Gestur Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sækir Ísland heim í byrjun næsta mánaðar á leið til Bretlands.
Gestur Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sækir Ísland heim í byrjun næsta mánaðar á leið til Bretlands. — AFP
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur í opinbera heimsókn til Íslands þriðjudaginn 4. september. Frá þessu var greint á vef Hvíta hússins í fyrrakvöld. Þar kemur fram að Pence mun einnig heimsækja Bretland og Írland í ferð sinni.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur í opinbera heimsókn til Íslands þriðjudaginn 4. september. Frá þessu var greint á vef Hvíta hússins í fyrrakvöld. Þar kemur fram að Pence mun einnig heimsækja Bretland og Írland í ferð sinni.

Á vef Hvíta hússins kemur fram að Pence muni í Íslandsheimsókn sinni, sem aðeins stendur í einn dag, leggja áherslu á landfræðilegt mikilvægi Íslands á norðurskautssvæðinu, aðgerðir NATO til að bregðast við auknum umsvifum Rússlands, sem og tækifæri Íslands og Bandaríkjanna til að auka sameiginleg viðskipta- og fjárfestingartækifæri.

Búast má við að varaforsetinn hitti íslenska ráðamenn í heimsókn sinni. Þær upplýsingar fengust frá utanríkisráðuneytinu í gær að gert sé ráð fyrir því að hann fundi með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. Örnólfur Thorsson forsetaritari sagði í samtali við Morgunblaðið að ekki lægi fyrir hvort Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, myndi hitta Pence við komu hans hingað. Hann gerði þó ráð fyrir að það myndi skýrast áður en langt um liði.

Mikill áhugi á framkvæmdum suður með sjó

Áhersla á málefni norðurskautsins og aukin umsvif Rússa þarf ekki að koma á óvart. Framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli hafa verið í undirbúningi. Nýlega voru boðin út viðhaldsverk upp á þrjá milljarða króna og fram undan eru tvöfalt stærri verkefni. Í byrjun vikunnar boðaði verkfræðistofnun bandaríska hersins í Evrópu í samvinnu við utanríkisráðuneytið og Landhelgisgæsluna til kynningarfundar vegna fyrirhugaðra viðhaldsverkefna upp á 6,2 milljarða króna á næsta ári. Mikill áhugi var á fundinum og alls mættu sextíu manns fyrri daginn af tveimur. Litlu færri voru seinni daginn. Aðeins máttu tveir mæta frá hverju fyrirtæki svo ljóst er að minnst þrjátíu fyrirtæki áttu þar fulltrúa.

Jón B. Guðnason, yfirmaður varnartengdra verkefna hjá Landhelgisgæslunni, segir í samtali við Morgunblaðið að kynningarfundurinn hafi gengið vel. „Það er fagnaðarefni að svo margir hafi sýnt þessu áhuga og þessi fjöldi kom mér svolítið á óvart. Við fögnum því auðvitað ef íslensk fyrirtæki fá eitthvað af þessum verkefnum,“ segir Jón. hdm@mbl.is