað það væri en vissi að Kínverjar væru gulir, svo ég hljóp út á róló og tilkynnti stolt, að ég væri búin að eignast litla systur og hún væri Kínverji! Síðar kom í ljós að gula var ekki það eina sem hrjáði litlu systur, hún var með CP og spastísk. Hún gat ekki gengið né talað en við sáum fljótt að í þessum litla fjötraða líkama var greind lítil stúlka, fyndin, stríðin og með ómótstæðilegt bros sem bræddi alla. Við lékum okkur saman og þótt hún gæti ekki tekið þátt í öllum leikjum vildum við alltaf hafa hana með og hún hafði sannarlega skoðanir. Við bjuggum í Skógum undir Eyjafjöllum frá því að Sigríður var tveggja ára og eignuðumst strax góðar vinkonur, Guggu, Unni og Stínu Rós, og þó að Sigríður og Stína væru smákrakkar fengu þær að vera með í mömmuleik, búleikjum og meira að segja fótbolta og sjaldan fannst Sigríði meira gaman en þá.

Við lásum saman, stálum súkkulaði frá mömmu og hlógum að svipnum á mömmu.

Hún lærði að lesa hjá mömmu fjögurra ára, þó að við vissum ekki fyrir víst hvort hún væri læs fylgdist hún vel með og var fljót að láta í sér heyra ef við svindluðum í lestrinum og hlupum yfir, það kom svo í ljós síðar þegar hún gat tjáð sig með aðstoð tölvu að hún var ekki bara fluglæs og vel kunnandi í mörgu, hún var hagmælt líka.

Mikil stakkaskipti urðu í lífi hennar þegar hún fékk tölvu og gat loksins tjáð sig og var skrifuð bók um hana og þessi umskipti, bókin heitir Á leið til annarra manna og var nafn bókarinnar valið af henni og hún rituð af kennaranum hennar, Trausta Ólafssyni. Eftir það fékk hún að fara í menntaskóla í tvö ár og naut þess mjög, enda leiftrandi greind og fróðleiksfús.

Vegna veikinda móður okkar og lítillar þjónustu við fatlað fólk á þessum árum þurfti Sigríður Ósk að flytja á Kópavogshæli átta ára en kom alltaf heim í langt jóla-, páska- og sumarfrí, þannig vildu foreldrar mínir hafa það.

Eftir 14 ár þar flutti hún á sambýli og þaðan á íbúðasambýli, þar sem hún var umvafin yndislegu fólki alla tíð. Sigríður Ósk var vinmörg og flestir sem unnu við að aðstoða hana urðu ævilangir vinir hennar og erum við þeim óendanlega þakklát fyrir ástúð, vináttu og hlýju alla tíð.

Elsku Sigríður Ósk, þú ætlaðir að koma til mín í heimsókn í hlýjuna í vetur, nú verða sólböðin okkar að bíða þar til ég kem til þín í blómabrekkuna. Takk fyrir allt, ég sakna þín.

Þín systir,

Guðrún Halla.

Elsku nafna mín og frænka okkar.

Ofsalega var sárt að heyra að þú værir farin frá okkur, við huggum okkur við það að nú ertu orðin laus úr fjötrunum og leikur vonandi frjáls við Maríönnu ömmu og Jón afa í blómabrekkunni þarna hinum megin.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við minnumst þín er lífsgleðin, æðruleysið og stríðnin. Einstakt hugarfar sem þú hafðir og hvernig þú lýstir upp hvert herbergi sem þú komst í.

Þú ert mikil fyrirmynd okkar allra og mótaði líf þitt og saga mömmu okkar í þessa góðhjörtuðu en grjóthörðu baráttukonu sem kenndi okkur svo mikið. Að setja sig í spor annarra og hafa aðgát í nærveru sálar er nokkuð sem við fengum með móðurmjólkinni og höfum við öll unnið við umönnun á einn eða annan hátt.

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt

sérhver alda rís en hnígur jafnan

skjótt

hverju orði fylgir þögn

og þögnin hverfur alltof fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund

skaltu eiga við það mikilvægan fund

því að tár sem þerrað burt

aldrei nær að græða grund.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Takk fyrir góðar stundir, elsku frænka, hvíldu í friði.

Þín systkinabörn,

Maríanna Ósk, Bergþóra Kristín, Brynjólfur og

Sigfríður Aldís.

Sigríður Ósk var barn að aldri og ég unglingur þegar við nöfnurnar hittumst fyrst. Leiðir okkar lágu aftur saman þegar Sigríður Ósk flutti að Klettahrauni 17 í Hafnarfirði, í ársbyrjun 1986. Sambýlið í Klettahrauni var fyrsta sambýlið ætlað fötluðu fólki í Hafnarfirði.

Í þá daga voru gerðar kröfur til þeirra sem boðin var búseta á sambýli, þ.e. að vera „sambýlishæfur“, það þýddi að vera nokkuð sjálfbjarga í daglegu lífi, Sigríður Ósk taldist ekki hæf til að búa á sambýli samkvæmt skilgreiningunni. Hún ruddi brautina gagnvart mannréttindum fatlaðs fólks, réttindum til að búa utan stofnana, og því má aldrei gleyma. Viðhorfin hafa svo sannarlega breyst til betri vegar í búsetumálum fatlaðs fólks og Sigríður Ósk upplifði þær breytingar; að flytja frá altækri stofnun, frá sambýli og til heimilis síns í Blikaási.

Í Klettahrauninu áttum við samfylgd í 15 ár. Samferðin með Sigríði Ósk, föður hennar og systkinum var einstök og minningarnar frá þessum árum mér sérstaklega hjartfólgnar. Nokkur minningabrot standa upp úr. Þar má nefna árlegan laufabrauðsútskurð á meðal snillinga sem faðir Sigríðar Óskar var upphafsmaðurinn að. Ógleymanlega ferð til Ítalíu þar sem dvalið var á Hótel María við Gardavatn. Hjálpartækin voru ekki af verri endanum; ítalskir karlar og við ferðafélagarnir. Sigríður Ósk og hinar ljóskurnar heilluðu þá upp úr skónum. Þeir vildu allt fyrir okkur gera þótt þeim hafi brugðist bogalistin í aðstoðinni og uppskorið hlátrasköll Sigríðar Óskar, en hún hafði einstakan húmor fyrir hrakföllum. Við létum ekkert stoppa okkur, gerðum allt sem okkur datt í hug og tókum þátt í öllum ferðum sem boðið var upp á. Þar á meðal fórum við í eintaka ferð með kláf upp í Ítölsku Alpana og Sigríður Ósk skríkti af hamingju þegar á tindinn var komið.

Kæra Haddý, Kristinn og Halla, ég votta ykkur og fjölskyldum ykkar mína dýpstu samúð um leið og ég þakka ykkur samfylgdina.

Heimilisfólkinu í Blikaási 1 og starfsfólki þess, vinnufélögum og öðrum vinum Sigríðar Óskar votta ég samúð mína.

Sigríður Kristjánsdóttir.