Landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen fer yfir málin með sínum mönnum í leiknum gegn Sviss á laugardaginn.
Landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen fer yfir málin með sínum mönnum í leiknum gegn Sviss á laugardaginn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karla í körfuknattleik, er ánægður með baráttuandann í íslenska liðinu. Landsliðið hefur lent í tveimur háspennuleikjum í forkeppninni fyrir EM 2021 en í báðum tilfellum var liðið undir en tókst að koma sér í stöðu til að vinna leikina. Það tókst gegn Sviss í Höllinni en ekki úti í Portúgal.

Körfubolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karla í körfuknattleik, er ánægður með baráttuandann í íslenska liðinu. Landsliðið hefur lent í tveimur háspennuleikjum í forkeppninni fyrir EM 2021 en í báðum tilfellum var liðið undir en tókst að koma sér í stöðu til að vinna leikina. Það tókst gegn Sviss í Höllinni en ekki úti í Portúgal.

„Andrúmsloftið hefur verið afskaplega gott. Sumir leikmanna eru stífir eftir fyrstu tvo leikina og við erum að safna kröftum. Við verðum tilbúnir á laugardaginn þegar við tökum á móti Portúgal. Við þurfum að verja heimavöllinn og vonandi náum við fram eins góðri frammistöðu og hægt er. Í báðum leikjunum höfum við sýnt keppnishörku með því að komast yfir eftir að hafa lent undir. Því miður töpuðum við í Portúgal en tókst að snúa leiknum gegn Sviss okkur í vil undir lokin. Í okkar leik má finna ýmislegt jákvætt. Á heildina litið þá höfum við skapað okkur ágæt skotfæri en gætum nýtt þau betur. Þjálfurum og leikmönnum hefur tekist að finna lausnir í leikjunum sem hafa heppnast vel þegar bregðast þurfti við. Í tapleiknum í Portúgal þá settu andstæðingarnir niður mörg erfið skot og það var vel gert hjá þeim. Portúgal hefur unnið báða heimaleiki sína og það þurfum við einnig að gera.“

Sveiflur í öllum leikjunum

Hvernig metur Pedersen stöðuna nú þegar Ísland hefur leikið tvo leiki af fjórum? „Segja má að riðillinn sé aðeins meira en hálfnaður eftir að Portúgal og Sviss léku seinni leik sinn. Það kom mér ekkert á óvart að Portúgal hafi unnið vegna þess að í fyrri leiknum í Sviss sem Sviss vann þá var Portúgal yfir lengi vel. En það kom mér hins vegar svolítið á óvart að Portúgal skyldi vinna svo öruggan sigur. Þeir léku mjög vel og leikmenn náðu vel saman. Við mætum því portúgölsku liði á laugardaginn sem er að leika afar vel um þessar mundir,“ sagði Pedersen en fyrstu tveir leikir íslenska liðsins hafa verið hnífjafnir og væntanlega má búast við einhverju svipuðu á laugardaginn.

„Það hafa verið talsverðar sveiflur í öllum leikjunum. Ekki bara okkar leikjum heldur einnig hjá Sviss og Portúgal. Annað liðið nær tíu stiga forskoti sem sveiflast yfir í að hitt liðið nær tíu stiga forskoti. Á heildina litið hafa leikirnir verið jafnir og í nokkrum tilfellum mjög spennandi undir lokin,“ sagði Kanadamaðurinn sem stýrt hefur íslenska landsliðinu síðan 2014 eða í fimm ár. Fór hann með íslenska liðið á EM 2015 og 2017 en leiðin á næsta EM sem verður 2021 er býsna löng.

Sterkar þjóðir bíða takist Íslandi að vinna riðilinn

Landsliðsmennirnir súpa nú seyðið af því að hafa hafnað í neðsta sæti í undankeppninni þar síðasta vetur. Þá tapaði Ísland heima fyrir Búlgaríu sem var í neðsta styrkleikaflokki en riðillinn var nokkuð skrautlegur og Íslandi tókst á hinn bóginn að vinna Finnland og Tékkland í Laugardalshöllinni. Lið sem eru hærra skrifuð en það íslenska í körfunni.

Fari svo að íslenska liðið vinni riðilinn þá tekur liðið þátt í undankeppni næstu tvo vetur með Serbíu, Finnlandi og Georgíu. Þar þyrfti Ísland að skilja eina þjóð eftir fyrir aftan sig til að komast á EM.

Leikmenn í NBA og Euroleague liðum fá yfirleitt ekki leyfi til að fara í landsleikina á veturna. Gæti það sett verulega sterkan svip á riðilinn. Ekki yrði það einungis til góðs fyrir íslenska liðið því Martin Hermannsson leikur nú í Euroleague með Alba Berlín og fær væntanlega ekki frí ef til þess kemur að Ísland verði í undankeppninni.