Á vef Reykjavíkurborgar er nokkuð sem heitir mælaborð borgarbúa og virðist eiga að gefa borgarbúum tölulega innsýn í borgina og starfsemi hennar. Þetta virðist þó ekki hugsað út frá því að svara þeim spurningum sem helst kynnu að brenna á íbúunum eða líklegast er að þeir kynnu að velta fyrir sér.

Á vef Reykjavíkurborgar er nokkuð sem heitir mælaborð borgarbúa og virðist eiga að gefa borgarbúum tölulega innsýn í borgina og starfsemi hennar. Þetta virðist þó ekki hugsað út frá því að svara þeim spurningum sem helst kynnu að brenna á íbúunum eða líklegast er að þeir kynnu að velta fyrir sér.

Undir yfirskriftinni „mannauður“ eru til dæmis birtar tölur um starfsmenn borgarinnar, en hvergi eru sjáanlegar upplýsingar um íbúana.

Undir fjármálum eru upplýsingar um heildartölur borgarinnar, þar með taldar tekjur og útgjöld, en ekkert um skattbyrði hins almenna borgarbúa og hve miklu meiri skattbyrðin er í borginni en víða í nágrenninu.

Þá vekur athygli að undir umhverfi og samgöngum er aðeins einn liður: Hjólaumferð. Þar er greint frá umferð hjólandi á þremur tilteknum stöðum í borginni en ekki er orð eða tala um bílaumferð.

Þær upplýsingar væru þó mun gagnlegri fyrir mun fleiri og ættu því meira erindi í „mælaborð borgarbúa“. Þannig væri áhugavert fyrir nær alla borgarbúa að vita hve langar raðir og tafir hafa myndast á götum borgarinnar, hve lengi beðið er á hverjum ljósum að meðaltali og hve mikið ferðatími fólks hefur lengst á síðustu árum vegna sérvisku borgaryfirvalda í umferðarmálum.

Ekkert þessu líkt er þó að finna í „mælaborði borgarbúa,“ sem er bersýnilega fremur hugsað sem áróðurstæki en upplýsingaveita.