...birtist nú í orkupakka 3

Gömlu evrópsku nýlenduveldin voru ekki að ásælast ríki í Afríku, Mið-Austurlöndum og Asíu til þess að ná yfirráðum yfir fólki. Að baki lá eftirsókn eftir auðlindum. Og þau náðu yfirráðum yfir auðlindum í öðrum heimshlutum í krafti hervalds. Þetta var í raun þjófnaður. Þau voru að ræna eignum annarra. Yfir slíku athæfi hefur aldrei þótt hvíla neinn glæsibragur, þótt þessi gömlu nýlenduveldi hafi leitazt við að sveipa þetta tímabil dýrðarljóma. En hér og þar má sjá vísbendingar um endurmat á þeirri sögu og tími til kominn.

Við Íslendingar upplifðum dauðateygjur nýlenduveldanna. Veiðar brezkra togara í fiskveiðilögsögu okkar undir herskipavernd voru af sama toga. Þetta var þjófnaður í krafti hervalds.

Hið sama má segja þegar kemur að þjóðnýtingu Egypta á Súez-skurðinum sumarið 1956. Hvaðan kom Bretum og Frökkum réttur til að búa til skipaskurð í öðru landi og ætla að tryggja yfirráð sín yfir honum með hervaldi? Og kalla þjóðnýtingu Egypta þjófnað að auki!

Þetta er ljót saga og fjarri því að hægt sé að kenna hana við glæsileika.

Þessi eftirsókn gömlu nýlenduveldanna eftir auðlindum annarra þjóða hefur tekið á sig nýja mynd í samtíma okkar.

Þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðild fyrir Íslands hönd að Evrópusambandinu sumarið 2009 var alltaf ljóst að með aðild mundu fiskimiðin við Ísland færast undir stjórn embættismanna í Brussel í smáu og stóru vegna þess að þá hefði Ísland fallið undir sameiginlega fiskveiðistefnu ESB.

Það tókst að koma í veg fyrir það.

Nú er að verða til það sem kallað er sameiginlegur orkumarkaður ESB. Og nú er að því stefnt í krafti EES-samningsins að fella Ísland undir regluverk þess sameiginlega orkumarkaðar. Hvers vegna töldum við Íslendingar hagstætt fyrir tæpum þremur áratugum að gera þann samning? Það var vegna þess, að með honum gátum við tryggt okkur aðgang að fiskmörkuðum í Evrópu.

Nú eru að vísu að verða breytingar á. Bretland er á leið út úr ESB og Bretland hefur alltaf verið einn af okkar mikilvægustu fiskmörkuðum. En þar að auki hafa opnast aðrir markaðir fyrir fiskafurðir okkar. Og heyra má á fiskútflyjendum, að þeir telja ekki mikið mál að auka fisksölu til annarra markaða. En það er önnur saga.

Það var ekki markmið þeirra, sem gerðu EES-samninginn, að hleypa gömlu nýlenduveldunum í Evrópu til áhrifa í nýtingu á hinni mestu auðlind þjóðarinnar, þ.e. orku fallvatnanna. En samþykki Alþingi orkupakka 3 er það ígildi þess að við hefðum fallizt á að færa yfirráð yfir fiskimiðum okkar til Brussel. Þetta er sagt vegna þess að með samþykkt orkupakkans verðum við hluti af regluverki hins sameiginlega orkumarkaðar í Evrópu. Og jafnvel þótt enginn sæstrengur yrði lagður mundi áhrifa hans gæta hér.

Gömlu nýlenduveldin eru enn að. Þau eru enn að ásælast auðlindir annarra þjóða. En nú er öðrum aðferðum beitt. Þar er hvorki herskipum né annars konar hernaðartólum beitt heldur her skriffinna í Brussel, sem búa til ótrúlegar lagaflækjur til þess að binda viðsemjendur sína í fjötra, sem þeir sjá ekki fyrir, þar sem þeir sitja við samningaborðið.

Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma datt engum í hug, að í krafti hans mundu ESB-ríkin reyna að ná áhrifum í nýtingu auðlinda á Íslandi. Hafi einhverjum dottið það í hug hafa þeir hinir sömu þagað vandlega yfir því.

Um þetta snýst orkupakkamálið nú.

Endalausar lagaskýringar fram og til baka eru ekki kjarni málsins.

Heldur sú staðreynd að með því að samþykkja orkupakka 3 erum við að gefa frá okkur yfirráð yfir annarri mestu auðlind okkar.

Frá því að EES-samningurinn var gerður hefur að vísu orðið til ný auðlind, sem er náttúra landsins, sem dregur hingað ferðamenn. Sú auðlind kann hins vegar að vera fallvaltari en við höfum gert okkur grein fyrir. Í Danmörku eru hafnar umræður um að nauðsynlegt sé að skattleggja flugfargjöld í ríkara mæli með þeim rökum, að þau endurspegli ekki kostnað við flugið í formi áhrifa þess á loftslagsbreytingar.

Slíkar umræður gætu orðið til þess að ferðamennirnir hverfi jafn snögglega og síldin hvarf í gamla daga. Og jafnframt gjörbreyta öllum rekstrarforsendum flugfélaga á Íslandi. Kannski er kominn tími á að Eimskip byggi nýjan Gullfoss.

Það sem hér hefur verið sagt hefur ekki verið ríkjandi þáttur í umræðum um orkupakkann undanfarna mánuði en er þó kjarni málsins.

Sjálfstæðisflokkurinn á eftir að taka ákvörðun um ráðherra. Sú staðreynd hefur áhrif á afstöðu einhverra þingmanna hans, sem gera sér vonir um slíkt embætti.

Það er erfiðara að skilja, hvers vegna Framsóknarflokkurinn tekur þátt í þessum leik, vegna þess að hann er einfaldlega í lífshættu.

Samfylkingin og Viðreisn fagna vegna þess að þeir tveir flokkar hafa það beinlínis á stefnuskrá sinni að færa yfirráð yfir íslenzkum auðlindum í hendur Brussel.

Afstaða VG er óskiljanleg.

Forystumenn stjórnarflokkanna hafa uppi falleg orð um að þeir vilji „hlusta“ á fólk og að skoðanaskipti um ágreiningsmál séu mikilvæg.

Veruleikinn er allt annar – því miður.

Innan dyra kveður við annan tón.

Þingmenn hafa tvær vikur til að ná áttum.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is