Heiðruð Anna Gréta Sigurðardóttir, tónskáld og píanóleikari, hlaut verðlaun Fasching djassklúbbsins í fyrra og hlýtur nú styrk Zetterlund.
Heiðruð Anna Gréta Sigurðardóttir, tónskáld og píanóleikari, hlaut verðlaun Fasching djassklúbbsins í fyrra og hlýtur nú styrk Zetterlund. — Ljósmynd/Magnus Andersen
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Anna Gréta Sigurðardóttir, djasstónskáld og -píanóleikari, hlaut í gær annan af tveimur styrkjum sem veittir eru árlega úr sjóði sem kenndur er við Monicu Zetterlund, þekktustu djasssöngkonu Svíþjóðar fyrr og síðar. Anna Gréta býr og starfar í Svíþjóð, var í námi við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi og hefur leikið með mörgum fremstu djasstónlistarmönnum þar í landi sem og hér á Íslandi.

Bjartasta vonin

„Það er sérlega gaman að fá eitthvað í hennar nafni, hún var ein af þeim sem ég hlustaði á áður en ég flutti til Svíþjóðar,“ segir Anna Gréta um Zetterlund-styrkinn sem er 40.000 sænskar krónur, jafnvirði rúmrar hálfrar milljónar íslenskra króna. Styrkinn hlýtur Anna Gréta sem bjartasta vonin, ungur og efnilegur tónlistarmaður, en hinn styrkinn hlýtur gamalreyndur tónlistarmaður, saxófónleikarinn Nisse Sandström, sem hlýtur 60.000 sænskar krónur. „Ég hef ekki spilað með honum en hann er þekkt nafn hérna,“ segir Anna Gréta um Sandström.

Naxos gefur út

Anna Gréta og Sandström munu leika með hljómsveit á heiðurs- og minningartónleikum helguðum Zetterlund í Berwaldhallen í Stokkhólmi 29. september og verða styrkirnir afhentir þá. En hvað ætlar hún að gera við peninginn? „Ég þarf að kaupa mér svolítið af græjum og svo var ég að taka upp plötu sem kemur út í október,“ svarar Anna Gréta. Styrkurinn sé því kærkominn.

Anna Gréta er 24 ára og hefur búið í tæp fimm ár í Svíþjóð. Segja má að tónlistin sé henni í blóð borin því faðir hennar er einn mesti djassgeggjari Íslands, Sigurður Flosason saxófónleikari. „Alveg frá því að ég byrjaði að spila á píanó hefur verið sjálfsagt mál að þetta væri það sem ég vildi gera. Ég hef ekki mikið þurft að velta því fyrir mér,“ segir hún. Platan sem hún nefndi fyrr í samtalinu er samstarfsverkefni hennar og gítarleikarans Max Schultz. Á henni verða lög eftir þau bæði og er platan gefin út af Prophone, sem heyrir undir hið þekkta útgáfufyrirtæki Naxos. „Það er ferlega spennandi,“ segir Anna Gréta um plötuna.