Akureyri Tvö skemmtiferðaskip voru í höfn í gær. Þau skapa fjölda fólks vinnu og stækka norðlenska hagkerfið.
Akureyri Tvö skemmtiferðaskip voru í höfn í gær. Þau skapa fjölda fólks vinnu og stækka norðlenska hagkerfið. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Tvö stór skemmtiferðaskip, Mein Schiff 4 og MSC Orchestra, voru í höfn á Akureyri í gær og á mánudaginn var kom þangað skipið Nieuw Statendam í fyrsta sinn.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Tvö stór skemmtiferðaskip, Mein Schiff 4 og MSC Orchestra, voru í höfn á Akureyri í gær og á mánudaginn var kom þangað skipið Nieuw Statendam í fyrsta sinn. Um borð í þessum þremur skipum voru samtals hátt í ellefu þúsund manns, farþegar og áhafnir.

„Það má alveg reikna með að þessi þrjú skip hafi skilað samanlagt um 180 milljónum króna í norðlenska hagkerfið og skapað fjölda manns vinnu,“ sagði Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri og formaður Cruise Iceland. Það eru samtök þeirra sem taka á móti skemmtiferðaskipum hér á landi.

Skildu eftir 16 milljarða

Pétur sagði að skemmtiferðaskipin sköpuðu vinnu hjá hafnarstarfsmönnum, umboðsmönnum skipanna, leigubílstjórum, tollvörðum, öryggisvörðum, rútubílstjórum og leiðsögumönnum, starfsmönnum bílaleigna auk þeirra sem vinna í verslun og ferðaþjónustu.

Hann sagði að í fyrra hefðu skemmtiferðaskipin skilið eftir hér rúmlega 16 milljarða, að öllum áhrifum meðtöldum, og 900 heilsársstörf. „Það er aðeins aukning á þessu ári og má reikna með að það komi ívið meira á þessu ári,“ sagði Pétur.

Nokkuð hefur verið rætt um mengun frá skemmtiferðaskipum. Pétur sagði að vélknúin farartæki, hvort sem eru flugvélar, skip eða bílar menguðu. Hann taldi eðlilegt að opinberir aðilar sinntu mengunarmælingum og mældu hlutlægt áhrif allra ferðamáta. „Siglingar skemmtiferðaskipa eru um 0,8% af öllum siglingum um heimsins höf. Aðeins 4-5% ferðamanna sem koma til landsins koma með skemmtiferðaskipum. Hinir koma með ferjunni Smyrli og langflestir með flugi. Það er mikilvægt að skoða mengandi áhrif allra ferðalaga,“ sagði Pétur.

Hann sagði að komur skemmtiferðaskipa og ferðamannanna sem þau flytja væru mikil lyftistöng fyrir hafnir úti á landi. Akureyri yrði t.d. mun líflausari á sumrin ef skemmtiferðaskipanna nyti ekki við. „Sum skemmtiferðaskipin koma við í 7-9 höfnum. Samtals eru 16-17 hafnir sem fá skemmtiferðaskip í sumar. Æ fleiri hafnir sýna áhuga á að sinna þessum ferðamáta. Þetta eykur líf í sveitarfélögunum,“ sagði Pétur.