Elínborg Ása Ingvarsdóttir fæddist 17. apríl 1950. Hún lést 5. ágúst 2019.

Útför hennar fór fram 16. ágúst 2019.

Þín gullnu spor

um ævina alla

hafa markað

langa leið.

Skilið eftir

ótal brosin,

og bjartar minningar

sem lýsa munu

um ókomna tíð.

(Hulda Ólafsdóttir)

Elínborg frænka hefur alltaf verið einstaklega dýrmæt í mínum huga. Ég var litla frænka, ellefu árum yngri, hún stóra frænka og barnapían mín. Hennar heimili var mitt annað heimili. Hún alltaf þolinmóð, blíð og góð, leyfði mér að skoða dúkkur og skart og gaf mér gjarnan eitthvað skemmtilegt að taka með mér heim. Elínborg frænka sem ung kona var alger pæja með túberað hár, bleikan varalit og í ljósblárri buxnadragt, hún leyfði mér að prófa naglalakk og varaliti.

Ég ætlaði að verða alveg jafn flott og hún. Elínborg frænka sem ung móðir og eiginkona í Grindavík, ég sóttist í að fá að vera hjá henni í nokkra daga á sumrin. Það var mér ógleymanleg samvera, mikið stuð og gaman, mjög ólíkt rólega heimilinu mínu á Skagaströnd. Þegar ég eignaðist mín börn dvaldi ég oft um helgar hjá Elínborgu frænku og fjölskyldu hennar en við áttum börn með 13 daga millibili.

Ég mitt fyrsta og hún sitt síðasta, okkur fannst það skemmtileg frænkusameining. Þá fékk ég kennslu í matargerð og sjaldan fór ég tómhent heim af einhverju matarkyns.

Elínborg frænka var góð í öllum hlutverkum hvort heldur var sem eiginkona, móðir, amma, systir, frænka, mágkona, vinkona og eða vinnufélagi. Á sinn hægláta hátt lét hún öllum líða vel í kringum sig, hún var góður hlustandi, ljúf og tillitssöm með einstaklega góða nærveru.

Andlát Elínborgar frænku er sannarlega ótímabært en hvenær dauða okkar ber að garði er víst eitt af þeim atburðum sem við fáum lítt við ráðið. Um það hvernig við lifum lífinu ráðum við einhverju um og það má með sannni segja um Elínborgu frænku að hún lifði sínu lífi á fallegan og góðan hátt sem einstök fjölskyldumóðir, hún var góð og gegnheil manneskja.

Ég og fjölskylda mín þökkum Elínborgu frænku hlýju og gæði.

Fjölskyldu hennar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ásdís Björg

Þórbjarnardóttir.

Í dag kveðjum við hana Ellu, sem alla tíð hefur verið hluti af okkar lífi. Hún var með okkur þegar við vorum börn og unglingar í Mánagerðinu, þegar við stofnuðum fjölskyldur okkar og á meðan við byggðum upp fyrirtækið, þar sem við höfum unnið saman í áratugi. Það er því einkennileg tilfinning að mæta til vinnu í dag og átta sig á að hún er ekki lengur til staðar.

Fyrirtækjamenning skapast af því fólki sem þar vinnur. Þá áratugi sem Ella sá um eldhúsið í Vísi var þar mikil gróska og kraftur.

Hvort sem fólk kom í kaffistofuna til að hvílast, nærast, slaka á eða takast á um málefni líðandi stundar fundu þar allir sína fjöl. Grunnurinn var nærvera Ellu.

Með sinni móðurlegu umhyggju á hún stóran þátt í þeim starfsanda sem hefur skapast og gerir það að verkum að fyrirtækinu helst vel á starfsfólki. Þetta gerði hún án þess að hafa sjálfa sig mikið í frammi en það er eitt einkenni þeirra sem hugsa fyrst um aðra áður en þeir hugsa um sjálfa sig.

Mjög hefur fækkað í hópi þeirra sem lengst hafa notið kaffistofunnar hennar Ellu. Samstarfsmenn hafa kvatt einn af öðrum, sumir allt of snemma.

Það minnir okkur á að við skulum vera þakklát fyrir þann tíma sem við þó fáum með okkar góða samferðafólki í lífinu. Og við þökkum fyrir þær stundir sem við fengum með henni Ellu.

Lífið leggur misþungar byrðar á fólk. Ella fékk sinn skammt af erfiðleikum og tókst á við sín áföll af æðruleysi og yfirvegun. Jafn sárt og það er að sjá á eftir henni þá vitum við að vel verður tekið á móti henni. Í nýju kaffistofunni hennar fær hún væntanlega svör við þeim spurningum sem enginn gat svarað hérna megin veraldar.

Guð blessi minningu Ellu og gefi Gauja, strákunum og fjölskyldum þeirra styrk til að takast á við sorgina.

Pétur H. Pálsson, systkini, fjölskyldur og starfsfólk

Vísis hf. í Grindavík.