[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Fossvogi Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Víkingur og FH leika til úrslita um Mjólkurbikar karla í fótbolta.

Í Fossvogi

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Víkingur og FH leika til úrslita um Mjólkurbikar karla í fótbolta. Víkingur tryggði sér sinn fyrsta bikarúrslitaleik síðan liðið varð meistari í eina skiptið í sögunni árið 1977 með 3:1-sigri á Breiðabliki á sögulegu kvöldi í Víkinni í gærkvöldi. Alls lögðu 1848 manns leið sína á Víkingsvöllinn í gær sem er nýtt áhorfendamet hjá félaginu. Stuðningsmenn Víkings sjá ekki eftir því, þar sem þeir fengu mikið fyrir peninginn.

Auk fjögurra marka kom eitt rautt spjald og var hiti í mönnum, enda mikið undir. Víkingar spiluðu einstaklega vel eftir að Thomas Mikkelsen kom Breiðabliki yfir á 35. mínútu. Tíu mínútum síðar var staðan orðin 2:1, Víkingi í vil, og sigldu heimamenn verðskulduðum sigri í höfn í seinni hálfleik. Kári Árnason lék gríðarlega vel sem djúpur miðjumaður og riðlaði hann spili Breiðabliks allan leikinn. Hann kom í veg fyrir að Gísli Eyjólfsson næði nokkurn tímann takti og voru fáir aðrir líklegir til að skapa usla í vörn Víkings.

Leikmenn Breiðabliks létu skapið hlaupa með sig í gönur undir lokin og Elfar Freyr Helgason fékk verðskuldað rautt spjald á 83. mínútu fyrir sóðalega tæklingu. Hann lét það ekki nægja, því hann tók rauða spjaldið af Þorvaldi Árnasyni, dómara leiksins, og kastaði því í grasið í kjölfarið. Elfar er einn reynslumesti útileikmaður Breiðabliks og hann á að setja betra fordæmi fyrir yngri liðsfélaga sína. Guðjón Pétur Lýðsson, liðsfélagi Elfars, fór ófögrum orðum um Þorvald dómara í leikslok og sagði hann ömurlegan og hræddan. Þorvaldur átti alls ekki slæman leik, þótt hann hefði mátt spjalda Kára Árnason snemma í leiknum fyrir ljóta tæklingu. Þorvaldur sleppti honum, en dæmdi leikinn annars vel. Breiðablik getur sjálfu sér um kennt, en liðið fór illa að ráði sínu með 1:0-forystu. Blikar þurfa að líta í eigin barm, frekar en að kenna öðrum um.

Víkingur á sæti sitt í bikarúrslitum skilið. Óttar Magnús Karlsson virðist vera púslið sem vantaði upp á heildarmyndina hjá Víkingum.

VÍKINGUR R. – BREIÐABLIK3:1

0:1 Thomas Mikkelsen 35. (víti)

1:1 Óttar Magnús Karlsson 40.

2:1 Nikolaj Hansen 45.

3:1 Guðmundur A. Tryggvason 69.

Gul spjöld

Halldór Smári Sigurðsson, Óttar Magnús Karlsson og Dofri Snorrason (Víkingi), Höskuldur Gunnlaugsson og Gunnleifur Gunnleifsson (Breiðabliki).

Rauð spjöld

Elfar Freyr Helgason (Breiðabliki).

Dómari : Þorvaldur Árnason.

Áhorfendur : 1.848.