Braut lög Justin Trudeau forsætisráðherra kveðst taka á sig ábyrgð á hneykslismálinu en segist aðeins hafa viljað vernda þúsundir starfa.
Braut lög Justin Trudeau forsætisráðherra kveðst taka á sig ábyrgð á hneykslismálinu en segist aðeins hafa viljað vernda þúsundir starfa. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Justin Trudeau naut mikilla vinsælda fyrstu þrjú árin í embætti forsætisráðherra Kanada en stuðningurinn við hann hefur minnkað svo mikið á fjórða árinu að líklegt þykir að flokkur hans missi meirihluta sinn á þinginu í kosningum 21. október. Ástæðan er hneykslismál sem kom upp í febrúar og hefur spillt ímynd hans sem „gulldrengsins“ í kanadískum stjórnmálum.

Fréttaskýring

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Justin Trudeau naut mikilla vinsælda fyrstu þrjú árin í embætti forsætisráðherra Kanada en stuðningurinn við hann hefur minnkað svo mikið á fjórða árinu að líklegt þykir að flokkur hans missi meirihluta sinn á þinginu í kosningum 21. október. Ástæðan er hneykslismál sem kom upp í febrúar og hefur spillt ímynd hans sem „gulldrengsins“ í kanadískum stjórnmálum.

Trudeau varð leiðtogi Frjálslynda flokksins 2013 og leiddi hann til mikils kosningasigurs tveimur árum síðar þegar flokkurinn fékk 184 þingsæti af 338 með 39,5% greiddra atkvæða. Hann bætti við sig 148 sætum og er það met í sögu þingkosninga í landinu.

Fylgi flokksins tók að minnka í febrúar síðastliðnum eftir að kanadískt dagblað birti ásakanir um að Trudeau og embættismenn hans hefðu lagt að Jody Wilson-Raybould, fyrrverandi dómsmálaráðherra, að beita valdi sínu til að hnekkja ákvörðun saksóknara um að höfða mál gegn verkfræði- og byggingarfyrirtækinu SNC-Lavalin. Það hefur verið sakað um að hafa greitt jafnvirði 4,4 milljarða króna í mútur á árunum 2001-2011 til að tryggja sér samninga um byggingarframkvæmdir í Líbíu og svíkja sem svarar 12 milljörðum króna út úr einræðisstjórninni sem var þá við völd í landinu.

Þegar ásakanirnar komu fram neitaði Trudeau því að hann hefði beitt Wilson-Raybould þrýstingi í málinu og fylgi Frjálslynda flokksins tók að aukast aftur. Síðustu kannanir hafa ýmist bent til þess að Íhaldsflokkurinn sé nú með ívið meiri stuðning en Frjálslyndi flokkurinn eða að ekki sé marktækur munur á fylgi þeirra.

Trudeau varð fyrir öðru áfalli í fyrradag þegar eftirlitsmaður kanadíska þingsins, Mario Dion, úrskurðaði að forsætisráðherrann hefði brotið lög og siðareglur með því að leggja að Wilson-Raybould að koma í veg fyrir saksókn á hendur fyrirtækinu. Dion sagði að Trudeau og aðstoðarmenn hans hefðu brotið lög sem banna embættismönnum að beita embætti sínu með ótilhlýðilegum hætti í þágu einkahagsmuna einhvers annars. SNC-Lavalin hefði haft verulega fjárhagslega hagsmuni af því að komast hjá saksókn.

Trudeau var gert að greiða jafnvirði tæpra 47.000 króna í sekt. Líklegt er þó að pólitískur skaði hans vegna úrskurðarins verði miklu meiri en sá fjárhagslegi.

„Mjög alvarlegt mál“

Stjórnmálaskýrendur telja hneykslismálið geta orðið til þess að Frjálslyndi flokkurinn haldi ekki meirihluta sínum á þinginu í kosningunum eftir rúma tvo mánuði. „Þetta eru ekki aðeins ásakanir stjórnmálamanna,“ sagði Duane Bratt, prófessor í stjórnmálafræði við Mount Royal University. „Þetta er óháður eftirlitsmaður þingsins sem kemur fram og segir: þú hefur brotið þá grundvallarreglu réttarríkisins að stjórnvöld blandi sér ekki í dómsmál. Þetta er mjög alvarlegt mál.“

Þetta er í annað skipti sem Trudeau er fundinn sekur um brot á siðareglum. Eftirlitsmaður þingsins úrskurðaði árið 2017 að forsætisráðherrann hefði brotið reglurnar með því að þiggja gistingu á Bahamaeyjum í boði auðkýfingsins Aga Khans, sem var þá í viðræðum við kanadísk stjórnvöld um fjármögnun framkvæmda á vegum hans.

Kveðst vilja vernda störf

Justin Trudeau kvaðst vera ósammála sumum af niðurstöðum eftirlitsmanns þingsins sem úrskurðaði að forsætisráðherrann hefði brotið lög og siðareglur. „Ég get ekki beðist afsökunar á því að standa vörð um störf í Kanada,“ sagði forsætisráðherrann. Hann skírskotaði til þess að stórfyrirtækið SNC-Lavalin hafði varað við því að um 7.000 starfsmenn þess kynnu að missa atvinnuna ef það yrði saksótt fyrir mútur og fjárdrátt. Hann kvaðst þó ætla að taka á sig „fulla ábyrgð“ á málinu. „Þetta var staða sem hefði ekki átt að koma upp.“

Trudeau er 47 ára og elsti sonur Pierres Trudeaus sem var forsætisráðherra Kanada í rúm fimmtán ár.