Mennta- og menningarmálaráðherra og formaður Blaðamannafélagsins hitta naglann á höfuðið

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, lýsti áhyggjum af veikri stöðu einkarekinna fjölmiðla í viðtali við Morgunblaðið í gær. Þar sagði hún fyrirhugað fjölmiðlafrumvarp geta leitt til verulegra breytinga að þessu leyti. Verið væri að skoða leiðir til að jafna stöðu íslenskra og erlendra fjölmiðla á auglýsingamarkaði en virðisaukaskattur væri greiddur af auglýsingum innlendra miðla en ekki af auglýsingu erlendra miðla, sem væru einkum Facebook, Google og slíkir.

Þetta segir hún réttilega að sé stórmál og bendir á að Norðurlöndin og ESB séu að skoða skattlagningu þessara erlendu netmiðlarisa. Bandarísk stjórnvöld hafa ekki tekið þeim hugmyndum fagnandi, en benda má á að í fyrra heimilaði hæstiréttur Bandaríkjanna einstökum ríkjum að leggja söluskatt á netsölu þó að seljandinn væri staðsettur utan ríkismarkanna. Enginn eðlismunur er á skattlagningu af því tagi og af hálfu annarra ríkja gagnvart bandarískum netrisum.

Með hliðsjón af þessari skökku skattalegu stöðu innlendra og erlendra miðla, auk þess hvernig þessir erlendu miðlar hagnýta efni innlendra miðla endurgjaldslaust, er svo líka umhugsunarvert að hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, auglýsa óhikað á þessum erlendu miðlum. Jafnvel alþjóðleg fyrirbæri sem Ísland á aðild að, eins og Norræna ráðherranefndin, setja auglýsingafé í þessa alþjóðlegu risamiðla.

Lilja Dögg sagðist í viðtalinu einnig hafa talað fyrir því að horft yrði til Norðurlandanna hvað varðaði ríkisfjölmiðla og auglýsingamarkað, en þar væru ríkisfjölmiðlar ekki á auglýsingamarkaði. „Ég teldi farsælast að svo væri líka á Íslandi, ásamt því að vera með styrki til fjölmiðla, eins og boðað er í fjölmiðlafrumvarpinu,“ sagði hún. Þetta er hvort tveggja gert annars staðar á Norðurlöndunum og víðar til að styðja við einkarekna fjölmiðla og almennt er viðurkennt að þörfin fyrir beinan og óbeinan stuðning hafi aukist á síðustu árum samhliða hraðri tækniþróun.

En fleira er gert víðast hvar í þeim löndum sem Ísland ber sig helst saman við og það er að nota skattkerfið til að styðja við einkarekna fjölmiðla. Þetta er almenn leið, ekki styrkir heldur óbeinn stuðningur, sem víðast felst í því að virðisaukaskattur af áskriftum ef felldur niður eða hafður mjög lágur.

Í þessu sambandi er ástæða til að vekja athygli á orðum Hjálmars Jónssonar, formanns Blaðamannafélags Íslands, sem bendir í samtali við Morgunblaðið í dag á að íslenskir fjölmiðlar séu á erfiðum tímamótum og kominn sé tími til að endurskoða skattaumhverfi fjölmiðlanna enda taki það mið af gömlu rekstrarumhverfi sem eigi ekki lengur við. Eðlilegt fyrsta skref sé að afnema tryggingagjald og virðisaukaskatt af áskriftum og auglýsingum.

Orð Lilju Daggar og Hjálmars um stöðu einkarekinna fjölmiðla eiga því miður við rök að styðjast og sé stjórnvöldum alvara með að grípa þurfi til aðgerða má það ekki dragast lengur. Og þá þarf að hafa í huga að þær aðgerðir gagnist þeim sem halda úti raunverulegum ritstjórnum og stunda almenna fjölmiðlun. Hafa má í huga að þáverandi menntamálaráðherra skipaði nefnd vegna erfiðs rekstrarumhverfis einkarekinna fjölmiðla í árslok 2016. Þá hafði um langa hríð verið ljóst að í óefni stefndi. Síðan hafa verið skrifaðar skýrslur og þessi mál rædd fram og til baka. Nú er komið að því annaðhvort að grípa til aðgerða sem duga eða að draga til baka þau skilaboð að aðgerða sé að vænta. Engum rekstri er greiði gerður með því að ræða árum saman um að bæta rekstrarumhverfið án þess að til aðgerða komi.