[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Páll Sigurðsson fæddist 16. ágúst 1944 í Reykjavík. „Ég fór á Sauðárkrók nokkurra mánaða gamall með móður minni og ólst þar upp með henni og ömmu minni og afa.

Páll Sigurðsson fæddist 16. ágúst 1944 í Reykjavík. „Ég fór á Sauðárkrók nokkurra mánaða gamall með móður minni og ólst þar upp með henni og ömmu minni og afa. Ég var sex sumur í sveit í Blönduhlíð, þar af fjögur seinni árin í Flugumýrarhvammi hjá ömmusystur minni sem þar bjó.“

Páll gekk í barnaskólann á Sauðárkróki, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1964 og embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands í maí 1969. Hann stundaði síðan framhaldsnám og rannsóknir víða um lönd, m.a. í sjórétti og skaðabótarétti við Óslóarháskóla og í réttarsögu og réttarfari við Háskólann í Bonn. Í nóvember 1978 lauk hann doktorsprófi frá lagadeild HÍ með ritgerðinni Þróun og þýðing eiðs og heitvinningar í réttarfari.

Eftir að hafa útskrifast úr lagadeildinni 1969 var Páll fulltrúi hjá sýslumanninum í Snæfells- og Hnappadalssýslu um nokkurra mánaða skeið áður en hann hélt í framhaldsnám. Þegar heim var komið var hann um skeið fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Hann varð dósent við lagadeild HÍ 1973 og var skipaður prófessor 1987 og gegndi þeirri stöðu óslitið þar til hann lét af störfum haustið 2014. Hann var deildarforseti lagadeildar 2000-2002.

Aðalkennslugreinar Páls voru lengi samningaréttur og kauparéttur, sem voru skyldugreinar við lagadeildina. Hann samdi mikið efni sem var notað í kennslunni og var það kærkomið fyrir nemendur en á þessum tíma var algengt að við kennslu væru notuð yfirgripsmikil lögfræðirit á dönsku. Strax á fyrstu starfsárum sínum stóð Páll fyrir því að taka upp fjölbreyttari kennsluhætti við lagadeildina, og ritaði m.a. hugleiðingar um kennsluaðferðir og -tækni. Síðar kenndi Páll erfðarétt í grunnnáminu og kenndi og hafði umsjón með fjölmörgum greinum í meistaranámi við lagadeild. Hann kenndi einnig kirkjurétt við guðfræðideild HÍ og stundaði rannsóknir á því sviði.

Fræðimaður og ferðalangur

Alla tíð hefur Páll verið mjög virkur í rannsóknum og stundað þær víða um lönd. Þegar hann var laganemi birti hann nokkrar fræðigreinar í Úlfljóti, tímariti laganema, og fyrsta bók hans, Brot úr réttarsögu, kom út þegar Páll var 27 ára gamall, en hann hefur mikið ritað um réttarsöguleg efni, bæði íslenska réttarsögu og samanburðarréttarsögu. Bækurnar eru orðnar 50 talsins, en sú síðasta, Lagaglæður, kom út í fyrra. Bækurnar spanna fjölbreytt svið lögfræðinnar auk þess sem Páll skrifaði rit í tveimur bindum um húsnæðis- og byggingarsögu HÍ, þrjár árbækur Ferðafélags Íslands um Skagafjörð og ferðabækur um útlönd. Hann var ritstjóri Lögfræðiorðabókarinnar sem kom út árið 2008.

Páll hefur gegnt ýmsum stjórnunarstörfum, hann átti sæti í stjórn Lagastofnunar í hálfan annan áratug, var formaður kynningarnefndar HÍ og framkvæmdastjóri 75 ára afmælishátíðar HÍ árið 1986, auk ýmissa fleiri stjórnunarstarfa innan háskólans. Hann var formaður fornleifanefndar, rannsóknarnefndar sjóslysa og kærunefndar útboðsmála, varaformaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála, stjórnar Örnefnastofnunar, gerðardóms Verkfræðingafélags Íslands og áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar. Hann sat í stjórn Landverndar, náttúruverndarráði, ferðamálaráði og alþjóðanefnd Rauða kross Íslands. Páll sat í stjórn Ferðafélags Íslands og var forseti þess 1994-1997 og er heiðursfélagi FÍ.

Páll er náttúruverndarsinni og hefur ferðast mikið bæði hér á landi og víða um heim. Hann hefur kynnt sér réttarsögu og menningu flestra þjóða í Evrópu og í fjarlægari löndum og álfum og stofnað til tengsla við erlenda fræðimenn. Páll hefur haldið málverkasýningar, m.a. á olíuverkum, og í fyrstu bók hans eru nokkrar teikningar.

„Ég er enn að mála og svo sit ég við tölvuna hluta úr degi og læt mér detta eithvað í hug, er að fara í gegnum heimildir og les ýmislegt sem ég hafði ekki tíma til áður. Það er tvennt sem ég hef alltaf haft áhuga á meðal annars; annars vegar réttarsaga og tengsl hennar við almenna menningarsögu og þjóðfræði og hins vegar samanburðarlögfræði sem er stórkostlegt fag. Það var lengi markmið mitt að kynna mér sem flestar þjóðir og þetta er óþrjótandi viðfangsefni. Ég kenndi samanburðarlögfræði en hún hafði ekki verið mikið stunduð hér á landi svo ég þurfti að ryðja henni braut.“ Páll býst þó ekki við að senda frá sér fleiri bækur. „Er 50 ekki snotur tala?“

Fjölskylda

Eiginkona Páls er Sigríður Ólafsdóttir, f. 21.10. 1945, fyrrverandi héraðsdómari. Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Tryggvason, f. 10.10. 1913, d. 20.6. 1993, læknir í Reykjavík, og Anna Sigríður Lúðvíksdóttir, f. 6.8. 1920, d. 28.5. 2018, húsfreyja.

Kjörbörn Páls og Sigríðar eru: 1) Anna Sigríður Pálsdóttir, f. 20.10. 1979 í Beirút í Líbanon, hárgreiðslukona og hönnuður, búsett á Spáni. Dóttir hennar er Ísmey Myrra, f. 25.11. 2007; 2) Ólafur Pálsson, f. 31.10. 1981 í Beirút, viðskiptafræðingur og alþjóðlegur viðskiptastjóri hjá Orf líftækni. Maki hans er Tanja Berglind Hallvarðsdóttir, f. 20.10. 1985, viðskiptafræðingur, með eigið fyrirtæki. Börn þeirra eru Hrafnhildur Mía, f. 6.1. 2013, og Helena, f. 4.9. 2014.

Systkini Páls sammæðra eru Stefán Árnason, f. 18.12. 1952, d. 20.11. 2005, framkvæmdastjóri á Sauðárkróki, og Helga Árnadóttir, f. 16.12. 1956, framhaldsskólakennari, búsett á Svalbarðsströnd.

Foreldrar Páls voru Ingibjörg Júlíana Stefánsdóttir, f. 19.7. 1919, d. 14.7. 1972, húsfreyja á Sauðárkróki, og Vigfús Sigurður Jónsson, f. 9.3. 1921, d. 31.12. 1972, birgðavörður í Reykjavík.