Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Grænlenska landstjórnin og stjórnmálamenn í Kaupmannahöfn sögðu í gær að Grænland væri ekki til sölu, eftir að bandarískir fjölmiðlar skýrðu frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði rætt við ráðgjafa sína um hvort hægt væri að kaupa Grænland og sagt þeim að kanna þann möguleika.
„Grænland er ríkt af náttúruauðlindum á borð við málma, hreint vatn og ís, fiskstofna, sjávarfang, endurnýjanlega orku og er nú nýr kostur í ævintýraferðaþjónustu. Við erum opin fyrir viðskiptum, en ekki til sölu,“ sagði í yfirlýsingu frá ráðherra utanríkismála í grænlensku landstjórninni.
Nivi Olsen, formaður Demókrataflokksins á Grænlandi, telur að ekki sé hægt að taka ummæli Trumps alvarlega og þau feli í sér virðingarleysi gagnvart landinu, að sögn grænlenska fréttamiðilsins Sermitsiaq . „Ég segi nei, takk,“ sagði Aaja Chemnitz Larsen, önnur af tveimur þingmönnum Grænlands á danska þinginu og félagi í vinstriflokknum Inuit Ataqatigiit. „Það er líka mikilvægt að taka fram að Grænland er ekki verslunarvara.“
Rætt af mismikilli alvöru
Dagblaðið The Wall Street Journal skýrði frá því að Trump hefði ítrekað látið í ljós áhuga á því að Bandaríkin keyptu Grænland á fundum með ráðgjöfum sínum, í kvöldverðarboðum og óformlegum samtölum. The Washington Post og fleiri bandarískir fjölmiðlar staðfestu fréttina.The Wall Street Journal sagði að forsetinn hefði rætt málið af mismikilli alvöru við ráðgjafa sína og hafði eftir tveimur þeirra að hann hefði óskað eftir því að hugmyndin yrði könnuð frekar. Nokkrir ráðgjafa hans hefðu stutt hugmyndina og sagt að hún væri „gott efnahagslegt útspil“ en aðrir hefðu litið á hana sem „skammvinna hrifningu“ sem ekki yrði fylgt eftir. Blaðið sagði að Trump hefði sýnt Grænlandi mikinn áhuga á fundum sínum með ráðgjöfunum vegna náttúruauðlinda og hernaðarlegs mikilvægis landsins. Hann mun fyrst hafa rætt hugmyndina eftir að honum var sagt að Danmörk þyrfti að veita Grænlandi mikla fjárhagslega aðstoð. Trump er að undirbúa heimsókn til Danmerkur 2.-3. september og ræðir þá við Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Kim Kielsen, formann grænlensku landstjórnarinnar. Ekkert bendir þó til þess að möguleg kaup á Grænlandi verði á meðal fundarefnanna.
„Fáránleg hugmynd“
Stjórnmálamönnum í Danmörku svelgdist á morgunkaffinu þegar þeir lásu fréttir um þennan áhuga Bandaríkjaforseta á Grænlandi. Þeir virtust vera á einu máli um að þetta væri „slæmur brandari“, að sögn fréttavefjar danska ríkisútvarpsins.„Ég vona að þetta sé spaug því að þetta er hræðileg og fáránleg hugmynd. Ég er viss um að þetta myndi baka bæði Danmörku og Grænlandi mikið tjón,“ hafði vefurinn eftir Martin Lidegaard, formanni utanríkisnefndar danska þingsins og talsmanni Radikale Venstre í utanríkismálum.
„Þetta hlýtur að vera 1. apríl-gabb ... en á alröngum tíma,“ sagði Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre og fyrrverandi forsætisráðherra. Marcus Knuth, talsmaður Venstre í málefnum Grænlands, sagði að Grænland væri ekki verslunarvara. „Hvorki Grænland, Láland, Bornholm né aðrir hlutar Danmerkur eru til sölu. Við höfum haft náið samstarf við Bandaríkin í öryggismálum á norðurslóðum en það er algerlega út í hött að viðra þá hugmynd að kaupa Grænland,“ sagði hann.
Karsten Hønge, talsmaður Sósíalíska þjóðarflokksins í utanríkismálum, sagði að hjá Trump væru mörkin á milli „raunverulegra stjórnmála og sýruheimsins“ mjög óskýr. „Þótt hann komi úr heimi þar sem allt er falt tel ég að hann verði fyrir vonbrigðum að þessu sinni.“
„Ef rétt er að hann vinni að þessari hugmynd þá er það óhrekjanleg sönnun þess að hann sé orðinn galinn,“ sagði Søren Espersen, talsmaður Danska þjóðarflokksins í utanríkismálum. „Sú hugmynd að Danmörk eigi að selja 50.000 ríkisborgara til Bandaríkjanna er algerlega galin.“
„Snjall leikur“
Mike Gallagher, repúblikani í fulltrúadeild Bandaríkaþings, sagði að hugmynd Trumps væri „snjall leikur“ vegna hernaðarlegs mikilvægis landsins. „Bandaríkin hafa mikilla hagsmuna að gæta á Grænlandi og þess vegna ætti þetta að vera á borðinu,“ sagði hann.Jon Rahbek-Clemmensen, lektor við Varnarmálaakademíu Danmerkur, segir að stjórnvöld í Bandaríkjunum hafi haft vaxandi áhuga á Grænlandi á síðustu árum vegna hernaðarlega mikilvægrar legu landsins. Hann bendir á að Thule-stöðin á Grænlandi gegnir mikilvægu hlutverki í eldflaugavörnum Bandaríkjanna vegna ratsjárkerfis sem sett var upp til að geta brugðist sem fyrst við hugsanlegri eldflaugarárás. Hann segir að bandarísk stjórnvöld hafi áhyggjur af auknum umsvifum rússneska hersins á norðurslóðum og telji þau geta gert Rússum kleift að gera árás á Thule-stöðina. Bandaríkjamenn hafa einnig áhyggjur af áformum Kínverja um fjárfestingar í námum og samgöngumannvirkjum á Grænlandi til auka áhrif sín á norðurslóðum, að því er Sermitsiaq hefur eftir Rahbek-Clemmensen.
Truman vildi kaupa Grænland
» Fram hafa komið vísbendingar að undanförnu um að stjórnvöld í Bandaríkjunum og Kína stefni að auknum umsvifum á Grænlandi og líti svo á að vægi landsins sé að aukast.
» Áhugi Bandaríkjamanna á Grænlandi er ekki nýtilkominn. Harry Truman, þáverandi forseti, vildi að Bandaríkin keyptu landið fyrir 100 milljónir dala árið 1946 en Danir höfnuðu tilboðinu.
» Þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna kannaði þann möguleika að kaupa Grænland og Ísland árið 1867 en lítill stuðningar var við þá hugmynd á bandaríska þinginu.