Sýningin Auga fyrir auga verður opnuð í dag í Gallerí Vest að Hagamel 67 og verður opin kl. 14-17 laugardaga og sunnudaga til 25. ágúst.
Listakonurnar Jonna og Karólína, þ.e. Karólína Baldvinsdóttir og Jónborg Sigurðardóttir, sýna á henni verk sem þær unnu út frá eigin sjónskerðingum og annarra, til heiðurs blindum og sjónskertum á 80 ára afmæli Blindrafélagsins.
„Augað er viðfangsefni sýningarinnar og verða bæði málverk og þrívíð verk til sýnis. Gestum gefst einnig kostur á að skyggnast inn í heim blindra og sjónskertra með gleraugum sérútbúnum til að túlka ýmsar sjónskerðingar og fá þannig tækifæri til að skoða sýninguna með öðrum augum. Listakonurnar Karólína Baldvinsdóttir og Jonna/Jónborg Sigurðardóttir eru báðar blindar á öðru auga og er það innblástur sýningarinnar,“ segir í tilkynningu.