Þeir sem vilja klífa tind Everest, hæsta fjalls jarðar, þurfa að sýna fram á að þeir séu reyndir fjallgöngumenn verði tillögur ráðgjafarnefndar á vegum stjórnvalda í Nepal samþykktar. Nefndin leggur til að fjallgöngumenn verði að klífa a.m.k. 6.

Þeir sem vilja klífa tind Everest, hæsta fjalls jarðar, þurfa að sýna fram á að þeir séu reyndir fjallgöngumenn verði tillögur ráðgjafarnefndar á vegum stjórnvalda í Nepal samþykktar.

Nefndin leggur til að fjallgöngumenn verði að klífa a.m.k. 6.500 metra hátt fjall í Nepal áður en þeim verði heimilað að ganga á tind Everest sem er 8.848 metra hátt. Fjallgöngumennirnir þurfi einnig að leggja fram vottorð um að þeir séu við góða heilsu og sýna að þeir hafi ráðið reynda leiðsögumenn. Gjaldið sem greiða þarf fyrir leyfi til að klífa fjallið verður hækkað í jafnvirði 4,4 milljóna króna úr 1,4 milljónum.

Yogesh Bhattari, ferðamálaráðherra Nepals, sagði að stefnt væri að því að breyta lögunum í samræmi við tillögur nefndarinnar. Markmiðið með þeim væri að auka öryggi göngumanna á fjallinu. Ellefu manns dóu á Everestfjalli í ár, þar af níu á leiðinni frá Nepal. A.m.k. fjögur dauðsfallanna voru rakin til of mikils fjölda göngumanna á fjallinu í einu, að sögn fréttaveitunnar AFP. Hún hefur eftir sérfræðingum að mörg dauðsfallanna megi einnig rekja til reynsluleysis göngumanna.

Alls klifu 885 manns Everestfjall í ár, fleiri en nokkru sinni fyrr.