Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur sala áfengis aukist um 3,5% frá því sem var á sama tímabili í fyrra en alls hafa 12,9 milljón lítrar verið seldir á því tímabili. Mesta aukningin á milli ára er í sameiginlegum flokki freyðivíns og kampavíns en þar nemur aukningin 32,2% þar sem seldir hafa verið um 126 þúsund lítrar á fyrstu sex mánuðum ársins. Sala á hvítvíni nam 693 þúsund lítrum og jókst um 7,1% og salan á lagerbjór nam 9,5 milljón lítrum og jókst um 2,6%. Aftur á móti dróst sala á rauðvíni, sem nam 1,1 milljón lítra, saman um 1,2% á milli ára, frá janúar til júlí.
Salan á sumarmánuðunum, maí, júní og júlí, jókst um 6,6% á milli ára. Sala á freyðivíni og kampavíni á því tímabili jókst langmest, eða um 39,3%. Sala á hvítvíni í sumar jókst um 11,5% og salan á lagerbjór jókst um 5,1%. Sala á rauðvíni í sumar dróst aftur á móti saman um 0,7%. Sé litið á vinsælustu bjórtegundirnar sést að sala á Víking í dóst saman um tæp 13% en seldir voru 728 þúsund lítrar á fyrstu sex mánuðunum en 835 þúsund í fyrra. Faxe Premium í dós er næstsöluhæsti bjórinn í ÁTVR en salan á honum nam 367 þúsund lítrum og dróst saman um 7,68% á milli ára. Sala á Stella Artois í flösku jókst langmest af bjórtegundum. Aukningin á fyrstu sex mánuðum ársins nam 58,5%, sem að stórum hluta til má rekja til verðboðs sem efnt var til vegna bjórsins fyrr á árinu er Costco reyndi að fá umboðið á 33 cl. Stella í gleri, sem lækkaði verðið umtalsvert í þrjá mánuði.