Það er kannski eins og að bera í bakkafullan lækinn að hneykslast á tilburðum Geoffrey Castillion, framherjans öfluga í liði Fylkis, í sigrinum gegn Grindavík á mánudag.
Það er kannski eins og að bera í bakkafullan lækinn að hneykslast á tilburðum Geoffrey Castillion, framherjans öfluga í liði Fylkis, í sigrinum gegn Grindavík á mánudag. Ég verð samt að segja að það að fara svona augljóslega gegn anda íþróttarinnar myndi ég aldrei fallast á að sé einhvern veginn „klókt“ eða „sniðugt“. Það er einfaldlega skammarlegt, fyrir Castillion sjálfan en einnig Fylki.

Það er miður að reglur KSÍ gefi ekki kost á að refsa leikmönnum fyrir að sækja sér vísvitandi gult spjald til að hagnast á því, eins og Castillion svo sannarlega gerði. Þar hefur eitthvað klikkað því þegar Sergio Ramos reyndi það sama í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð var honum refsað fyrir það með lengra leikbanni en ella. Það var eitthvað fallegt við það að Ramos skyldi fá sína lexíu með því að Real Madrid félli svo úr keppni.

Það er erfitt að sjá að Castillion eða Fylki hefnist með svo hressilegum hætti fyrir atvikið á mánudag. Hann sparkaði boltanum í burtu frá brotstað til að ná í sína fjórðu áminningu í sumar, því hann vissi að samkvæmt samkomulagi Fylkis og FH í tengslum við lán á leikmanninum mætti hann hvort sem er ekki spila næsta leik, við FH. Svona samkomulög hafa stundum verið kölluð heiðursmannasamkomulög en það er rangnefni. Það er ekkert heiðursmannalegt við það að skekkja keppni á Íslandsmótinu með því að banna liði að nota leikmann gegn einu liði, en leyfa að hann spili svo gegn hinum tíu. Ímyndið ykkur bara ef félög stunduðu þetta með enn grófari hætti, og að til dæmis þrír mikilvægir leikmenn Fylkis mættu ekki spila gegn FH en gætu gert öðrum liðum í baráttu um Evrópusæti skráveifu.