Ingólfur og Hallveig, frumbyggjar Íslands.
Ingólfur og Hallveig, frumbyggjar Íslands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjónin Hallveig Fróðadóttir og Ingólfur Arnarson komu hingað að óbyggðu landi. A.m.k. er viðtekin skoðun að hér hafi ekki verið neitt fólk fyrir, nema papar, írskir einsetumunkar sem hurfu á brott því að þeim var ekki vært innan um norræna menn.

Hjónin Hallveig Fróðadóttir og Ingólfur Arnarson komu hingað að óbyggðu landi. A.m.k. er viðtekin skoðun að hér hafi ekki verið neitt fólk fyrir, nema papar, írskir einsetumunkar sem hurfu á brott því að þeim var ekki vært innan um norræna menn. Íslendingar eru því í ákveðnum skilningi frumbyggjar – en telst íslenska þar með frumbyggjamál?

Fróðlegt er að velta þessu fyrir sér í ljósi þess að Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) hefur tileinkað árið 2019 frumbyggjamálum. Það er bæði gert í þágu þeirra sem sem tala frumbyggjamál og til að vekja almenning til vitundar um gildi slíkra mála fyrir menningarlegra fjölbreytni í heiminum. Við Háskóla Íslands er stutt við þessa viðleitni hjá Vigdísarstofnun, alþjóðlegri miðstöð tungumála og menningar sem starfar undir merkjum UNESCO.

Ekki er fyllilega ljóst hvernig á að skilgreina frumbyggja og þá ekki heldur frumbyggjamál. Samkvæmt mælikvörðum UNESCO er áætlað að 370 milljónir manna í níutíu löndum teljist til frumbyggja. Flest tungumál sem þetta fólk talar eru í mjög viðkvæmri stöðu. Af sjö þúsund tungumálum sem töluð eru í heiminum eru um 2700 í útrýmingarhættu. UNESCO skiptir tungumálum í fimm flokka eftir líkum á útrýmingu:

„Öruggt“; talað af börnum heima fyrir og miðlun milli kynslóða er algjör.

„Viðkvæmt“; ekki talað af börnum heima fyrir og lítið notað á opinberum vettvangi.

„Örugglega í útrýmingarhættu“; ekki talað af börnum.

„Í verulegri útrýmingarhættu“; aðeins talað af eldri kynslóðum.

„Í mikilli útrýmingarhættu“; einungis talað af nokkrum einstaklingum af eldri kynslóðunum, oftast ekki reiprennandi.

Michael E. Krauss, frumkvöðull í rannsóknum á frumbyggjamálum, bjó til annað flokkunarkerfi þar sem tungumál er talið „í útrýmingarhættu“ ef líkur eru á að börn tali það ekki eftir 100 ár. (Þess má geta að Krauss, sem er nýlátinn, dvaldist á Íslandi á sjötta áratugnum og telst því Íslandsvinur.) Hvað um það, helsti mælikvarðinn á stöðu tungumála er hvort og að hvaða marki börn tala málið.

Rétt er að ítreka að stærð málsamfélagsins segir ekki alla söguna um það hvort tungumál er í útrýmingarhættu eða ekki. Þannig tala t.d. býsna fjölmenn samfélög á Indónesíu tungumál sem eru í útrýmingarhættu. Íslenska er hins vegar ekki í útrýmingarhættu samkvæmt þessari mælistiku þrátt fyrir smæð íslenska málsamfélagsins, enda er íslenska töluð af börnum heima fyrir og miðlun milli kynslóða alger. Þó er vitaskuld nauðsynlegt að vera stöðugt á verði gagnvart erlendum áhrifum á málið.

Tungumál deyja út fyrir augunum á okkur með ógnvænlegum hraða. Það blasir við að dauði tungumáls felur í sér óafturkræfa glötun menningarverðmæta. Ákvörðun Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna að lýsa 2019 ár frumbyggjamála ber að skilja með hliðsjón af því.

Þórhallur Eyþórsson tolli@hi.is

Höf.: Þórhallur Eyþórsson tolli@hi.is