Harður slagur Ísland, Sviss og Portúgal berjast um eitt sæti.
Harður slagur Ísland, Sviss og Portúgal berjast um eitt sæti. — Morgunblaðið/Kristinn Magnúss
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta er í harðri keppni við Portúgal og Sviss um efsta sæti H-riðils og þar með eina lausa sætið í boði í undankeppni EM 2021.

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta er í harðri keppni við Portúgal og Sviss um efsta sæti H-riðils og þar með eina lausa sætið í boði í undankeppni EM 2021. Aðeins tveir leikir eru eftir í riðlinum, viðureign Íslands og Portúgals í Laugardalshöll á laugardag og svo leikur Sviss og Íslands ytra næstkomandi miðvikudag.

Portúgal er efst í riðlinum með 5 stig og +12 í stigatölu. Sviss er með 4 stig og -12 í stigatölu. Ísland er með 3 stig og 0 í stigatölu. Rétt er að ítreka að 1 stig fæst fyrir tap en 2 fyrir sigur.

Hvaða möguleikar eru þá í boði?

*Ef Ísland vinnur báða leikina sem liðið á eftir þá endar liðið efst í riðlinum með 7 stig, stigi meira en Portúgal og tveimur fyrir ofan Sviss.

*Ef Ísland tapar gegn Portúgal á laugardaginn er ljóst að Portúgal vinnur riðilinn með 7 stig, sama hvernig leikur Sviss og Íslands fer.

*Ef Ísland vinnur leikinn við Portúgal á laugardaginn en tapar gegn Sviss munu öll þrjú liðin enda jöfn að stigum. Þá ræður innbyrðis stigatala úr öllum leikjunum í riðlinum. Eins og fyrr segir stendur Portúgal nú best að vígi eftir 16 stiga sigur á Sviss í annars mjög jöfnum riðli. Í þessu tilviki þarf Ísland að vinna Portúgal með meiri mun en Ísland tapar fyrir Sviss með. Þessi munur þyrfti að vera 1-6 stig, eftir því hve stór sigurinn og tapið eru.

Liðið sem vinnur riðilinn leikur í E-riðli undankeppni EM með Finnlandi, Georgíu og Serbíu, og komast þrjú lið úr þeim riðli á EM árið 2021. sindris@mbl.is