Snörp orðaskipti urðu á fundi um þriðja orkupakkann í utanríkismálanefnd Alþingis í gær á milli einstakra þingmanna og héraðsdómarans Arnars Þórs Jónssonar.
Hann hafði lagt minnisblað fyrir fundinn þar sem meðal annars er talað um að lögun að regluverki Evrópusambandsins í orkumálum feli í sér „takmörkun á fullveldi þjóðarinnar í raforkumálum“. Í minnisblaðinu segir Arnar einnig að það að innleiða andmælalaust erlendar reglur sé að gangast við óbeislaðri „útþenslu setts réttar“ í „viljalausri þjónkun“. Það grafi undan tilverurétti löggjafarþings Íslendinga.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar, sagði málflutning Arnars móðgun við sig og aðra nefndarmenn. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók í sama streng.
EES-samningi stefnt í uppnám
Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður og sérfræðingur í orkurétti, kom fyrir fundinn og sagði að beinlínis væri erfiðara að skylda Ísland til að leggja sæstreng ef Ísland innleiddi þriðja orkupakkann en ella.Margrét Einarsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og einn þriggja höfunda álitsgerðar um lagalegar afleiðingar synjunar orkupakkans, sagði að synjun samningsins myndi stefna EES-samningnum í uppnám. Hún sagði ekkert ákvæði í þriðja orkupakkanum sem skyldaði íslensk stjórnvöld til að leggja sæstreng eða heimila lagningu hans.
Gestir fundarins höfðu flestir áður komið fyrir utanríkismálanefnd eða atvinnuveganefnd. Aðrir höfðu tjáð sig nokkuð um þriðja orkupakkann í opinberri umræðu. Arnar var sá eini sem kom fyrir nefndina sem varaði við samþykkt hans. Boðað er til annars fundar í nefndinni um orkupakkan næstkomandi mánudag.