Mótmælum virðist ekki ætla að linna af sjálfsdáðum og brúnin þyngist á forystu kommúnista

Ekkert lát virðist ætla að verða á mótmælaöldunni miklu sem hófst vegna umdeilds framsalsfrumvarps í Hong Kong í apríl síðastliðnum. Mótmælendur hafa upp á síðkastið tekið yfir lestarstöðvar og flugvöll borgarinnar, sem aftur hefur kallað á hörð viðbrögð lögreglunnar við að leysa mótmælin upp. Tilraunir stjórnvalda í Hong Kong til að róa mótmælendur hafa ekki fengið hljómgrunn, en yfirlýsing Carrie Lam, héraðsstjóra Hong Kong, um að framsalsfrumvarpinu umdeilda yrði frestað nægði ekki til.

Forsvarsmenn mótmælanna hafa þess í stað krafist þess að frumvarpið verði dregið algjörlega til baka og það ekki lagt fram á ný. Þá eigi stjórnvöld að leysa úr haldi alla þá sem handteknir hafa verið vegna mótmælanna og veita þeim sakaruppgjöf, auk þess sem óháður aðili verði fenginn til þess að rannsaka ásakanir um lögregluofbeldi.

Einhverjir mótmælenda krefjast þess einnig að allir sem aldur hafi til fái kjörgengi og kosningarétt til þings sem og embættis héraðsstjórans. Einungis örfáir njóta þess réttar nú og er kerfið sérhannað til þess að kínversk stjórnvöld í Peking fái fólk sem þeim er þóknanlegt til æðstu starfa í Hong Kong. Enn aðrir hafa krafist þess að Carrie Lam víki, þar sem hún sé of undirgefin stjórnvöldum í Kína.

Ólíklegt verður að teljast að stjórnvöld í Hong Kong eða kommúnistastjórnin í Peking vilji verða við nokkrum af þessum kröfum, þó ekki nema vegna þess að með því yrði sett slæmt fordæmi út frá sjónarhóli stjórnvalda í Peking, sem leggja mikið upp úr því að landsmenn stilli sig um að mótmæla. Þetta á ekki síst við nú þegar 70 ára afmæli valdatöku kommúnistaflokksins nálgast, en stjórnvöld hafa að undanförnu beitt andófsmenn í landinu aukinni hörku til að tryggja fallega áferð hátíðahaldanna hinn 1. október næstkomandi.

Tónninn frá kommúnistastjórninni hefur því farið síharðnandi, og varaði Liu Xiaoming, sendiherra Kínverja í Bretlandi, við því í gær að miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins myndi ekki horfa aðgerðarlaus á ef ástandið í Hong Kong versnaði frekar. Þá sögðu kínversk stjórnvöld fyrr í vikunni að þau litu á mótmælin sem „næstum því hryðjuverk,“ auk þess sem þau hafa safnað herliði saman með áberandi hætti í næsta nágrenni Hong Kong.

En hvaða hvata hafa Kínverjar til þess að forðast það að brjóta mótmælin niður með hervaldi, líkt og gerðist fyrir þrjátíu árum á Torgi hins himneska friðar? John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, benti á það í vikunni, að um 60% af allri erlendri fjárfestingu í Kína færi í gegnum fjármálamiðstöðina Hong Kong. Það væri meðal annars vegna þess, að lagaumhverfið þar byggði enn á merg gömlu bresku nýlendunnar, og dómstólar þar væru taldir sjálfstæðir í störfum sínum, ólíkt því sem tíðkast á meginlandi Kína.

Varaði Bolton við því að ef tekið yrði á mótmælendum af hörku myndu Kínverjar tefla því orðspori í mikla hættu, auk þess sem víst væri að stjórnvöld í Bandaríkjunum myndu ekki taka vel í slíkar aðgerðir. Samskipti ríkjanna tveggja eru að vísu nærri frostmarki þessa stundina, en Trump Bandaríkjaforseti bauð Xi Jinping, forseta Kína, í vikunni til fundar til þess að finna sanngjarna lausn á vandamálum Hong Kong, auk þess sem hann setti málefni borgarinnar í samhengi við lausn á tollastríði Bandaríkjanna og Kína. Óvíst er hvort að Xi hafi nokkurn hug á slíkum fundi, en víst er að bandarísk stjórnvöld fylgjast grannt með niðurstöðu mótmælanna, rétt eins og önnur stjórnvöld og almenningur á Vesturlöndum.

Þrátt fyrir að augu umheimsins séu á Hong Kong og Kína er ekki hægt að ganga út frá því að það dugi til að halda aftur af kínverskum stjórnvöldum. Og reynslan sýnir að þolinmæði þeirra fyrir andstæðum skoðunum er takmörkuð en vilji til harðra aðgerða ríkur telji þau sér ógnað. Þá er fátt sem bendir til þess að gulrót yrði veifað framan í mótmælendur áður en prikið yrði látið skella fast niður og óvíst að frekari aðvaranir verði gefnar fari allt á versta veg.