Landbúnaður Rakað í múga fyrir hirðingu á túni í Hrútafirði á dögunum.
Landbúnaður Rakað í múga fyrir hirðingu á túni í Hrútafirði á dögunum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Heyskapur í sveitum landsins er almennt langt kominn, segja bændur sem Morgunblaðið ræddi við í gær. Eftirtekjan er um meðallag og þar ræður þurrkatíð.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Heyskapur í sveitum landsins er almennt langt kominn, segja bændur sem Morgunblaðið ræddi við í gær. Eftirtekjan er um meðallag og þar ræður þurrkatíð. Vætuna hefur, annarsstaðar en á Austurlandi, vantað svo best geti sprottið. Eigi að síður er fólk almennt ánægt með uppskeruna, afkomu, ástand og horfur.

Næringarríkt hey

„Sláttur hér í Rangárþingi er langt kominn,“ segir Elvar Eyvindsson bóndi á Skíðbakka í Austur-Landeyjum. Fyrsti sláttur sem flestir bændur tóku í júní hafi skilað góðum heyjum og nú séu margir að taka aðra yfirferð. Slá hána, eins og slíkt er kallað. „Það var mjög þurrt í veðri í maí og fram eftir júní. Þá fengum við vætu í nokkra daga svo allt komst á skrið. Mér sýnist líka að þetta sé mjög gott og næringarríkt hey,“ segir Elvar. Í Skagafirði sér fyrir endann á heyskap hjá þorra bænda. Heyfengur er þó ekki nema „... í slöku meðallagi,“ segir Atli Már Traustason bóndi í Syðri-Hofdölum í Blönduhlíð. „Frá því í apríl og þar til núna í ágúst kom hér varla dropi úr lofti og uppskeran er samkvæmt því. Í þessari viku hefur hins vegar hellirignt og á túnum er komin há fyrir seinni sláttinn, sem menn ljúka væntanlega núna í kringum helgina enda er spáð þurrki. Sjálfur hugsa ég mér að minnsta kosti gott til glóðarinnar og vænti þess að klára þetta að mestu, þótt einstaka spildur verði svo teknar í þriðja slætti.“

Þurrkatíð í allt sumar ræður því að bændur í Dölum eru nú í ágúst að áliðnum slætti með aðeins um 2/3 af þeim heyjum sem þeir náðu í fyrra. „Hér hefur verið mjög óvenjulegt tíðarfar að undanförnu,“ segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti Dalabyggðar og ráðunautur. Hann býr í Ásgarði í Hvammssveit, þar sem er veðurathugunarstöð og mælingar gerðar daglega. Samkvæmt þeim er uppsöfnuð úrkoma á staðnum frá 1. apríl til dagsins í dag aðeins 60 millimetrar borið saman við að ársúrkoman í meðalári eru 830 millimetrar. „Milli úrkomumagns og heyfengs er alltaf samhengi Það sem bjargar málunum núna er að margir eiga fyrningar frá fyrra ári og sjálfur er ég ágætlega settur,“ segir Eyjólfur.

Bleyta og brösótt

Á Austurlandi hefur legið í súld og rosa megnið af sumrinu svo heyskapur hefur gengið brösulega, segir Guðfinna Harpa Árnadóttir, bóndi í Straumi í Hróastungu á Héraði og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.

„Þeir sem búa lengst inn til landsins eru best settir með gott hey núna, bændur til dæmis á Fljótsdal og Efri-Jökuldal. Annarsstaðar, svo sem hér í Tungunni, er þetta leiðinlegra. Sumstaðar eru meira að segja skákir sem enn hafa ekki verið slegnar – og núna þegar langt er liðið á sumar eru grös orðin trénuð og væntanlega næringarlítil. Samt held ég að hvergi sé uppi alvarlegur vandi,“ segir Guðfinna.