Uppbygging Reginn er með mikið undir á Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur.
Uppbygging Reginn er með mikið undir á Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hagnaður fasteignafélagsins Regins eftir tekjuskatt nam 2,1 milljarði króna á fyrri árshelmingi, samanborið við tæpa 1,5 milljarða yfir sama tímabil í fyrra og jókst því um 42%.

Hagnaður fasteignafélagsins Regins eftir tekjuskatt nam 2,1 milljarði króna á fyrri árshelmingi, samanborið við tæpa 1,5 milljarða yfir sama tímabil í fyrra og jókst því um 42%. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam rúmum 3,2 milljörðum og jókst um 36% frá fyrra ári. Bókfært virði fjárfestingareigna í lok tímabilsins nam rúmum 136 milljörðum króna. Á tímabilinu voru fjárfestingareignirnar færðar upp um 2,2 milljarða og þá fjárfesti félagið fyrir rúma 2,8 milljarða króna.Vaxtaberandi skuldir félagsins námu 82,1 milljarði króna í lok júní og höfðu aukist um tæpa 1,6 milljarða króna. Eiginfjárhlutfall félagsins stóð í 31,5%.

Í kynningu frá félaginu segir að aðsókn í Egilshöll, sem er ein af stærstu eignum félagsins, hafi haldið áfram að aukast. Þá sé umbreytingarferli Smáralindar einnig lokið en hún er í eigu félagsins. Þá hefur félagið átt ríka aðkomu að Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur. Þar hafa, í húsnæði Regins, opnað fyrirtækin COS á Íslandi, Collections og GK Reykjavik. Þá verða á næstu vikum opnaðar verslanir Franks Michelsen og Optical Studio. Í nágrenninu hefur einnig verið opnaður veitingastaður undir merkjum Joe and the Juice. Stjórnendur Regins telja að horfur í rekstri félagsins séu góðar. Hins vegar telja þeir líkur á að leigutekjur félagsins upp á 9.400 milljónir á árinu haldist ekki og að þær verði undir neðri mörkum áætlunarinnar sem birt var í byrjun ársins. Ástæðan er sögð vera seinkun á opnun útleigurýma í Smáralind og í Hafnartorgi, fyrirsjáanlegar breytingar í Höfðatorgi vegna stórra nýrra leigusamninga og breytinga á Suðurhrauni 3 vegna leigusamnings við Vegagerðina. ses@mbl.is