Akureyri Stór skemmtiferðaskip leggjast að bryggju rétt við miðbæinn. Loftgæðamælir við Hof, rúman kílómetra frá skipalæginu, hefur mælt mjög litla mengun frá skipunum og langt undir heilsuverndarmörkum.
Akureyri Stór skemmtiferðaskip leggjast að bryggju rétt við miðbæinn. Loftgæðamælir við Hof, rúman kílómetra frá skipalæginu, hefur mælt mjög litla mengun frá skipunum og langt undir heilsuverndarmörkum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Draga má þá ályktun af niðurstöðum loftgæðamælinga við Hof á Akureyri að útblástur svifryks, niturdíoxíðs og brennisteinsdíoxíðs frá skemmtiferðaskipum hafi ekki haft heilsufarsleg áhrif á fólk í miðbæ Akureyrar eða allra næsta nágrenni, samkvæmt...

Draga má þá ályktun af niðurstöðum loftgæðamælinga við Hof á Akureyri að útblástur svifryks, niturdíoxíðs og brennisteinsdíoxíðs frá skemmtiferðaskipum hafi ekki haft heilsufarsleg áhrif á fólk í miðbæ Akureyrar eða allra næsta nágrenni, samkvæmt niðurlagi minnisblaðs Verkfræðistofunnar EFLU sem kannaði niðurstöður loftgæðamælinga þar hluta ársins 2018.

Umhverfisstofnun (UST) og Akureyrarbær eru með sjálfvirkan loftgæðamæli við menningarhúsið Hof. Það er rúman kílómetra frá þar sem skemmtiferðaskip leggjast að bryggju. Hafnasamlag Norðurlands fékk EFLU til að taka saman minnisblað um niðurstöður loftgæðamælinga við Hof frá mars til 11. júlí 2018.

Mælingar á styrk svifryks, niturdíoxíðs og brennisteinsdíoxíðs sýndu að „áhrif útblásturs af völdum skemmtiferðaskipa í miðbæ Akureyrar voru mjög lítil og vart merkjanleg, utan við örfáa toppa fyrir þessa mæliþætti sem eru þó allir vel undir heilsuverndarmörkum“. EFLA benti á að strompar skemmtiferðaskipanna væru hátt uppi og útblásturinn bærist því hátt upp í loft. Mögulega næmi mælistöðin við Hof ekki þennan útblástur nema að litlu leyti.

Mælir mengun frá umferð

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá UST, sagði að mælirinn við Hof hefði verið staðsettur þar fyrst og fremst til að mæla mengun frá umferð. Hann sagði að væri horft á vindrós fyrir Akureyrarbæ sæist að sjaldan stæði vindur frá bryggjunum sem skemmtiferðaskipin leggjast að beint að mælinum.

„Mælirinn er staðsettur þannig að hann er ekkert endilega að grípa mengunina frá skipunum,“ sagði Þorsteinn. „Vindáttin á Akureyri stendur yfirleitt inn eða út fjörðinn. Mengunin frá skipunum fer í rauninni mjög sjaldan á Hof nema kannski ef algjört logn er.“ Hann sagði að töluverð mengun gæti borist frá skemmtiferðaskipum, en þau væru mjög há og loftgæðamælir í tveggja metra hæð við Hof væri líklega ekki kjörstaður til að mæla mengunina frá þeim.

Ef settur væri upp loftgæðamælir til að mæla þessa mengun sérstaklega þyrfti að staðsetja hann með tilliti til ríkjandi vindáttar og hafa hann t.d. í íbúðarbyggð, við skóla, sjúkrahús eða aðra starfsemi 0,5-1 kílómetra frá skipunum. „Okkur finnst kannski ekki endilega marktækt að mæla mengunina á hafnarbakkanum. Þar býr enginn og þar er hvorki skóli né leikskóli,“ sagði Þorsteinn.

Mengun fylgir hafnarstarfsemi

Fjórar loftgæðamælastöðvar eru í Reykjavík. Stöðvar UST hafa verið við Grensásveg og Húsdýragarðinn árum saman. Sú síðarnefnda er um 1,8 km frá Skarfabakka, þar sem stór skemmtiferðaskip leggjast að bryggju. Enginn loftgæðamælanna í Reykjavík er sérstaklega staðsettur til að vakta mengun frá skipum.

„Ég get varla sagt að maður hafi séð samband við skemmtiferðaskip í mælingunum, en mælirinn er náttúrulega talsvert langt frá,“ sagði Þorsteinn. Hann sagði það hafa verið nefnt meðal sérfræðinga að það gæti verið áhugavert að mæla loftgæði í Sundahöfn og við Gömlu höfnina. „Hafnir eru svæði þar sem búast má við talsverðri mengun. Þar eru skipin, mikið af vinnuvélum og flutningabílum. Almennt talað eru þetta mengaðir staðir,“ sagði Þorsteinn. gudni@mbl.is