Eigandi Jón Örn er eigandi sælkerafyrirtækisins Kjötkompanís.
Eigandi Jón Örn er eigandi sælkerafyrirtækisins Kjötkompanís. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Hagnaður Kjötkompanís var aðeins 1,5 milljónir króna árið 2018 og dróst verulega saman milli ára. Árið áður var hagnaðurinn rétt ríflega 16 milljónir króna.

Hagnaður Kjötkompanís var aðeins 1,5 milljónir króna árið 2018 og dróst verulega saman milli ára. Árið áður var hagnaðurinn rétt ríflega 16 milljónir króna.

Rekstrartekjur fyrirtækisins jukust um 180 milljónir króna milli ára og voru um 917 milljónir króna árið 2018. Að sama skapi jukust rekstrargjöld Kjötkompanís um nær 200 milljónir króna frá árinu 2017, sem jafnframt olli því að hagnaður dróst saman.

Kostnaður vegna seldra vara var tæplega 60% alls kostnaðar í fyrra og jókst um 110 milljónir króna frá árinu 2017. Alls námu rekstrargjöld fyrirtækisins 908 milljónum króna árið 2018 en 712 milljónum króna árið áður.

Eigið fé félagsins í árslok var ríflega 20 milljónir króna. Þar af var óráðstafað eigið fé um 19,5 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall Kjötkompanís í upphafi árs 2019 var 36%. Enginn arður var greiddur til hluthafa á árinu og var arðsemi eigin fjár nær 8%.

Kjötkompaní var stofnað fyrir tíu árum en eigandi fyrirtækisins er Jón Örn Stefánsson matreiðslumaður. Kjötkompaní sérhæfir sig í smásölu á kjöti og kjötvöru í sérverslunum auk þess að bjóða upp á vöruúrval sem miðar að því að uppfylla heildarlausnir í matarinnkaupum viðskiptavina.

Samtals voru starfsmenn Kjötkompanís 23 talsins árið 2018.

aronthordur@mbl.is