Elínborg Ása Ingvarsdóttir fæddist á Skagaströnd 17. apríl 1950. Hún lést 5. ágúst 2019.

Elínborg Ása var dóttir hjónanna Ingvars Jónssonar, f. 1917, d. 2003, og Elínborgar Ásdísar Árnadóttur, f. 1920, d. 1979. Bræður Elínborgar Ásu eru: Jón Ingi, f. 1943, og Árni Björn, f. 1948.

Elínborg Ása giftist Guðjóni Einarssyni frá Ásgarði í Grindavík árið 1969 og eiga þau fimm syni: 1) Ingólfur, giftur Guðbjörgu Þórisdóttur og eiga þau þrjú börn, þau eru Hanna Rún, Valgerður og Ólafur Þór. 2) Ingvar, giftur Steinunni Óskarsdóttur og eiga þau þrjú börn, þau eru Elínborg, Ingi Steinn og Þórdís Ásta. 3) Einar, giftur Ástrúnu Jónasdóttur og eiga þau tvær dætur, þær eru Dröfn og Ása Björg. 4) Leifur, í sambúð með Guðrúnu Maríu Brynjólfsdóttur og eiga þau þrjú börn, þau eru Hlynur Ægir, Helgi Leó og Eldey Una. 5) Egill, lést 6. febrúar 2018, börn hans eru Elín Björt og Einar Logi.

Elínborg Ása fæddist og ólst upp á Skagaströnd en síðan lá leið hennar suður og hefur hún búið í Grindavík síðan 1969, eða í um 50 ár. Hún starfaði nánast allan sinn starfsferil hjá Vísi hf. í Grindavík, eða um það bil 40 ár, sem matráðskona.

Útför hennar fer fram frá Grindavíkurkirkju í dag, 16. ágúst 2019, klukkan 14.

Elsku besta mamma mín, þú varst söngurinn um lífið, ljósið og styrkurinn fyrir okkur öll. Það varst þú sem gerðir okkur öll að því sem við erum, samheldin og ástrík – undirbúningur þinn tókst fullkomlega fyrir áfall sem þetta. Ekki hefði ég trúað því, jafnvel þótt þú hefðir sagt mér það, hversu sárt þetta yrði.

Þú varst fyrirmynd okkar allra, heiðarleg og falleg alveg í gegn.

Það sem kemur mér helst til hugar er ég segi nokkur orð til að kveðja þig er hógværð. Þvílíkt jafnaðargeð og sú mildi sem þú hafðir var einstök. Er ég halla aftur augunum og reyni að muna eftir einhverju slæmu eða að þú hafir tekið í okkur eða skammað, þá kemur ekki eitt einasta tilvik upp en það þýðir ekki að þú hafir ekki leiðbeint okkur á rétta braut, heldur gerðir þú það á þinn einstaka hátt.

Þú áttir eintóma mömmustráka sem voru hjá þér daglega, ef ekki í mat þá allavega í spjalli og að sækja styrk þinn og visku. Þú varst einstök amma sem sýndi sig best í því hvað öll barnabörnin sóttu í þig og þú í þau, þú hafðir einhvern veginn tíma fyrir alla. Tengdamóðir varstu einstök og tókst upp hanskann fyrir þær í einu og öllu, þú vissir alveg að við drengirnir gátum stundum verið baldnir, þeirra missir er mikill.

Ég man aldrei eftir að þú hafir nokkurn tímann talað illa um neinn mann. Þú sagðir að dagar manna væru misjafnir og trúðir bara á það góða í öllum. Þú varst einstakur vinur og þótt þú værir forvitin hafðirðu aldrei þörf fyrir að endurspegla það sem þér var treyst fyrir. Þú varst kletturinn okkar allra.

Þér þótti ákaflega vænt um fólkið þitt að norðan og lofa ég þér því að við munum rækta það áfram. Við munum passa upp á Elínu Björtu og Einar Loga og sjá til þess að standa öll þétt saman þér til heiðurs því það er sennilega það sem þú hefur áhyggjur af núna. Pabba munum við umvefja ást og hugsa um líkt og þú hefur gert í yfir 50 ár. Þú varst skipstjórinn okkar allra.

Sérstakar þakkir vil ég senda mágkonum þínum, Kollu og Birnu, fyrir að reynast þér sem systur og frábærar vinkonur. Þolinmæði nágranna þinna varðandi bílaumferð alla daga var mikil, nokkrum sinnum var ég spurður hvort það væri afmæli en svarið var nei, við erum bara að kíkja á mömmu.

Þinn einlægur stoltur mömmustrákur,

Ingvar Guðjónsson.

Mild er morgunbirtan

Eins og þú

Hún læðist hljóðlega inn

Veitir huggun

Vinveitt öllum

Hógvær er kyrrðin

Æðruleysi og auðmýkt í upphafi dags

(GMB)

Elsku Ella.

Það var þungt höggið sem við fengum á einum fallegasta degi sumars. Enn og aftur erum við minnt á hversu óvænt lífsins áföll eru.

Þú varst einstök manneskja sem öllum líkaði vel við og þér líkaði vel við alla. Ekkert aumt máttirðu sjá án þess að rétta fram hjálparhönd og aldrei heyrði ég þig segja illt orð um nokkurn mann.

Börnin mín áttu alltaf hjá þér athvarf og allir þeirra vinir og ósjaldan voruð þið hjónin keyrandi þau hingað og þangað, það var aldrei neitt mál. Sérstaklega var eftirtektarvert hvað litla ömmustelpan þín gat dundað sér tímunum saman heima hjá þér, enda var nærvera þín svo hljóðlát og góð.

Greiðvikni, hógværð, mildi og æðruleysi eru orðin sem koma fyrst upp í hugann er ég hugsa til þín.

Þú kenndir mér margt um lífið án þess þó að setja það í orð, fyrirmynd mín á svo margan hátt.

Ég er þakklát fyrir alla morgnana í Vísi, alla hjálpina sem kom sjálfsögð frá þér og ég er þakklát fyrir samfylgdina í 18 ár.

Þín tengdadóttir,

Guðrún María.

Elsku yndislega og fallega amma Ella mín. Ég vil ekki trúa því ennþá að þú sért farin frá okkur. Lífið verður ansi skrítið og erfitt án þín. Þeir sem þekkja mig vel vita að þú, elsku amma Ella, varst mér svo kær. Þú varst fyrirmyndin mín í lífinu og uppáhaldsmanneskjan mín. Þú varst svo miklu meira en bara amma mín, enda varstu engin venjuleg kona. Þú varst svo einstök. Það er erfitt að finna jafn einstaka konu og þig. Þú sýndir öllum sem urðu á vegi þínum áhuga og umhyggju. Það er svo margt sem ég fæ frá þér og þinni góðmennsku. Þú kenndir mér svo margt sem ég mun reyna að halda í. Þú varst svo umhyggjusöm, gjafmild og alltaf til staðar fyrir mig og aðra í kringum þig.

Ég þekki ekki eina manneskju sem líkaði illa við þig, elsku Ella amma mín. Þú hafðir svo góða nærveru, varst svo fyndin og kærleiksrík.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið ykkur afa í heimsókn til mín til Berlínar í vor. Við skemmtum okkur svo vel öll saman og það var svo mikið hlegið. Svo er ég líka svo þakklát fyrir það að hafa komið fyrr heim frá Berlín í sumar og fengið að búa heima hjá ykkur afa áður en ég fékk íbúðina mína afhenta. Það er svo dýrmætt að hafa átt þessar stundir saman.

Ég með munnræpu eftir vinnu, sátum saman við eldhúsborðið að fá okkur kók, spjölluðum, þú hlustaðir, hlóst og spurðir af svo miklum áhuga um það sem ég var að gera og um fólkið í kringum mig.

Við áttum okkar eigin leyniorð þegar ég var lítil, þú sagðir alltaf við mig „kísöm“ sem þýddi að ég átti að kyssa ömmu. Við áttum svo sterkt samband allt frá því ég fæddist, ég var svo mikil ömmustelpa.

Enda var ég skírð í höfuðið á þér, sem átti svo vel við. Ég fékk grænu augun, hjartahlýjuna og hugulsemina frá þér.

Ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér, elsku amma Ella. Hádegismatinn sem þú gafst mér í hverju einasta hádegi á grunnskólagöngu minni og allar þær máltíðir sem þú eldaðir ofan í mig og fjölskylduna.

Ég vil þakka þér fyrir stuðninginn í gegnum allt það súra og sæta í lífinu, allar gæðastundirnar okkar saman, hjálpsemina og kærleikann sem þú gafst mér og síðast en ekki síst að hafa alltaf staðið með mér sama hvað. Það var engin jafn traust og þú. Þegar ég hugsa til þín þá heyri ég hlýlegu röddina þína, hláturinn og sé þig brosa.

Við ömmubörnin og allt þitt fólk munum sakna þín alveg óendanlega mikið. Ég lofa að halda vel utan um ömmubörnin þín, afa, pabba og allt þitt fólk. Við munum standa sterk saman í gegnum þetta. Ég kveð þig með miklum og svo sárum söknuði.

Ég mun aldrei gleyma þér. Þú munt vera í hjarta mínu að eilífu.

Þín heimsins mesta ömmustelpa og nafna þín,

Elínborg Ingvarsdóttir.

Elskulega vinkona.

Skelfing voru það raunalegar fréttir sem biðu mín, þegar ég kom heim frá Tenerife, að þú værir dáin. Kannski er maður aldrei tilbúinn að heyra dánarfréttir.

En þú varst ein af þeim sem kvarta aldrei, svo að engum datt dauðinn í hug.

Ella mín, þú varst öllum svo góð og mikið held ég að barnabörnin þín eigi eftir að sakna þín mikið, að ég tali nú ekki um drengina þína og tengdadæturnar.

Þú varst ein af þeim sem mega ekkert aumt sjá. Þá má ekki gleyma Guðjóni þínum sem hreinlega tilbað þig. Og ansi er ég hrædd um að hann Jón Ingi muni sakna þín mikið. Við sem eftir lifum munum öll minnast þín sem góðrar konu.

Vertu sæl, elsku Ella mín, og megi góður Guð geyma þig og varðveita og vísa þér nýjar leiðir.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem)

Þín svilkona,

Birna.

Elsku Ella amma mín er látin. Amma var alltaf brosandi og hress. Hún gerði allt fyrir alla og var til í að gera hvað sem var fyrir mann. Ég mun sakna þess að hringja í hana og fá far á æfingar, heim eftir vinnu og bara að hlæja með henni. Það er skrýtið að koma inn í húsið hennar og hún ekki þar og það verður líka skrýtið í kaffinu i vinnunni. Hún var alltaf þar og passaði að hafa nóg til af karamellujógúrt fyrir mig því að hún vissi að það var uppáhaldið mitt. Það elskuðu allir ömmu og amma elskaði alla. Amma var einstök kona, hún var mamman í fjölskyldunni og sá um alla, henni þótti vænt um alla og elskaði alla.

Ég er mjög þakklát fyrir að vera skírð í höfuðið á henni. En nú er hún komin til Egils og þau hugsa vel hvort um annað og ég veit að þau munu alltaf vaka yfir okkur. Ég vildi að ég gæti fengið eitt knús frá Ellu ömmu, séð brosið hennar einu sinni enn, heyrt hláturinn hennar einu sinni enn og fengið að sjá hana einu sinni enn.

Það sem ég mun sakna þín mikið. Ég hugsa um þig alla daga. Ég ætla að reyna vera sterk fyrir þig, Ella amma. Ég elska þig alltaf.

Ása Björg.

Eitt af því dýrmætasta í lífinu er að kynnast góðu fólki og fá tækifæri til að vera því samferða. Ég var svo heppin að alast upp í Mánagerði, í næsta húsi við Ellu, sem var einstök á svo margan hátt. Mér þótti afskaplega vænt um þessa mögnuðu konu, sem átti fjóra orkumikla stráka sem héldu uppi stuðinu í hverfinu okkar. Það var alveg sama hvað á gekk, alltaf var Ella róleg og yfirveguð og skipti ekki skapi. Þegar hún gekk með fjórða drenginn var ég reyndar viss um að nú kæmi stelpa því mér fannst ótrúlegt að einhver gæti eignast fjóra drengi. Ég dreif meira að segja í að kaupa kjól. Á þeim tíma grunaði mig ekki að ég ætti sjálf eftir að eignast fimm drengi og seinna stríddi Ella mér stundum og minnti mig á kjólakaupin forðum.

Það var alltaf gott að koma yfir til Ellu og spjalla. Hún var róleg og hjartahlý og yfir mig færðist einhvers konar friður þegar ég settist í eldhúskrókinn hjá henni í Mánagerðinu. Hjá henni lærði ég m.a. að meta ristað brauð með majónesi, eggjum og rækjum og fleira góðgæti enda var Ella frábær kokkur.

Minningarnar úr Mánagerðinu eru margar. Fjölskyldur okkar voru nánar og mamma og Ella góðar vinkonur sem sóttu stuðning og hvatningu hvor til annarrar. Þær hlógu mikið saman og tókst alltaf að sjá spaugilegar hliðar á hlutunum, hversu erfið sem verkefnin voru.

Fyrir stuttu sagði ég við Ellu að ég vonaði að mér tækist að mynda jafn sterk tengsl við syni mína og hún ætti við sína. Fyrir mér var Ella flottasta strákamamman. Samband hennar við synina var einlægt og fallegt og milli þeirra ríkti ávallt gagnkvæm virðing. Nýlega kom ég við í hádeginu hjá henni.. Tveir af strákunum lágu uppi í sófa og hún var eitthvað að sýsla í eldhúsinu. Ég sagði við þá að þetta væru þær stundir sem ég saknaði hvað mest frá því að foreldrar mínir voru á lífi. Þessar einföldu, fallegu stundir eru svo dýrmætar.

Elsku Gaui, Ingvar, Einar, Leifur og fjölskyldur, megi Guð og allir englarnir vaka yfir ykkur og gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Þegar næðir í mínu hjarta

og í huga mér engin ró,

og ég þrái að sjá hið bjarta

sem áður í mér bjó,

þá er lausnin alltaf nálæg,

ef um hana í auðmýkt bið,

og með bæninni kemur ljósið

og í ljósinu finn ég frið.

Brynhildur Björnsdóttir og

Páll Óskar)

Sólný Ingibjörg Pálsdóttir.

En handan við fjöllin

og handan við áttirnar og nóttina

rís turn ljóssins

þar sem tíminn sefur.

Inn í frið hans og draum

er förinni heitið.

(Snorri Hjartarson)

Þegar ég kveð elsku frænku mína, sem svo óvænt féll frá, vil ég minnast góðu æskuáranna okkar undir Höfðanum á Skagaströnd.

Elínborg var fjórum árum yngri en ég og sótti mikið til mín. Á þessum árum var alltaf verið að leika sér úti, vorum við með bú og lékum mikið í því, auðvitað var hún litla barnið í leiknum og lét allt yfir sig ganga til að vera með. Okkur áskotnaðist gamall barnavagn, sem henni var troðið ofan í, og þar var hún látin liggja kófsveitt undir teppi.

Mikill vinskapur var á milli heimila okkar, mæður okkar voru mjög nánar systur og vinkonur, enda bara eitt ár á milli þeirra. Það var svo gaman að þeim þegar Bogga bakaði kleinur eða mamma ástarpunga þá skutust þær á milli og færðu hinni, eins var það með margt annað. Mikil var sorg okkar þegar Bogga féll frá fyrir 40 árum.

Þetta erfði frænka mín svo ríkulega, var alltaf að gefa frá sér. Ég kom aldrei svo að ég færi ekki með eitthvað úr frystinum frá henni. Hún erfði líka góðu húsmóðurgenin, var frábær húsmóðir, allt var gott sem hún bjó til.

Fyrir rúmum 50 árum kynntist hún Guðjóni sínum og flutti til Grindavíkur, þar sem hún bjó eftir það.

Mér er minnisstæður 9. ágúst 1969, þá var hún hjá mér langt gengin með sitt fyrsta barn, sem einmitt vildi fæðast þennan dag, var smástress í gangi hjá okkur frænkunum enda báðar hálfgerðir krakkar.

Seinna um daginn fór ég með hana á fæðingardeildina, þar sem hún eignaðist sinn fyrsta dreng, hann Ingvar, næstur kom svo Einar, þá Leifur og Egill yngstur, hann lést 2818. Þá voru erfiðir tímar hjá frænku minni, sem aldrei hafði mörg orð um hlutina. Góðan stjúpson átti hún líka, Ingólf.

Elínborg átti góða fjölskyldu, Gauja sinn, strákana sína, tengdadæturnar og barnabörnin, þau voru líka heppin með hana, „límið“ sem öllu hélt saman, mikill er þeirra missir. Stórfjölskyldan í Grindavík var henni einnig mjög kær.

Elskulega fjölskylda, innileg samúð til ykkar allra. Megi minning hennar vera ljós í lífi ykkar.

Elsku frænka mín takk fyrir allt og allt.

Þín frænka,

Guðrún.