Magnús Halldórsson gerir „Stöðumat“ á Boðnarmiði og hver sér ekki þessa mynd fyrir sér? Hjólið er við hlunninn laust, hryggðarmynd og lúi, liggur fallið nærri naust, nagar byrðing fúi.

Magnús Halldórsson gerir „Stöðumat“ á Boðnarmiði og hver sér ekki þessa mynd fyrir sér?

Hjólið er við hlunninn laust,

hryggðarmynd og lúi,

liggur fallið nærri naust,

nagar byrðing fúi.

Er á sóknum orðið hlé,

enginn snertir hlumma

Á sandi orpnu siglutré,

sé ég skít úr krumma.

Guðmundur Arnfinnsson bregður upp mynd af regnboga í skýjum:

Regnboginn í rofi stár

röndum skrýddur vænum,

gulur, rauður, grænn og blár

glitrar yfir bænum.

Hér eru stökur úr „Nágrönnum, stuðlamálum og stuttsögum“, hinni nýútkomnu bók Sigurlínar Hermannsdóttur. Það er góð bók og ég fjallaði um hana hér í Vísnahorni á þriðjudag. Fyrst er „Kvöldstemning“:

Hljóðna fuglar, höfuð smá

hylur mjúkur vængur.

Einnig skríða ýmsir þá

undir hlýjar sængur.

Dregur yfir dökkan hjúp

dag að kveldi lofa.

Þögnin liggur þykk og djúp

þegar flestir sofa.

„Heilræði“:

Þegar bjátar eitthvað á

aldrei gráta skaltu

láttu hlátur lyfta brá

lyndi kátu haltu.

Og „Ævi manns“:

Örskjótt líður ævin hjá

ellin svíður, köld og grá.

Dauðinn bíður, bregður ljá

burt hann sníður fölnuð strá.

Og að lokum Leirhnoð:

Úr leirnum hnoða ljóðin mín og letra í

sand.

Vísu skrái í skýjamynd

skálda kvæði í sunnanvind.

11. ágúst hlustaði Jón Hlöðver Áskelsson á fréttir í hádegi á RÚV:

Eddi Sheeran eykur þrótt

Íslendinga í röðum,

Þeir bíða bæði dag og nótt,

beittir hörðum kvöðum.

Uppi á sviði Eddi söng

og öllum gleymdist biðin.

Brosað, sungið! Og biðin löng

burt í gleymsku liðin.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is