— Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarkonan Kira Kira, Kristín Björk Kristjánsdóttir, er búin að vera óhemju iðin við kolann í ár og þrjár stórar plötur eru nú komnar út – auk ýmiss annars.

TÓNLIST

Arnar Eggert Thoroddsen

arnareggert@arnareggert.is

Járnin hafa einatt verið ansi mörg í sköpunareldi Kiru Kiru. Plötur, tónleikar, gjörningar, innsetningar, hljóðlist, myndbanda- og kvikmyndagerð, útsetningar, viðburðaskipulagningar og samstarf af alls kyns toga, með innlendu sem erlendu listafólki. Safnast þegar saman kemur og ferilskrá Kiru er með sanni tilkomumikil.

Nýútkomin plata, UNA , er í raun ástæða þess að ég sting niður penna nú, en hún er þannig lukkuð að ég hreinlega varð að tjá mig aðeins um það. En grein þessi birtist líka þegar umsvif eru óvenju mikil hjá tónlistarkonunni og áður en ég vind mér í greiningu UNU er gott að segja frá því helsta. Í dag, t.a.m., kemur út tíutommu deiliplata („split“) á vegum Reykjavík Record Shop þar sem lag Kiru Kiru, „Agni“ prýðir aðra hliðina en lagið „From Water“ eftir hinn bandaríska Aaron Roche lúrir á hinni (hann hefur t.d. unnið með Laurie Anderson, Psychic Temple, Sufjan Stevens og Anohni). Í apríl kom platan Summer Children út, sem er ánöfnuð Kiru Kiru og Hermigervli, og inniheldur tónlist þeirra við myndina Sumarbörn sem Guðrún Ragnarsdóttir gerði. Og í júní kom platan Motions Like These út, samvinnuverkefni hennar og Eskmo, sem er kvikmyndatónskáld frá Los Angeles. Tónlistin þar á rætur sínar í fimmtán stunda vinnulotu á Íslandi haustið 2014, í hljóðveri Alex Somers, og hafa þau mótað tónlistina og tálgað hana til á þolinmóðan hátt síðan, á milli heimila sinna í Los Angeles og Reykjavík.

UNA er í senn fallegt og næmt verk og ansi hreint tilkomumikið verður að segjast. Tónlistin er „ambient“-bundin og það er mikil list að ná góðum og sönnum tóni í þeim geira. Tónlistin má ekki vera of ágeng og heldur ekki of langt í burtu en á UNU næst stórgott jafnvægi á milli þessara þátta. Platan kom þá saman skjótt, og kom það höfundinum nánast á óvart, eins og hún lýsti í viðtali við Reykjavik Grapevine í júní. Það var Andrew Hargreaves úr The Tape Loop Orchestra sem bað Kiru Kiru um plötu fyrir Letra Rec-útgáfuna sína og segir hún, í sama viðtali, að hún væri til í að fólk legðist á gólfið með lokuð augun og léti tónlistina flæða yfir sig. Það virkar og það virkar vel (já, ég lagðist...). Kira Kira lýsir upptökuferlinu sem hráu og skemmtilegu, leikgleði hafi verið í fyrirrúmi og góðir vinir og samstarfsmenn hafi lagt gjörva hönd á plóg við að spinna þráðinn.

Ég gæti skrifað, að mér finnst, út í hið óendanlega um hin mörgu og fjölþættu verkefni Kiru Kiru. Hún er t.d. að skrifa tónlist fyrir Dream Corp LLC þættina sem Daniel Stessen gerir fyrir hið framsækna Adult Swim og svo er hún að vinna að kvikmynd um Jóhann Jóhannsson heitinn ásamt þeim Orra Jónssyni og Davíð Hörgdal Stefánssyni, en hún og Jóhann störfuðu náið saman að tónlist. Settu meðal annars Tilraunaeldhúsið á fót rétt fyrir síðustu aldamót, sem var gríðarlega mikilvægt hreyfiafl í neðanjarðartónlist þess tíma.

En þrátt fyrir ærinn starfa leggur Kira ríka áherslu á núvitund og léttleika, svo ég vitni til áðurnefnds viðtals: „Leikgleðin er allt. Ég reyni að halda henni á lofti í öllu því sem ég geri – lífið er nógu alvarlegt fyrir.“