Jómfrúferð Skipstjórar Herjólfs.
Jómfrúferð Skipstjórar Herjólfs. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
Skipstjórar nýja Herjólfs eru hæstánægðir með arftakann eftir að hafa siglt á honum í nokkrar vikur. „Hann hefur bara reynst okkur virkilega vel,“ segir Gísli Valur Gíslason, skipstjóri á Herjólfi.

Skipstjórar nýja Herjólfs eru hæstánægðir með arftakann eftir að hafa siglt á honum í nokkrar vikur.

„Hann hefur bara reynst okkur virkilega vel,“ segir Gísli Valur Gíslason, skipstjóri á Herjólfi.

Til að byrja með var nýi Herjólfur býsna valtur.

„Það var galli í öðrum stöðugleikaugganum sem á að gera við 18. september. Það er búið að gera bráðabirgðareddingu svo við getum notað hann,“ segir Gísli, sem tekur fram að gallinn sé ekki hættulegur.

Gísli sigldi sjálfur gamla Herjólfi um nokkurra mánaða skeið og segir að sér líki jafnvel betur við þann nýja. Þó sé erfitt að kveðja gamlan vin.

„En það var svo sem alveg kominn tími á það líka,“ segir Gísli.

Gamli Herjólfur er þó ekki alveg dauður úr öllum æðum og Gísli þarf ekki að kveðja hann alveg strax.

„Hann á að vera í Vestmannaeyjum næstu tvö árin sem varaskip og svo veit maður ekki hvað verður. Hann er ekki alveg farinn frá okkur strax. Það er ágætt að hafa hann til vara,“ segir Gísli.

Nýi Herjólfur hóf siglingar 25. júlí síðastliðinn eftir miklar tafir. Aðstaða í Vestmannaeyjahöfn hafði þá verið bætt en hún verður bætt enn frekar í haust. ragnhildur@mbl.is