[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Lizu Marklund. Friðrika Benónýsdóttir íslenskaði. Kilja. 493 bls. Ugla 2019.

Sænski rithöfundurinn Liza Marklund hefur skrifað margar áhugaverðar bækur og spennusagan Svört perla er með þeim betri sem frá henni hafa komið. Ekki er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, nær allur heimurinn er undir, en höfundi tekst á undraverðan hátt að tengja saman viðbjóðslega glæpi um víða veröld, ást og umhyggju, græðgi, nægjusemi, fórnir og ekki síst trú á hið góða.

Samtímasagan er um margt merkileg og áhugavert getur verið að kynna sér hitt og þetta. Oft er það svo að eftir því sem dýpra er kafað ofan í hlutina verða þeir fráhverfari eða með öðrum orðum er ekki allt gull sem glóir. Þótt Svört perla sé skáldsaga er hún þannig úr garði gerð að raunveruleikinn blasir hvarvetna við. Fyrir bragðið er hún sérstaklega trúverðug. Hún er líka þannig uppbyggð að ómögulegt er að hætta í miðju kafi. Liza Marklund leitaði víða fanga áður en skriftir hófust og heimildavinnan hefur skilað sér í frábæru verki.

Sagan hverfist um Kionu frá Manihiki, lítilli eyju í Kookseyjaklasanum í Suður-Kyrrahafi. Þar hafa íbúarnir lifað í sátt og samlyndi án utanaðkomandi áhrifa, en þegar seglskúta festist í kóralrifjunum og evrópskum manni er bjargað í land breytist allt. Kiona hafði aðeins kynnst litla samfélaginu en innan skamms er hún orðin þátttakandi í skuggahliðum mannlífsins í fjórum heimsálfum.

Fjármunir eru sem rauður þráður í sögunni, sérstaklega hin dökka hlið peningavaldsins, allt frá því Júdas sveik Jesú fyrir þrjátíu silfurpeninga að ræningjum nútímans, sem svífast einskis til þess að komast yfir sem mest, burtséð frá afleiðingunum fyrir menn og samfélög. Græðgin verður enn illskiljanlegri þegar litið er á hvaða perlur er að finna á Manihiki, fjarri öllu og öllum. „Það er allt hér,“ segir enda aðkomumaðurinn. „Fólk berst við að læra og vinna allt lífið en kemst aldrei nálægt þessu.“

Frásögnin er ekki aðeins spennandi heldur hefur hún að geyma svo mikinn og góðan boðskap, þökk sé Kionu, að ekki er annað hægt en hrífast með. Hið illa er þó aldrei langt undan og ekki verður á allt kosið þrátt fyrir góðan vilja. Réttlætið kostar samt oft æði miklar fórnir og Svört perla getur ekki annað en vakið lesandann til umhugsunar um hvert stefnir í lífinu.

Steinþór Guðbjartsson