Kunnuglegt „Ég hef ótrúlega oft lent í því að fólk segi einfaldlega „þú ert að skrifa um mig,““ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir rithöfundur.
Kunnuglegt „Ég hef ótrúlega oft lent í því að fólk segi einfaldlega „þú ert að skrifa um mig,““ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir rithöfundur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika S. Magnúsdóttir veronika@mbl.is Rithöfundurinn Árelía Eydís Guðmundsdóttir gaf nýverið út bókina Söru , sem fjallar um lífsins augnablik sem kunna að virðast ómerkileg en verða til þess að nýjar dyr opnast og lífið tekur breytingum.

Veronika S. Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Rithöfundurinn Árelía Eydís Guðmundsdóttir gaf nýverið út bókina Söru , sem fjallar um lífsins augnablik sem kunna að virðast ómerkileg en verða til þess að nýjar dyr opnast og lífið tekur breytingum.

Óvænt gjöf breytir lífi söguhetjunnar, hinnar 45 ára ekkju Söru Jónsdóttur. Hún fær glæsilegan demantshring og ástarbréf í afmælisgjöf en hvergi kemur fram hver leyniaðdáandinn er. Þetta verður til þess að Sara fer að grafa ofan í fortíðina og hlýtur aukinn skilning á sjálfri sér. „Hún hefur verið að syrgja og hefur kannski ekki náð sér. Þegar fólk er í sorgarferli er það orðið svolítið dofið en þetta vekur hana til lífsins,“ segir Árelía.

Ómerkt gjöf

Hana rekur minni til þess að hafa haldið veislu og fengið gjafir en ekki verið viss hvaðan ein gjöfin kom.

„Eitt kort hafði dottið af. Svo ég fór að hugsa hvað myndi gerast ef þú fengir gjöf sem væri mjög persónuleg en þú vissir ekki hvaðan hún kæmi,“ segir hún.

Þegar grunnhugmyndin var komin byrjaði Árelía að vinna að skáldsögunni, en sú vinna tók um þrjú ár, og fór fram á stundum milli stríða.

Spurð hvernig hún nálgast vinnuna segir Árelía: „Ég fæ upphafshugmyndina og síðan byrja ég að vinna með formið og ég veit ekki einu sinni sjálf hvernig sagan mun enda.“

Árelía er dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og kennir þar leiðtogafræði. Sara er önnur skáldsaga Árelíu en fyrsta skáldverk hennar var sagan Tapað fundið . Hún var síður en svo fyrsta bók hennar, þar sem Árelía hefur gefið út nokkrar fræði- og handbækur, en fyrir ári gaf hún út fræðibók um leiðtogahæfni. Slíkar bækur vekja ekki viðbrögð sama eðlis og Sara :

„Það er hreint út sagt fræðilegt efni. Þá kemur enginn til mín og segist hafa uppgötvað eitthvað um sjálfan sig. Fólk uppgötvar hins vegar eitthvað nýtt um fræðasviðið, það getur kannski hugsað „nú get ég sett forystu í samhengi við menningu“. Ég hef svolítið sagt að þetta sé eins og að nota hægra og vinstra heilahvel – í skáldsagnarforminu er vinstra heilahvelið notað og í fræðaskrifunum er svolítið verið að nota það hægra,“ segir hún.

„Þú ert að skrifa um mig“

Árelíu finnst merkilegt hvernig hver og einn lesandi túlkar söguna á sinn hátt og sér hlutina í einstæðu ljósi. Að fólk skynji persónur út frá því hvar það sé sjálft statt í lífinu.

„Ég hef ótrúlega oft lent í því að fólk segi einfaldlega „þú ert að skrifa um mig“. Í Tapað fundið var ég að skrifa um hluti sem ég hafði séð fyrir mér á vissan hátt í mínum huga, ég var ekki að sjá fyrir mér að þetta gæti gerst – en síðan komu nokkrir til mín og sögðust hafa þessa reynslu. Ekki bara af því að týna tösku heldur öðrum hlutum,“ segir Árelía. „Mér finnst ég sem höfundurinn ekki skipta svo miklu máli heldur er það einhvers konar millistykki. Hver les söguna út frá sjálfum sér og fær út úr henni það sem viðkomandi þarf. Þú lest söguna og hugsar: „Þetta er eitthvað sem ég eða einhver sem ég þekki lenti í.““

Fyrir Árelíu var þetta merkileg uppgötvun: „Í hvert skipti sem þú lest skáldsögu mætirðu sjálfri þér. Þú lest út frá persónum hvar þú ert stödd,“ segir hún.

Fyrsta skáldsaga Árelíu, Tapað fundið , sat lengi á listum yfir mest seldu bækurnar og hið sama virðist gilda um Söru , sem hefur verið á lista síðan hún kom út og segist Árelía afar þakklát fyrir það.