100 ára Laufey hélt upp á aldarafmælið í gær umkringd ættingjum og vinum. Hún dvelur nú á Grund í Reykjavík.
100 ára Laufey hélt upp á aldarafmælið í gær umkringd ættingjum og vinum. Hún dvelur nú á Grund í Reykjavík. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Laufey Sigríður Karlsdóttir fagnaði 100 ára afmæli sínu í gær ásamt vinum og ættingjum. Afmælið var haldið á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík þar sem Laufey hefur dvalið í fjögur ár. Hún klæðir sig og hefur fótaferð á hverjum degi.

Laufey Sigríður Karlsdóttir fagnaði 100 ára afmæli sínu í gær ásamt vinum og ættingjum. Afmælið var haldið á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík þar sem Laufey hefur dvalið í fjögur ár. Hún klæðir sig og hefur fótaferð á hverjum degi.

Laufey fæddist á Gamla-Hrauni, milli Stokkseyrar og Eyrarbakka, 15. ágúst 1919, dóttir Guðmundar Karls Guðmundssonar, skipstjóra á Stokkseyri og Sesselju Jónsdóttur húsfreyju. Þau hjónin eignuðust níu börn og var Laufey í miðið. Hún er ein eftirlifandi af systkinahópnum. Laufey missti föður sinn tíu ára gömul og ólst upp frá því upp hjá Margréti móðursystur sinni og Guðmundi Eggertssyni manni hennar í Hafnarfirði. Í Hafnarfirði lærði Laufey að synda hjá Hallsteini Hinrikssyni sundkennara. Sundkennslan fór fram í sjónum.

Laufey giftist Konráð Guðmundssyni verkstjóra árið 1937. Konráð lést árið 2007, 92 ára gamall, og höfðu þau þá verið í hjónabandi í tæp 70 ár. Fyrstu hjúskaparárin bjuggu þau í Reykjavík, lengi í Vogahverfi. Konráð byggði m.a. hús í Eikjuvogi. Þau fluttu í Holtagerði í Kópavogi um miðjan 7. áratug 20. aldar. Laufey átti heima þar í um 40 ár. Eftir að Konráð lést vildi Laufey komast aftur í Hafnarfjörð og keypti íbúð við Lækjargötu. Þar hélt hún heimili þar til fyrir fjórum árum.

Laufey var lengi heilsuveil og að mestu heimavinnandi. Heimilið var stórt og gestkvæmt. Þangað voru allir velkomnir, alltaf boðið upp á nýbakað og bæði hjónin mjög gestrisin.

Laufey var mikil hannyrðakona og prjónaði, saumaði og skapaði margt. Það lék allt í höndunum á henni. Á gamalsaldri fór hún að skera út í tré, mála á dúka og binda inn bækur. Stundum vann Laufey utan heimilis aðallega í fiskvinnslu. Hún hugsaði alltaf vel um heilsuna, passaði mataræðið og var dugleg að ganga og synda og snerti hvorki tóbak né áfengi.

Laufey og Konráð eignuðust tvö börn og þrjú fósturbörn sem heita Auður Anna Konráðsdóttir (f. 1940, d. 2019), Heimir Konráðsson (f. 1946), Sigrún Halldóra Gunnarsdóttir (f. 1951), Áslaug Kolbrún Jónsdóttir (f. 1952) og Kolbrún Karlsdóttir (f. 1959). Barnabörnin eru tólf, barnabarnabörnin 26 og barnabarnabarnabörnin eru tvö.