Náttúra Horft yfir Okið, fönnina sem þar til fyrir fáum árum var hægt að kalla jökul. Myndin er tekin úr norðvestri og í baksýn blasir við Þórisjökull sem er kúpulaga rétt eins og Okjökull var.
Náttúra Horft yfir Okið, fönnina sem þar til fyrir fáum árum var hægt að kalla jökul. Myndin er tekin úr norðvestri og í baksýn blasir við Þórisjökull sem er kúpulaga rétt eins og Okjökull var. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Afhjúpaður verður á morgun, sunnudag, minningarskjöldur um jökulinn Ok í Borgarfirði. Haustið 2014 lá fyrir að hann væri ekki lengur til sem slíkur, það er að snjór var hættur að falla undan eigin fargi.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Afhjúpaður verður á morgun, sunnudag, minningarskjöldur um jökulinn Ok í Borgarfirði. Haustið 2014 lá fyrir að hann væri ekki lengur til sem slíkur, það er að snjór var hættur að falla undan eigin fargi. Sú skilgreining ræður því hvort um sé að ræða jökul eða það sem fræðimann kalla dauðís.

Okjökull, kúpull í 1.198 metra hæð, blasti við víða úr Borgarfirði og var þekkt kennileiti. Um aldamótin 1900 var jökullinn 15 km² að flatarmáli. Hafði svo um árið 1950 minnkað um helming og var 0,7 km² í síðustu mælingu árið 2012. Þessi þróun líkist því sem gerist við ýmsa aðra jökla landsins. Til samanburðar má nefna að Snæfellsjökull er nú 10 km² að flatarmáli, en var 22 ferkílómetrar árið 1910. Haldi svo fram sem horfir gæti Snæfellsjökull verið horfinn um miðja þessa öld og koma þar til áhrif loftslagsbreytinga, segja vísindamenn.

Að uppsetningu skjaldarins á Oki standa Cymene Howe og Dominic Boyer, mannfræðingar og rannsóknafólk við Rice háskóla í Texas í Bandaríkjunum. Einnig koma að málum Oddur Sigurðsson jöklafræðingur og Andri Snær Magnason sem er höfundur texta á minningarskildinum sem ber yfirskriftina Bréf til framtíðar . Vænst er fjölmennis við afhjúpunina á Oki á morgun. Meðal viðstaddra verður Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Í texta Andra Snæs á skildinum segir að búast megi við að á næstu 200 árum fari allir jöklar sömu leið og Okjökull. Hvarf hans geti verið upphafið að öðru og meira. „Samkvæmt líkindareikingi vísindamanna á Veðurstofunni og Háskóla Íslands verður þróunin svona. Þarna eru í breytunni stærð jökla og loftslagsbreytingar, það er að andrúmsloftið hlýni um tvær gráður á öld,“ segir Oddur Sigurðsson um þróun mála.