Anne Mette Dale, lögmaður lögreglunar í Stavangri í Noregi, segir að Íslendingurinn, sem handtekinn var eftir að hann reyndi að brjóta sér leið inn í flugstjórnarklefa farþegaþotu Wizz Air hafi verið látinn laus úr haldi í gærkvöldi.

Anne Mette Dale, lögmaður lögreglunar í Stavangri í Noregi, segir að Íslendingurinn, sem handtekinn var eftir að hann reyndi að brjóta sér leið inn í flugstjórnarklefa farþegaþotu Wizz Air hafi verið látinn laus úr haldi í gærkvöldi. Dale segir manninn hafa verið samvinnuþýðan við yfirheyrslu sem fram fór yfir honum í gærkvöldi en hann mundi í henni ekki eftir því sem gerðist í flugvél Wizz Air. Með samtölum við fjölda vitna hafi verið hægt að varpa ljósi á atburðarásina sem sé nokkuð skýr. Dale segir að allt bendi til þess að hegðun mannsins megi rekja til veikinda og hann verði að öllum líkindum ekki ákærður. Maðurinn sem er á sjötugsaldri þarf að mæta til yfirheyrslu á morgun en að henni lokinni er honum frjálst að halda för sinni áfram en maðurinn var á leið til Íslands frá Búdapest.

Rólegur við handtöku

Að sögn Dale var maðurinn rólegur þegar hann var handtekinn við komuna á Sola flugvellinum í Stavangri í gærmorgun en flugvél Wizz Air þurfti að lenda á Sola-flugvellinum. Fjölmiðillinn Stavanger Aftenblad greindi frá því að vélinni hefði verið snúið við yfir Norðursjó. Var bæði lögregla og slökkvilið kallað út og beið liðið komu vélarinnar.

Lögreglan í Stavangri sagði í gær að ekkert benti til þess að maðurinn hefði haft nokkurn ásetning um að ræna flugvélinni. Íslendingurinn hefði virst undir áhrifum og borið því við að hann hefði innbyrt bæði lyf og áfengi. Maðurinn gekkst undir læknisskoðun í kjölfar handtökunnar.

Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði að mál Íslendingsins hefði komið inn á borð borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í gær og var honum veitt hefðbundin aðstoð.

Í samtali við mbl.is í gærdag sagði Victoria Hillveg, aðgerðastjóri lögreglunnar í Stavangri, að mál Íslendingsins væri meðhöndlað sem mál óhlýðins borgara sem yfirbugaður hefði verið í flugvél.

Fram kom á mbl.is að viðurlög við slíku í Noregi geti verið allt að sex mánaða fangelsi, fjársekt eða hvort tveggja.