Kári Jónsson
Kári Jónsson — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, var í gær sagður hafa samið við úrvalsdeildarlið Helsinki Seagulls, samkvæmt netmiðlinum Sportando sem fjallar um körfuknattleik. Liðið er í Finnlandi eins og nafnið gefur til kynna og hafnaði í 7.

Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, var í gær sagður hafa samið við úrvalsdeildarlið Helsinki Seagulls, samkvæmt netmiðlinum Sportando sem fjallar um körfuknattleik.

Liðið er í Finnlandi eins og nafnið gefur til kynna og hafnaði í 7. sæti á síðasta tímabili. Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum í sumar og Kári bætist við fríðan flokk leikmanna ef af verður. Antti Kanervo, sem varð bikarmeistari með Stjörnunni síðasta vetur, er genginn í raðir félagsins sem og landsliðsmaðurinn Shawn Huff sem kemur frá Frankfurt. Huff hefur mætt Íslendingum í landsleikjum á undanförnum árum en Kanervo hefur einnig leikið A-landsleiki fyrir Finnland.

Kári er uppalinn hjá Haukum í Hafnarfirði en hann var samningsbundinn Barcelona á síðustu leiktíð.

Meiðsli settu stórt strik í reikninginn hjá Kára síðasta vetur og fór hann í umfangsmiklar aðgerðir á báðum fótum eftir að hann kom út til Katalóníu. kris@mbl.is