Litríkt Annað skýlanna tveggja stendur við Kringlumýrarbraut.
Litríkt Annað skýlanna tveggja stendur við Kringlumýrarbraut. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Fyrstu tvö stafrænu strætóskýlin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið tekin í notkun. Skýlin eiga að minnsta kosti að verða fimmtíu talsins en það er fyrirtækið Dengsi ehf. sér um uppsetningu þeirra.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Fyrstu tvö stafrænu strætóskýlin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið tekin í notkun.

Skýlin eiga að minnsta kosti að verða fimmtíu talsins en það er fyrirtækið Dengsi ehf. sér um uppsetningu þeirra.

Í skýlunum eru LED skjáir fyrir auglýsingar svo ekki þarf lengur að skipta út auglýsingum á pappír heldur verða þær einfaldlega sendar stafrænt í skýlin. Í þeim verða einnig stafræn rauntímakort sem gefa farþegum upplýsingar um það hvaða vagn er næstur.

„Þetta er náttúrulega algjör bylting. Um leið og þetta er orðið stafrænt þá er þetta miklu einfaldara og auðvelt að breyta, bæta og svo framvegis,“ segir Vésteinn G. Hauksson, framkvæmdastjóri Billboard ehf., sem er eigandi Dengsa ehf.

Aðspurður segir Vésteinn skýlin eðlilega framvindu í tækniþróun.

„Allur heimurinn er að komast þangað,“ segir Vésteinn.

Hann hefur mikla trú á því að verkefnið borgi sig þó skýlin séu vissulega talsvert dýrari en hefðbundin eldri strætóskýli. „Við hefðum náttúrulega ekki farið út í þetta nema við hefðum trú á því.“

Umgengni í strætóskýlum borgarinnar hefur ekki beint verið til fyrirmyndar fram að þessu. Spurður hvort hann sé ekki smeykur við slæma umgengni í skýlunum segir Vésteinn: „Það er bara partur af þessu.“