Plastið flokkað Vikuskammtur á leið í endurvinnslu hjá Borgarbíói.
Plastið flokkað Vikuskammtur á leið í endurvinnslu hjá Borgarbíói.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Ef fólk sem rekur bíó getur flokkað rusl í niðamyrkri þá geta allir það,“ segir Guðrún Karítas Finnsdóttir, sýningarstjóri hjá Borgarbíói á Akureyri.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ef fólk sem rekur bíó getur flokkað rusl í niðamyrkri þá geta allir það,“ segir Guðrún Karítas Finnsdóttir, sýningarstjóri hjá Borgarbíói á Akureyri.

Starfsmenn Borgarbíós hófu nýlega að flokka allt sorp sem fellur til í bíóinu. Þeir hafa komið fyrir átta flokkunartunnum og hvetja bíógesti til að láta ekki sitt eftir liggja. Guðrún Karítas segir að starfsfólkið hafi um nokkurt skeið flokkað sjálft rusl en nýlega var farið að flokka einnig ruslið úr sölum kvikmyndahússins. „Þetta er rosalegt magn. Við höfum lengi flokkað poka utan af nachosi, sósum og fleiru. Svo settum við tunnur inn í sal og fyrst um sinn nýttu sér ekki margir það. En eftir að við settum auglýsingu á skjáinn rétt áður en myndin hefst þar sem við hvetjum fólk til að flokka þá tóku margir við sér. Konurnar sem þrífa eru líka flokkunarsjúkar eins og ég og hjálpa okkur við þetta.“

Helmingi minna sorp en áður

Guðrún segir að um það bil þrír stórir ruslapokar með plasti séu sendir í endurvinnslu í viku hverri og umfang almenna sorpsins hafi samfara þessu minnkað umtalsvert. „Það er örugglega helmingi minna en áður, enda er til dæmis hægt að stafla glösum þegar búið er að taka lokin og rörin frá,“ segir hún.

„Það eru allir á Akureyri duglegir að flokka ruslið sitt og við viljum endilega að fleiri fyrirtæki bætist í hópinn,“ segir Guðrún Karítas.

Frekari ráðstafanir í þágu umhverfisins eru í skoðun að sögn Guðrúnar. Til að mynda er unnið að því í samstarfi við Vífilfell að hanna fjölnota glös sem fólk getur komið með aftur og aftur og fengið afslátt af gosi fyrir vikið.

Risarnir fylgja á eftir

Stóru kvikmyndahúsin í Reykjavík virðast ætla að feta í fótspor Borgarbíós á Akureyri. Samkvæmt upplýsingum frá Ólafi Þór Jóelssyni hjá Senu, sem rekur Smárabíó og Háskólabíó, er litið til fordæmisins frá Akureyri. „Það er algjört forgangsverkefni að útrýma plastinu. Í næstu viku byrjum við með papparör og verðum fyrsta kvikmyndahúsið til að taka þau í notkun. Þetta er svar við óskum viðskiptavina sem eru margir farnir að afþakka plaströr og plastlok á gosið hjá okkur. Við erum líka að skoða nýja bakka undir nachosið,“ segir Ólafur. Hann segir jafnframt að undirbúningur fyrir það að flokka og endurvinna í bíóhúsunum sé kominn á fulla ferð. „Það er í nokkur horn að líta varðandi útfærsluna og við ætlum að gera þetta vel, við erum ekki bara að leita að einhverjum stimpli,“ segir Ólafur.

Alfreð Árnason, framkvæmdastjóri hjá Sambíóunum, sagði að það væri í undirbúningi að hefja flokkun sorps í sölum Sambíóanna og verið væri að skoða hvernig yrði staðið að því.