Listhópur A Kassen hefur tekið að sér ýmis verkefni. Hér er hópurinn við nýlegt listaverk sitt, „Pour“, við sjávarsíðuna í Árósum í Danmörku. Frá vinstri þeir Tommy Petersen, Christian Bretton-Meyer, Søren Petersen og Morten Hebsgård.
Listhópur A Kassen hefur tekið að sér ýmis verkefni. Hér er hópurinn við nýlegt listaverk sitt, „Pour“, við sjávarsíðuna í Árósum í Danmörku. Frá vinstri þeir Tommy Petersen, Christian Bretton-Meyer, Søren Petersen og Morten Hebsgård. — Ljómsynd/A Kassen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika S. Magnúsdóttir veronika@mbl.is Sýningin Mother and Child , þ.e. Móðir og barn , eftir hinn þekkta, danska listhóp A Kassen, var opnuð í Kling & Bang galleríinu í Marshallhúsinu í gær.

Veronika S. Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Sýningin Mother and Child , þ.e. Móðir og barn , eftir hinn þekkta, danska listhóp A Kassen, var opnuð í Kling & Bang galleríinu í Marshallhúsinu í gær. Verk hópsins spanna allt frá gjörningum yfir í skúlptúra og ljósmyndir, gjarnan með hlutum sem hópurinn hefur orðið sér úti um og sýnir frá nýstárlegu sjónarhorni. Á sýningunni verður mununum stillt upp á þann hátt að áhorfendur velta vöngum yfir upprunalegu notagildi þeirra.

Koma úr ólíkum áttum

A Kassen leggur sig fram um að skapa aðstæður sem eru í senn undarlegar og hversdagslegar en það er gert með háðsádeilu á hversdagslegum háttum og afbyggingu línulegrar frásagnar, svo eitthvað sé nefnt. Við þetta allt saman blandast fáranleiki, vonleysi og húmor. Listhópurinn samanstendur af fjórum listamönnum, þeim Christian Bretton-Meyer, Morten Steen Hebsgaard, Sören Petersen og Tommy Petersen. Þeir eiga ólíka ferla að baki og kynntust í Listaháskóla Kaupmannahafnar.

„Christian var ljósmyndari, Morten vann skúlptúra og ég var aðallega að mála þegar við kynntumst í akademíunni. En síðan tókum við saman og hófum að vinna að nýjum verkefnum. Það var áhugavert hvernig við skoruðum á hvort annað og mér finnst það alltaf vera þannig að þegar við fáum boð um að halda sýningu vitum við aldrei hverju við megum eiga von á. Vegna þess að það er ekki undir einum listamanni komið heldur fjórum,“ segir Tommy Petersen í samtali við Morgunblaðið.

Keyptu skúlptúra á uppboði

Skúlptúrana þrjá, sem eru til sýnis á sýningunni, keypti hópurinn á uppboði erlendis. Einn þeirra er skúlptúr af móður og barni og vísar titill sýningarinnar í þann skúlptúr. Tommy segir að skúlptúrinn Móðir og barn hafi verið gamaldags, klassískur og heillandi og því hafi verið ákveðið að nefna sýninguna í höfuðið á honum. „Mér finnst titillinn fallegur, gamaldags og kannski ekki svo algengur í nútímalist,“ segir Tommy.

Sænski sýningarstjórinn og rithöfundurinn Jonatan Habib Enqvist hefur stýrt fjölda sýninga A Kassen og segir í umfjöllun sinni um Mother and Child að rithöfundurinn Éric Chevillard komi oftast upp í huga hans þegar hann hugsar um „hina snjöllu, slungnu og stundum gamansömu listsköpun A Kassen.“

Söguhetjan í bók Chevillards, Au Plafond , frá árinu 1997 gengur aðeins í gráum fötum til að láta sem minnst á sér bera, því hann þarf stöðugt að bera stól á hvolfi á höfðinu. Þegar hann flytur inn á kærustu sína kemur í ljós að svefnherbergið er of lítið til að allir komist fyrir svo að heimili er búið til í loftinu þar sem meira pláss er.

Á sýningu A Kassen í Kling & Bang er loftið einmitt orðið að gólfi, á sýningunni blasir við bronsstytta í raunstærð sem heitir „View from Below (Standing Woman)“ eða „Horft að neðan frá (Standandi kona) “. Styttan stendur á hvolfi svo að stallurinn á henni flúttar við gólfið svo áhorfendur geta aðeins séð hana ofan og innan frá. Styttan er stór í sniðum og þess vegna hangir hún neðan úr loftinu á hæðinni fyrir neðan, þar sem hún stendur út úr loftinu. Í umfjöllun sinni segir Jonatan að hún komi fyrir sjónum eins og „dropasteinn eða undarleg ljósakróna“.

Skúlptúrunum „Móðir og barn“ og „Horft neðan frá“ hefur verið stillt upp á svipaðan hátt og bronsstyttunni í fremsta sýningarrými gallerísins, en þó geta áhorfendur aðeins séð þá innan frá. Í nálægð við þessa skúlptúra á röngunni má sjá seríu af ljósmyndum, „Undir höfum“, sem sýna brot af brotnu hnattlíkani. Brotin á myndunum eru þau sem sýna hafsvæði hnattarins og þau snúa þannig að innri hlið þeirra snýr út og ljósmyndirnar eru teknar við bláan bakgrunn.

„Hugmyndin er að taka myndir af tilteknum hlut og útkoman veltur á hugmyndinni sem við fáum. Við hengjum myndirnar upp og erum nú að leika okkur með það hversu margar við viljum hafa þær,“ segir Tommy og minnist á brotna hnattlíkanið, verkið „Undir hafinu“, sem verður til sýnis: „Hnötturinn er mölbrotinn og við heilluðumst af litlu brotunum sem er hægt að sjá innan frá. Síðan mynduðum við hvert og eitt brot,“ segir hann.

Þegar gengið er inn í galleríið blasa við tveir bronsfiskar og í skúlptúrnum „Central Heating Fountain Sculpture“ er gosbrunnurinn í raun tengdur inn í leiðslur byggingarinnar, við sjálft pípulagnakerfi Marshallhússins.

Sýningin var opnuð í gær, sem fyrr segir, og stendur yfir til 29. september.