Mig hefur lengi dreymt um að setja á laggirnar hljómsveit sem hefði það hlutverk eitt að leika gamla slagarann Hush; aftur og aftur í ýmsum útsetningum og mismunandi tóntegundum. Nafn hljómsveitarinnar yrði að sjálfsögðu Hushbandið.
Íslenskar útvarpsstöðvar hafa í áranna rás sýnt þessu merka lagi furðulega lítinn áhuga, jafnvel má tala um tómlæti í því sambandi, og Hushbandið myndi að sjálfsögðu stefna að því að rétta hlut þess á öldum ljósvakans.
Margir halda að breska rokkbandið Deep Purple hafi samið og frumflutt Hush á sínum tíma en það er rangt. Joe heitinn South, eða Jói að sunnan, eins og hann var jafnan kallaður heima á Akureyri, samdi lagið fyrir bandaríska kántríboltann Billy Joe Royal ári áður, það er 1967, og komst það alla leið í 52. sæti Billboard-listans. Sumum finnst það kannski ekkert merkilegt en þeim sömu bendi ég á, að 52. sæti er miklu betra en til dæmis 97. sæti. Hushbandinu má alls ekki rugla saman við ástralska glysrokkbandið Hush sem starfaði við góðan orðstír á árunum 1971-77 með Keith Lamb í broddi fylkingar.
Það er aðeins einn smávægilegur agnúi á þessum metnaðarfullu áformum mínum; ég spila ekki á eitt einasta hljóðfæri og er afleitur söngvari. En það gerir verkefnið bara ennþá meira ögrandi.
Orri Páll Ormarsson