Sverrir Ólafsson
Sverrir Ólafsson
Eftir Sverri Ólafsson: "Samþykkt þriðja orkupakkans væri glapræði og dæmi um undirlægjuhátt og dómgreindarleysi."

Er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að vera? Vonandi ekki.

Í níu áratugi hefur flokkurinn verið kjölfestan í íslenzku stjórnmálalífi. Hann á sér glæsta sögu og margir forystumanna hans hafa verið orðlagðir fyrir stjórnvizku. Flokkurinn hefur staðið vörð um frelsi og fullveldi þjóðar jafnt sem einstaklinga. Hann hefur staðið vörð um auðlindir þjóðarinnar og atvinnuvegi. Flokkurinn hefur stýrt öryggismálum lands og þjóðar með þeim hætti að þeim verður vart betur fyrir komið. Hann hefur staðið fyrir stöðugum efnahag og hóflegri skattheimtu í krafti stefnufestu og réttsýni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sameinað þjóðina og lengst af notið yfirgnæfandi fylgis. Sundrungin hefur fyrst og fremst verið á vinstri vængnum.

Helzt mætti ásaka flokkinn fyrir fullmikla virkjanagleði, takmarkaðan áhuga á verðmætum óspilltrar náttúru og andvaraleysi í sambandi við hrunið. Það verður þó að segjast að snöfurmannlega var tekist á við afleiðingar hrunsins með neyðarlögum undir forystu flokksins þannig að nú ríkir farsæld, sem sögulega á sér líklega ekki fordæmi.

En það blása nýir vindar innan flokks. Ungt fólk með nýja sýn á þjóðmálin gefur lítið fyrir landsfundarsamþykktir og stefnumál flokksins en hagar málum eftir eigin höfði og að eigin geðþótta. Frelsi og fullveldi er lítils virði og sjálfstæði þjóðar er orðið að verzlunarvöru á altari evrópskra stórríkisdrauma. Heldur eru það raunaleg viðhorf á aldarafmæli fullveldis að gæla við þá hugmynd að verða hreppur í stórríkinu. Ekki verður annað séð en að ungliðar flokksins í ríkisstjórn daðri við þessa hugmynd án þess að gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að gera. Ekki nóg með það. Þingmenn flokksins fylgja ungliðunum hugsanalaust í vegferð sinni. Er nema von að Alþingi sé trausti rúið.

Ljóst má vera, að undansláttur gagnvart Evrópusambandinu er ekki í samræmi við þjóðarvilja enda hrynur fylgið af flokknum. Þriðji orkupakkinn veldur hér mestu um. Hann á eftir að reynast Akkillesarhæll flokksins.

Það ætti hver heilvita maður að sjá, að sæstrengur verður lagður til útlanda í fyllingu tímans. Landsvirkjun og taglhnýtingurinn Landsnet vinna að því hörðum höndum án þess að Alþingi eða ríkisstjórn blandi sér í þær athafnir svo séð verði. Í lok dags verður búið að eyða svo miklum peningum í undirbúning að það verður að fara í lagningu strengsins hvort sem það er vilji þjóðar eða ekki. Þessi aðferð Landsvirkjunar við að koma stórframkvæmdum í gegn er löngu kunn. Orkugeggjararnir innlendu reikna þetta allt saman út með gríðarlegum hagnaði og án kostnaðar og áhættu fyrir þjóðina. Auðvitað verður þjóðin látin borga þennan streng með hærri gjöldum fyrir rafmagn, þegar upp er staðið. Og í reynd verður það ekki Alþingi, sem tekur ákvörðun um rafstreng til útlanda. Það verða í raun hinir andlitslausu orkugeggjarar, sem kunna að reikna barn í kellingu.

Fyrir leikmann í fræðunum er málsmeðferð stjórnvalda við þriðja orkupakkann með miklum ólíkindum. Því er haldið fram að málsmeðferðin sé vönduð. Hver heilvita maður hlýtur að sjá að hún er það alls ekki. Fyrirvararnir eru haldlausir og standast enga skoðun. Þótt þriðji orkupakkinn fjalli ekki um beinlínis um sæstreng gerir samþykkt hans það óbeint því að með henni hefur ríkisstjórn markað stefnuna, skuldbundið sig til að standa ekki í vegi fyrir lagningu hans og þá sjá allir hvert það leiðir. Yrði það gert væru skaðabótakröfur yfirvofandi þótt menn í háskólasamfélaginu haldi því fram að slíkar kröfur eigi sér ekki stoð. Vandalaust virðist að hrekja það. Verst er þó að missa yfirráð og stjórn á auðlindinni, sem mun stórauka þrýsting á nýjar virkjanaframkvæmdir á kostnað náttúru landsins. Evrópa er nú þegar þjökuð af orkuhungri og ráðandi aðilar þar munu fyrir víst gera kröfu um ríflegan skerf af okkar orku þannig að það eykur hættu á orkuskorti hér heima. Þetta ástand er nú þegar yfirvofandi og mun nærtækara en hugmyndir um hamfaragos, sem verða á árþúsunda fresti og gætu truflað einhverjar virkjanir í bili og væri þá gott að geta fengið rafmagn að utan. Fylgjendur orkupakkans grípa stundum til slíkra furðuröksemda í málefnalegri fátækt sinni.

Leyfi mér hér í lokin að vísa í orð formanns Sjálfstæðisflokksins um þetta mál: „Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undi boðvald þessara stofnana?“

Það má sannarlega taka undir þetta en því miður á víst að gera alveg þveröfugt. Sagt er að við höfum bæði belti og axlabönd, þegar við höfum hvorugt. Og þá missum við auðvitað allt niður um okkur og lítið annað gera en að taka undir það, sem maðurinn sagði á krossinum forðum: „Fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“

Samþykkt þriðja orkupakkans væri glapræði og dæmi um undirlægjuhátt og dómgreindarleysi. Það er líka glapræði fyrir stjórnmálaflokk, sem vill vera tekinn alvarlega, að bregðast fylgjendum sínum með blekkingum, stefnulausung, heybrókarskap og orðhengilshætti.

Höfundur er viðskiptafræðingur. sverrirolafs@simnet.is

Höf.: Sverri Ólafsson