Keppnismaður Einar Hansberg Árnason styrkir átak UNICEF gegn ofbeldi á börnum á óvenjulegan hátt.
Keppnismaður Einar Hansberg Árnason styrkir átak UNICEF gegn ofbeldi á börnum á óvenjulegan hátt. — Ljósmynd/Árni Svanur Guðbjörnsson
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Einar Hansberg Árnason lagði í gær af stað í hringferð til að styðja átak UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum. Á einni viku, eða til 24.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Einar Hansberg Árnason lagði í gær af stað í hringferð til að styðja átak UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum. Á einni viku, eða til 24. ágúst ætlar hann að stoppa í 36 sveitarfélögum og róa, skíða eða hjóla í sérstökum þrektækjum 13.000 metra á hverjum stað, einn metra fyrir hvert barn sem brotið er á.

Þátttaka Einars í átakinu hófst á Akranesi og hann lýkur ferðinni með því að hlaupa maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu til stuðnings UNICEF. „Ég er ekki auðugur fjárhagslega en ég hef ýmislegt að gefa og þetta er mín leið til þess,“ segir hann.

Um 18% barna á Íslandi verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur, eða um 13.000 börn. Síðastliðið vor hóf UNICEF fyrrnefnt átak undir yfirskriftinni „Stöðvum feluleikinn“. Ingibjörg Magnúsdóttir verkefnisstjóri segir að því ljúki þegar markmiðunum verði náð í öllum sveitarfélögum, að þau setji sér skýra viðbragðsáætlun gegn ofbeldi á börnum. Liður í átakinu sé að þrýsta á stjórnvöld til að koma upp ofbeldisvarnaráði. Inni í tölum um ofbeldi séu ekki börn sem verði fyrir vanrækslu, andlegu ofbeldi eða einelti og því megi ætla að tölurnar séu töluvert hærri. „Það hræðir okkur,“ segir Ingibjörg.

Samtaka í stuðningnum

Þegar Einar heyrði af herferð UNICEF segist hann hafa viljað leggja eitthvað af mörkum og eftir að hafa ráðfært sig við eiginkonuna Ásgerði Örnu Sófusdóttur hafi þau útbúið áætlun sem UNICEF hafi samþykkt. „Mér fannst tilvalið að enda þetta á maraþoni til styrktar UNICEF,“ segir hann og bætir við að þetta verði í fyrsta sinn sem hann hlaupi svo langa vegalengd. „Ég hef mest hlaupið 13 kílómetra í einu.“ Hann leggur áherslu á að hann sé ekki í keppni heldur reyni að ljúka hlaupinu til styrktar góðu málefni. „Ég vona bara að ekki verði búið að loka brautinni þegar ég klára.“ Þess má geta að fyrr í sumar gekk Einar 100 km með sleða í eftirdragi og farg á bakinu til styrktar Krabbameinsfélagi Hvammstangahéraðs og áður hafði hann róið 500 km í róðrarvél til styrktar öðrum góðum málstað.

Einar er með aðstoðarmenn í ferðinni og UNICEF er með tvo fulltrúa á hverjum stað til þess að upplýsa fólk um málefnið og taka við undirskriftum til stuðnings við það. „Konan mín er heilinn á bak við þetta, en bróðir minn er með mér og fjölskyldan er til taks,“ segir Einar, en nánari upplýsingar og dagskrá ferðarinnar má sjá á heimasíðu UNICEF (unicef.is).