Ferð til fjár Breiðablik gerði góða ferð til Sarajevo í undankeppninni.
Ferð til fjár Breiðablik gerði góða ferð til Sarajevo í undankeppninni. — Ljósmynd/Ingibjörg Auður
Íslands- og bikarmeistarar Breiðabliks munu komast að því í hádeginu í dag hver andstæðingur liðsins verður í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta. Ljóst er að erfitt einvígi bíður þeirra.

Íslands- og bikarmeistarar Breiðabliks munu komast að því í hádeginu í dag hver andstæðingur liðsins verður í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta. Ljóst er að erfitt einvígi bíður þeirra.

Blikakonur eru í neðri styrkleikaflokki, ásamt meðal annars sjö öðrum liðum sem komust áfram úr undankeppni mótsins í vikunni. Á meðal þeirra liða sem þær gætu mætt eru Evrópumeistarar Lyon, Þýskalandsmeistarar Wolfsburg með Söru Björk Gunnarsdóttur innanborðs, PSG, Barcelona sem lék til úrslita gegn Lyon síðasta vor, og Manchester City. Þessi lið koma einnig til greina:

Bayern München (Þýs), Slavia Prag (Ték), Bröndby (Dan), Fortuna Hjörring (Dan), Zürich (Svi), Kazygurt (Kas), Glasgow City (Sko), Atlético Madrid (Spá), Sparta Prag (Ték), Twente (Hol), Fiorentina (Íta). Twente og Kazygurt eru einu liðin úr undankeppninni sem fengu sæti í efri styrkleikaflokki.

Í 32-liða úrslitunum er leikið heima og að heiman og fá liðin úr efri styrkleikaflokki að leika seinni leikinn á heimavelli. Leikið verður 11.-12. og 25.-26. september. Leikirnir gætu því truflað Blikakonur nokkuð í baráttunni við Val um Íslandsmeistaratitilinn en til stendur að Breiðablik og Valur mætist í næstsíðustu umferð Íslandsmótsins 15. september.

Lengst komist í 8-liða úrslit

Breiðablik náði sínum besta árangri í Meistaradeildinni, eða forvera hennar, þegar liðið komst í 8-liða úrslit tímabilið 2006-07, en tapaði þar fyrir Arsenal. Liðið lék síðast í keppninni tímabilið 2016-17 og féll þá úr leik í 32-liða úrslitum eftir samanlagt aðeins 1:0-tap gegn Mörtu og stöllum í Rosengård.

Þór/KA komst í 32-liða úrslit í fyrra en tapaði þar samanlagt 3:0 fyrir Wolfsburg. Stjarnan komst í 16-liða úrslit fyrir tveimur árum en tapaði þar 2:1 fyrir Slavia Prag. sindris@mbl.is