Steinar Páll Ingólfsson fæddist 10. febrúar 1990. Hann lést 26. júlí 2019.
Steinar Páll var jarðsunginn 6. ágúst 2019.
Elsku hjartans Steinar Páll, það er ólýsanlega erfitt að skrifa kveðjuorð til þín. Þú átt alltaf stað í hjarta mínu, sérstaklega þar sem ég passaði þig lítinn fallegan snáða. Þið María Lindin mín voruð eins og tvíburar, enda einungis sex mánuðir á milli ykkar, og var ég oft spurð hvort ég ætti þessa fallegu tvíbura. Mikið var ég þá stolt. Ófáar ferðir fórum við í útilegur, sumarbústaði að ógleymdri Aðalvíkinni okkar þar sem sælureitur okkar stórfjölskyldunnar er og ylja þessar minningar og margar aðrar í gegnum lífið þitt mér nú þegar sorgin er óbærileg. Þú varst einstaklega fallegur og glæsilegur ungur maður, góðhjartaður og kærleiksríkur. Ég sakna þín mikið og bið algóðan Guð að umvefja þig og fylgja þér, þar sem við fjölskyldan getum ekki fylgst með þér lengur. Heilagi andi huggarinn veri með ykkur elsku yndislega Sif, Ingólfur, Þorbjörg Hekla, Jón Örn og Helgi Valur.
Þú baðst mig að senda þér engil með unað,
með ástúð og hlýju og himneskan frið.
Með indælu brosi víst gat mig það grunað
að gæfan hún myndi þá blasa þér við.
Ég fyllti mitt hjarta af alúð og yndi
og ákvað að senda það síðan til þín,
með blíðu í huga ég bað um að myndi
þá birtast þér ljúfasta hugsunin mín.
Er hjartað mitt fagnaði sólskini sínu,
ég sendi þér fegursta engilinn minn,
nú situr hann uppi á þakinu þínu
og þú getur auðvitað hleypt honum inn.
(Kristján Hreinsson)
Þín frænka,
Björg.