Björn Halldórsson fæddist á Siglufirði 5. október 1942. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 8. ágúst 2019.

Foreldrar hans voru Halldóra Hólmfríður Björnsdóttir, f. 1917, d. 1978, og Halldór Kristinn Bjarnason, f. 1919, d. 2005.

Systur Björns eru: 1) Guðmunda Ólöf Halldórsdóttir, f. 1944. Eiginmaður hennar er Jón Jóhannsson. Þau eru búsett í Ólafsfirði. 2) Þorbjörg Halldórsdóttir, f. 1952. Eiginmaður hennar er Önundur Haraldsson. Þau eru búsett í Grindavík.

Björn kvæntist Kristínu Trampe árið 1967. Þau skildu.

Synir Björns og Kristínar eru: 1) Ragnar Þór, f. 1967, kvæntur Kamillu Ragnarsdóttur, f. 1967. Þau eru búsett í Ólafsfirði. Börn þeirra eru: Stefán Björn, Kristín og Aðalsteinn. Barnabörn Ragnars Þórs og Kamillu eru þrjú: Aron Breki 14 ára, Elísabet Ír 3 ára og Viktoría Rut 5 mánaða. 2) Bergur Rúnar, f. 1974, búsettur í Ólafsfirði. Sonur hans er Grétar Áki.

Björn var fæddur á Siglufirði en flutti tveggja ára gamall til Ólafsfjarðar, þar sem hann ólst upp og bjó alla tíð. Hann stundaði sjómennsku og var um tíma með sína eigin útgerð.

Útför Björns verður gerð frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 16. ágúst 2019, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku besti afi minn.

Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég er svo tóm, sár og sorgmædd. Ég er ekki alveg að sætta mig við það að þú sért farinn frá okkur, að ég fái aldrei að tala við þig aftur. Ég er virkilega þakklát fyrir þessi 27 ár sem við áttum saman. Ég er virkilega þakklát fyrir það að þú varðst afi minn. Ég er virkilega þakklát fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig.

Ég er virkilega þakklát fyrir þig!

Ég á eftir að sakna þess að heyra tóninn sem kom alltaf þegar ég sagði afi. Leið alltaf eins og þú værir svo ánægður að heyra í mér, svo mikil ást.

Ég á eftir að sakna þess að heyra þig rífa mig upp þegar ég gerði mistök, sama hversu smá, eða afsakaði mig fyrir kaffið sem ég gaf þér.

Ég á bara eftir að sakna þess að tala við þig um daginn og veginn.

Ég er sár yfir því að ég hafi ekki fengið að kveðja þig, að þú hafir farið svona skyndilega. Að gefa þér einn enn kveðjukoss.

Elsku afi minn, minning þín er ljós í lífi mínu og þú munt alltaf eiga stóran part í hjarta mínu.

Þótt döpur sé nú sálin,

þó mörg hér renni tárin,

mikla hlýju enn ég finn

þú verður alltaf afi minn.

(Höf. ók.)

Þín afastelpa

Kristín.

Miðhús í Ólafsfirði, hús ömmu Þorbjargar og afa Björns, var vettvangur leikja okkar elstu barnabarnanna þegar við vorum að alast upp. Húsið stóð á stórum grasbletti neðan við Brekkugötu. Oft var mikið fjör í Miðhúsum þegar fjölskyldurnar voru þar saman komnar og margar góðar minningar þaðan.

Björn, sem jafnan var kallaður Bjössi, var næstelstur barnabarna afa og ömmu. Mikill samgangur var alla tíð milli fjölskyldna okkar, ekki síst kringum jól og afmæli.

Seint munu gleymast afmælisveislurnar í Strandgötu 9 og Brekkugötu 1, þar sem frændurnir Bjössi og Óskar fóru gjarnan í kappát með tilheyrandi fyrirgangi.

(Óskar): Þegar áhyggjuleysi bernskunnar lauk og alvara lífsins tók við sóttum við strákarnir í auknum mæli niður að sjó með Bjössa frænda í fararbroddi, enda var hann eldri og reyndari. Fórum við á bryggjurnar og út með fjörunum sem þótti hættuminna, færum við í sjóinn. Þar byggðum við okkur bát sem við héldum úti bæði á sjó og á landi í litlum tjörnum, og líktum eftir feðrum okkar sem báðir voru trillukarlar. Frændi var að sjálfsögðu skipstjóri á Fánanum, en svo hét báturinn.

Á unglingsárunum dvaldi Bjössi um skeið í Sigluvík við Eyjafjörð. Þar kynntist hann landbúnaði sem var meira en rolluhald til heimabrúks, eins og tíðkaðist hér heima. Sjórinn togaði sífellt sterkar í hann og fyrr en varði var hann kominn út í útgerð, einn eða með öðrum. Hann var síðar á ýmsum millistærðarbátum þar til togararnir komu til sögunnar 1973-1974. Hann var meðal annars bátsmaður á Ólafi bekk, og um tíma var hann hjá Eggerti Gíslasyni á Gísla Árna. Bjössi hélt eftir það úti trilluútgerð á ársgrunni. Á 40 ára tímabili hitti ég (Óskar) Bjössa frænda nær daglega yfir sumartímann og áttum við saman góðar stundir í samfélagi trillukarla, þar sem málin voru rædd. Bjössi sótti sjóinn fast og fiskaði vel, hvort heldur hann var á grásleppu eða færaveiðum. Síðasti báturinn hans, Már ÓF 50, er sem talandi dæmi um gott viðhald og snyrtimennsku, allt endurnýjað sem endurnýja þurfti, því réði metnaður hans.

Bjössi frændi var greindur maður og fróðleiksfús, hann las mikið og átti safn góðra bóka. Hann hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum, var málafylgjumaður og fylgdi sjálfstæðisstefnunni. Bjössi átti góða fjölskyldu sem var honum mikils virði og var hann stoltur af afkomendum sínum.

Bjössi hafði átt við veikindi að stríða um nokkurt skeið og tókst á við þau af miklu æðruleysi. Nokkrum dögum fyrir andlát hans heimsóttu þrjú okkar systkina hann á Sjúkrahúsið á Siglufirði. Hann var sjálfum sér líkur, ánægður að hitta gömlu frændsystkinin, gerði að gamni sínu og sagði frá bók sem hann hafði nýlokið við að lesa og þótti merkileg. Ekkert okkar óraði fyrir því að þetta væri síðasta stundin með honum.

Góður maður er genginn. Við systkinin kveðjum Bjössa frænda okkar með þakklæti og virðingu og biðjum honum blessunar. Ástvinum hans sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Kristín Björg, Óskar Þór, Ásta, Gunnar, Sigurlína og fjölskyldur.